133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut -- ástandið í Palestínu.

[09:42]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil helst komast hjá því að taka þátt í pólitískum slag Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins um þessi mál. Ég vek hins vegar (Gripið fram í.) athygli á því að Sundabraut var forsenda byggðar í Grafarvogi. Það eru líklega komin 25 ár síðan menn töluðu um Sundabraut fyrst. Það er þannig, hæstv. forseti, að það hefur bara nákvæmlega ekkert gerst í 25 ár. Ég hef ítrekað rætt þessi mál á Alþingi og lagt fram fyrirspurnir til hæstv. samgönguráðherra, síðast núna í nóvembermánuði, um hvað liði undirbúningi þessarar framkvæmdar.

Ég vek líka athygli í þessu sambandi á að Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem var með skýra stefnu um lagningu Sundabrautar við síðustu borgarstjórnarkosningar. Það liggur fyrir að Framsóknarflokkurinn vill fara ytri leið, leggja Sundabraut ytri leiðina, og nú liggur loksins fyrir (Gripið fram í.) að menn ætla að kanna umhverfisáhrif af jarðgöngum á þessari leið. (Gripið fram í: … botn?) Þetta hefði auðvitað átt að gerast fyrir mörgum árum og það er sorglegt að þessi kostur hafi ekki verið skoðaður um leið og aðrir kostir við lagningu Sundabrautar.

Það er rétt, hæstv. forseti, að Framsóknarflokkurinn vildi leggja botngöng fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Af hverju var það? Það var vegna þess að mat á umhverfisáhrifum á þeirri leið lá fyrir og það var hægt að fara í framkvæmdir strax. Það er auðvitað það sem þarf að gerast, það þarf að fara strax í framkvæmdir.