133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[12:39]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði er á ferðinni mikið réttlætismál. Þetta er eitt af þeim málum sem stjórnarandstaðan gerði samkomulag við ríkisstjórnina um að hraða för í gegnum þingið. Það höfum við gert, veittum því afbrigði á sínum tíma til að það kæmist strax á dagskrá og greiddum fyrir för þess í gegnum hv. félagsmálanefnd.

Hluti af þessu máli felur í sér færslu á umsýslu Fæðingarorlofssjóðs frá Tryggingastofnun ríkisins yfir til Vinnumálastofnunar. Það kom vel fram á fundi félagsmálanefndar að þar er um að ræða aðgerð sem beinlínis er byggðaaðgerð. Verið er að flytja þetta verk út á land, til Hvammstanga, til að skapa þar níu störf. Það er mín tilfinning að umdeilanlegt sé að gera slíkt, nema ærnar ástæður séu til. Ég er ekki að leggjast gegn því, en ég spyr án þess að ætlast beinlínis til svars: Leiddi þetta til þess að níu störf hurfu hjá Tryggingastofnun? Hugsanlega leiddi þetta til þess að einhver fækkun varð þar. En í öllu falli er ljóst að leggja þurfti í drjúgan stofnkostnað sem hleypur á tugum milljóna kr. við að byggja upp tölvukerfi. Þar var ekki hægt að beita beinni yfirfærslu kerfa. Stofnkostnaðurinn við þetta er því töluverður. Rekstrarkostnaður ríkisins í heild mun að öllum líkindum aukast. Þarna er því dágott dæmi um hvernig ríkið bólgnar út.

Ég hef oft sagt að það er vel í það leggjandi fyrir ríkið að seilast nokkuð langt til að ýta undir störf á landsbyggðinni. Þetta verkefni er þó líkast til dæmi um verk sem mætti skilgreina undir það sem við í Samfylkingunni höfum kallað störf án staðsetningar og obbann af þessu væri sennilega hægt að vinna með nútímatækni eiginlega hvar sem er. Þannig held ég að í framtíðinni, þegar koma upp ný verkefni hjá hinu opinbera, eigi að reyna að vista verk. Ég er þeirrar skoðunar að fara eigi yfir öll störf ríkisins og skilgreina þau sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar með nútímatækni og nota síðan veltuna innan starfsmannamengis ríkisstofnana til að koma með þeim hætti störfum út úr bákninu.

Ég tek líka undir það sem ég held að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sagt við umræðuna, hvort ekki hafi verið hægt að bjóða þessi verk út. Ég held að það hefði vel getað svarað kostnaði og ríkið ætti að velta slíku fyrir sér. Það ekki síst mundi ýta undir landsbyggðina því hún mundi örugglega taka slíkum tækifærum fagnandi og það hefði hagsbætur í för með sér til ýmissa verka.

Ég vil hins vegar vekja eftirtekt á því að rekstur sjóðsins mun kosta ríflega 70 millj. kr. á ári, 75 jafnvel. Það kom glöggt fram hjá fulltrúa Vinnumálastofnunar á fundi félagsmálanefndar að 30 millj. kr. vantar upp á fjárveitingu ríkisins til að hægt sé að segja að ríkið hafi gefið það tannfé með flutningnum sem nauðsynlegt er. Það liggur fyrir að margvíslegum verkefnum hefur verið hlaðið á Vinnumálastofnun á síðustu árum og alveg ljóst að hún á fullt í fangi með þau og treður marvaðann hvað fjárhag sinn varðar. Ég læt þá ósk uppi að vonandi nær stofnunin að rísa undir þessu nýja verki. Ég er þess fullviss og veit það af reynslunni að hún býr yfir ákaflega góðu starfsfólki sem sinnir verkefnum sínum vel.

Fyrst ríkið er á annað borð að flytja verk með þessum hætti milli stofnana og út á landsbyggðina, finnst mér eigi að síður að lágmarkið hefði verið að því hefðu fylgt fjármunir sem tryggðu að verkinu væri sinnt alveg til fullnustu þannig að hvergi væri slegið af því góða verklagi sem var á þessum málum hjá Tryggingastofnun undir tryggri og öruggri forustu fyrrum kollega okkar, Karls Steinars Guðnasonar, sem hér var alþingismaður með miklum sóma.