133. löggjafarþing — 48. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[13:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér fer fram mjög mikilvæg umræða um breytingar á tekjuskattslögunum og óska ég eftir því að hæstv. fjármálaráðherra verði viðstaddur ræðu mína. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir mér ekki fyrir verkum hér.

(Forseti (JónK): Nú gengur fjármálaráðherra í salinn.)

Það eru eitt eða tvö atriði sem ég vildi gjarnan ræða beint við hæstv. fjármálaráðherra. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert grein fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um þetta frumvarp, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert grein fyrir ýmsum tillögum sem stjórnarandstaðan stendur að, breytingartillögum við frumvarpið, og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson mun enn fremur gera grein fyrir breytingartillögum sem við stöndum sameiginlega að og ætla ég í sjálfu sér ekki að orðlengja um þær heldur staðnæmast við tiltekinn þátt í frumvarpinu, þ.e. 2. gr. frumvarpsins.

Ég vil í upphafi máls míns ítreka gagnrýni mína á málflutning hv. þm. Péturs H. Blöndals og harðvítugar árásir hans á Alþýðusamband Íslands og verkalýðshreyfinguna í framsögu sinni. Þar fannst mér hann hafa uppi mjög ómakleg orð og ómaklegar yfirlýsingar í garð Alþýðusambandsins sem ég tel að standist ekki. Hann sakar verkalýðshreyfinguna um mjög ólýðræðisleg vinnubrögð og að hún hafi ekki staðið eðlilega að málum varðandi vaxtabætur og útreikninga á þeim. Ég minni á að verkalýðshreyfingin og fulltrúar hennar höfðu óskað eftir því að koma betur að borði, fyrr og betur að borði, með fulltrúum fjármálaráðuneytisins á sínum tíma og fá aðgang að gögnum sem nauðsynleg væru til að fá yfirsýn yfir málið og geta sett fram tölur sem fullnægðu þeim markmiðum sem að væri stefnt.

Ég vil bæta því við að þegar gagnrýnt er að aðilar úti í bæ, eins og hv. þingmaður kallar verkalýðshreyfinguna, koma að máli, þá verð ég að segja að mér finnst það vera gott að Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkundan, skuli leita til aðila í samfélaginu, ekki aðeins verkalýðshreyfingarinnar, heldur annarra aðila einnig eins og Samtaka atvinnulífsins, þótt ég sé ekki alltaf sammála þeim. Í fjölþátta lýðræðisþjóðfélagi á að sjálfsögðu að leita sjónarmiða sem víðast. Sama gildir um listamenn, neytendasamtök o.s.frv. Síðan er það þingsins að taka ákvörðun og í þessu tilviki var það ríkisstjórnin sem tók sína ákvörðun í umboði stjórnarmeirihlutans eftir samningaviðræður sem hún hafði átt á þríhliða grunni við verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda. Nóg um þetta að sinni.

Það atriði sem ég vildi staðnæmast við, hæstv. forseti, í þessu frumvarpi er 2. gr. Nokkuð hefur verið komið inn á hana áður og m.a. í framsöguerindi hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem er vissulega sjálfum sér samkvæmur í málflutningi sínum. Ég tel hann snerta slík grundvallaratriði í okkar velferðarsamfélagi að það hefði verið efni til að hafa þessa umræðu miklu lengri. En því miður getur svo ekki orðið vegna þess að við höfum komist að samkomulagi um að ljúka þinginu nú síðdegis.

2. gr. frumvarpsins er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima, frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljast ekki til tekna hjá móttakanda.“

Þegar síðan flett er upp á athugasemdum við þessa grein í frumvarpinu kemur fram að það er ekkert þak á þessum greiðslum. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort slíkt hafi aldrei verið rætt. Þetta virðist samkvæmt frumvarpinu gilda hvort sem um er að ræða 30 þús. kr. styrk, eins og tíðkast í Kópavogi eða ákvörðun hefur verið tekin um þar, eða styrk sem er 3 millj. og þá væri hann einnig án skatts. Ekki svo að skilja að ég búist við slíkum greiðslum, en ég vek athygli á því að í frumvarpinu eru ekki nein mörk hvað þetta snertir.

Gagnrýni mín á þetta er eftirfarandi. Í fyrsta lagi þurfum við að íhuga forgangsröðina mjög vel ef við ætlum að fara út á þessa braut, þ.e. að forgangsröðin hefði þurft að koma til umræðu. Ég tel að við hefðum átt að setja í forgang umönnunarbætur til aðstandenda langveikra barna, svo dæmi sé tekið.

Í annan stað vek ég athygli á þeirri grundvallarsýn, pólitísku sýn, sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins við umræðuna birti okkur og hún er sú: Í velferðarkerfinu skal allt fært til bókar, allur tilkostnaður skal færður til bókar. Hann segir okkur að sú þjónusta sem við njótum á spítölum og leikskólum og í skólunum sé í raun óskattlögð þjónusta, þegar búið er að færa hana inn í reikning og finna upphæð þá sé hún ekki skattlögð. Hið sama eigi að gilda um þá sem leita prívatlausna, úti á markaði þess vegna, eða fá greiðslur með þeim hætti sem nú tíðkast hjá einhverjum sveitarfélögum. Reykjavíkurborg hefur rætt um að taka þessar greiðslur upp og Kópavogur. Það eigi sem sagt að leggja að jöfnu, prívatlausnina og hina samfélagslegu. Ég tel að við séum að feta okkur út á mjög vafasamar brautir hvað þetta snertir. En er það rétt skilið hjá mér að þetta sé hin pólitíska sýn Sjálfstæðisflokksins almennt sem hér var lýst?

Þriðja atriðið sem ég vil nefna í þessu sambandi og draga athygli manna að er að þetta eru skattívilnanir sem eru mjög sértækar. Þær eru einvörðungu hjá þeim sveitarfélögum sem hafa þennan hátt á. Þetta eru ekki almennar greiðslur. Öðru máli gegndi ef við værum að ræða um almennar greiðslur sem næðu til landsmanna allra. Þetta eru sértækar lausnir. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leyfði sér að koma upp áðan og segja að ekki ætti að stýra fólki með skattkerfinu. En er ekki verið að gera nákvæmlega það með þessu? Er þá ekki verið að stýra sveitarstjórnum og sveitarfélögum inn á þessa braut? Ég hefði haldið að svo væri.

Hæstv. forseti. Ég tel að við séum að taka upp umræðu sem snertir sjálfan grundvöll velferðarkerfisins. Þetta eru aðferðir frjálshyggjumanna sem hér hefur verið lýst og ég hef sannast sagna furðað mig á hve litla umræðu þetta hefur vakið, innan þings og utan, og hefði trú á því, ef við værum ekki að flýta málinu eins og raun ber vitni, að þá hefði orðið mikil umræða um þetta almennt í þjóðfélaginu.

Við vekjum athygli á því í nefndaráliti okkar um frumvarpið að þetta eigi sér enn aðra hlið sem er hin kvennapólitíska hlið. Í Noregi hefur þessi háttur verið hafður á. Reynslan sýnir að það eru nær einvörðungu konur sem hafa nýtt sér þessar greiðslur og talið er að það hafi orðið til þess að konur leiti þá frekar inn á heimilin. Nú er ég því fylgjandi persónulega að börn séu ekki sett á leikskóla of snemma, ekki mjög snemma. Ég held að það sé ekki gott að þau séu knúin inn í harðan vinnudag hins fullorðna fólks. Ég held að það sé afar slæmt. En lausn okkar í stjórnarandstöðunni, og við bendum á það í nefndaráliti okkar, er að lengja fæðingarorlofið. Þar hafa verið stigin ágæt skref á undanförnum árum. Þau skref þurfa að verða miklu lengri. Við eigum að taka ákvörðun um að lengja fæðingarorlofið í næsta skrefi í 15 mánuði. Þetta tel ég að væri heppilegri lausn.

Gagnrýni mín er sú að þetta sé mjög handahófskennd ráðstöfun. Hún tekur ekki til allra landsmanna. Hún opnar á nýjar lendur, ef svo má að orði komast, og er þar af leiðandi, vegna þess að ég tel hana vera vanhugsaða, fúsk í skattlagningu. Þessi skattlagning er fúsk, þessi lagabreyting er fúsk. Hún er órædd í þinginu og í þjóðfélaginu almennt.

Ég hefði talið heppilegra að skjóta samþykkt þessarar lagagreinar á frest og gefa þinginu og samfélaginu ráðrúm til að ræða þetta atriði í kjölinn. Ég tel að þetta sé miklu stærra mál, miklu meira mál en svo að við eigum að afgreiða það eftir klukkutíma umræðu í þinginu.

Því vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra: Væri hann til viðtals um að sameinast um breytingu við þetta frumvarp, um að 2. gr. frumvarpsins yrði hreinlega skotið á frest, eða gildistöku greinarinnar, þar til vandaðri og betri umræða hefði farið fram um málið?