133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var á stórum bændafundi í síðustu viku þar sem Valdimar Einarsson var með erindi. Valdimar er íslenskur bóndasonur úr Dölunum en hefur búið á Nýja-Sjálandi. Var fyrst starfsmaður landbúnaðarins þar og er nú starfsmaður bankanna. Hann benti á að um 80–90% af heimsverslun með landbúnað væri í höndum Nýsjálendinga. Þannig að heimsverslun á landbúnaðarvörum er ekki svo mikil.

Hann benti líka á að tollvernd á þeim vörum sem eru framleiddar hér á landi og við viljum framleiða hér, bæði hvað varðar atvinnulega og líka hollustulega þætti og einnig til að nýta hinar íslensku auðlindir, við munum ekki standast það nema í gegnum tollvernd.

Ef við lítum á landbúnaðarvörumarkaðinn í heild sinni þá eru það í raun sárafáir vöruflokkar sem njóta tollverndar inn í landið eða framleiðsla sem nýtur tollverndar. Við erum með hæsta, að ég held, hlut af innfluttum landbúnaðarvörum án tollverndar í heiminum. Þetta er allt korn, stór hluti grænmetis, olía, soja og sykur. Allt saman er þetta tollfrjálst eða ekki með sérstaka tolla. Það er bara innlend landbúnaðarframleiðsla.

Það er alveg hárrétt að þetta er pólitísk ákvörðun. Viljum við hafa þetta svo eða viljum við vera undirorpin öðrum? Eins og Valdimar Einarsson benti á, þið fáið ekkert val hvers konar rusl þið flytjið inn. Þið hafið ekkert val. Það verður bara flutt inn og svo verður ykkur bara sagt að éta.

Það er því pólitísk ákvörðun hvort við viljum standa vörð um bæði íslenskan landbúnað og að nýta íslenska auðlind, (Forseti hringir.) íslenskt vinnuafl o.s.frv. (Forseti hringir.) Þá pólitísku stefnu höfum við, að það skuli gert.