133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:17]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað hugsanlegt að þær yfirlýsingar sem Björn Ingi Hrafnsson hefur gefið varði þau 10% framsóknarmanna sem eru horfin frá fylgi við flokkinn en ekki þau 8% sem hugsanlega styðja flokkinn enn.

Ég hjó eftir einu sem mér þótti athyglisvert í máli hv. þingmanns. Hún sagði að í upphafi kjörtímabilsins hefði Sjálfstæðisflokkurinn haft ákveðna stefnu — ég gat ekki skilið hana öðruvísi en svo að hún teldi að sú stefna hefði verið að selja Ríkisútvarpið — en að nú hefði Sjálfstæðisflokkurinn horfið frá þeirri stefnu. Þetta staðfestir og undirstrikar allt sem ég sagði í ræðu minni að þegar lagt var af stað með þetta mál var það tilgangur Sjálfstæðisflokksins að selja Ríkisútvarpið. Það gleður mig í sjálfu sér að hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir hefur skynjað þetta með sama hætti og ég.

Hins vegar er það svo að ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um að Framsóknarflokkurinn hafi beygt Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli. Þvert á móti er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aftur og aftur kúgað Framsóknarflokkinn í þessu máli, aftur og aftur hefur Sjálfstæðisflokkurinn neytt hann til þess að kyngja hlutum sem hann ekki vildi kyngja. Þegar Framsóknarflokkurinn lýsti því yfir að hann vildi alls ekki hlutafélagsformið lét hann Sjálfstæðisflokkinn nánast blekkja sig með því að segja að það væru skýr fyrirmæli frá ESA að taka verði upp hlutafélagsform. Þegar stjórnarandstöðunni tókst síðan loks að rífa með töngum og kreistingum ummæli og álit ESA út úr hæstv. menntamálaráðherra kom í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn var að blekkja. Það stóð ekkert um það, einungis að sameignarformið dygði ekki.

Í hverju málinu á fætur öðru, allt frá Írak til Ríkisútvarpsins, hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagst af ofurþunga á Framsóknarflokkinn (Forseti hringir.) og rifið hann á hol. (Forseti hringir.) Það er ástæðan fyrir …