133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[13:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að lýsa því hér yfir að ég lít svo á að frumvarpið um Sinfóníuhljómsveit Íslands fylgi frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. og lít þá svo á að það fái að koma með ríkisútvarpsfrumvarpinu inn í nefndina aftur því að þar eru, eins og kom fram í umræðunni hér í gær, ákveðin atriði sem enn liggja ekki ljós fyrir.

Ef ekki verður hreyft mótmælum við því hér lít ég svo á að málið komi aftur inn í nefndina milli umræðna og í ljósi þess kem ég ásamt þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til með að sitja hjá við atkvæðagreiðslu þessa.