133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:10]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til þess að árétta að hér er verið að ræða þetta mál undir liðnum um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.) Ég held að við þingmenn ættum að virða þann lið með þeim hætti að það sé rætt um fundarstjórn forseta en ekki farið efnislega í mál eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson gerðu, þ.e. að fela það í þann búning að það eigi að fresta málinu út af efnisatriðum sem allir vita að menn hafa mismunandi pólitískar skoðanir á.

Þess vegna eigum við núna, hæstv. forseti, að hefja þá umræðu sem stendur fyrir dyrum, ræða málin við 3. umr. og reifa þá þau mál sem menn hafa mismunandi skoðanir á. Það er hinn eðlilegi farvegur.

En að nýta þennan lið æ ofan í æ til að fjalla efnislega um mál — við vitum það öll sem hér sitjum í salnum að það sem við eigum að gera sem góðir þingmenn, þekkjandi þingsköpin, að sú krafa sem kom fram milli umræðna um að forseti fari að hlutast til um störf þingnefnda er alls óásættanleg frá þingreyndum mönnum.

Ég treysti því að menn láti nú af stráksskap sínum og hefji umræðuna eins og vera ber, 3. umr. eins og við sömdum um fyrir jól. Ég treysti því að þingreyndir þingmenn byrji nú umræðuna og hætti þessum leik. (Gripið fram í.)