133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:06]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan ræða hér einmitt um fundarstjórn forseta. Ég sagði áðan að það væru þrjár ástæður fyrir forseta þingsins og reyndar stjórnarmeirihlutann á þingi að endurskoða afstöðu sína til þessa máls og þar af leiðandi framgangi þessarar umræðu.

Í fyrsta lagi hafa komið fram gögn sem var leynt fyrir þinginu. Þeim var haldið leyndum frá menntamálanefnd. Ég furða mig á þeirri yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra að þessi gögn snúi ekki að rekstrarformsbreytingu á Ríkisútvarpinu. Ekkert sé nýtt í þeim. Þetta er alrangt. Þarna er verið að svara spurningum sem m.a. höfðu legið fyrir frá 24. nóvember og ég minni á að ríkisstjórnin vildi afgreiða þetta mál áður en þeim spurningum var svarað í desembermánuði. Svörin voru hins vegar send formlega 9. janúar síðastliðinn.

Þetta er ámælisvert og þetta eru atriði sem snúa að rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Þau eru í þremur veigamiklum liðum sem ég hef ekki tíma til að fara út í núna en mun gera síðar við umræðuna.

Í öðru lagi, og þessu nátengt, hefur komið í ljós að fjöldi lögfræðinga hefur efasemdir um að yfirfærsla á Ríkisútvarpinu í einkaréttarlegt form muni verða því til góðs. Þeim lögfræðingum sem hafa slíkar efasemdir fer fjölgandi. Menn telja að það standist síður ásókn frá samkeppnisaðilum fyrir dómstólum hér innan lands og á vettvangi Evrópusambandsins.

Í þriðja lagi, hæstv. forseti, þá vil ég leyfa mér að efast um þær fullyrðingar sem heyrst hafa frá útvarpsstjóra til starfsmanna Ríkisútvarpsins um að réttindi þeirra og kjör muni haldast óskert eftir þessa kerfisbreytingu.

Útvarpsstjóri Páll Magnússon lýsti því yfir á fundi og einnig bréflega að kjör starfsmanna mundu haldast óbreytt eftir þessar breytingar. Vissulega er það svo að ráðningarsamningar munu halda út kjarasamningstímabilið. En hvað gerist eftir þann tíma? Ég kom sem varamaður inn í menntamálanefnd og spurði um þetta efni. Ég spurði: Við hverja verður samið og á hvaða forsendum og á hvaða grundvelli verður samið? Engin svör. Hvernig verður kjörum og samningum nýráðinna starfsmanna háttað eftir formbreytingu Ríkisútvarpsins? Engin svör. Við hverja verður samið? Engin svör. Munu þeir fá aðgang að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins? Engin svör.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hver eru svörin? Eða er (Forseti hringir.) ríkisstjórnin og útvarpsstjóri einnig að afvegaleiða starfsmenn (Forseti hringir.) vísvitandi?