133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:11]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér var spurt um réttarstöðu nýráðinna starfsmanna. Því er til að svara að þeir starfsmenn sem munu í framtíðinni ráða sig til starfa hjá Ríkisútvarpinu ohf. munu gera það á sínum forsendum. Meiri hlutinn hefur aldrei við meðferð þessa máls ætlað sér að lögfesta einhver ráðningarkjör þeirra í lögum og svipta framtíðarstarfsmenn Ríkisútvarpsins því samningsfrelsi sem þeir eiga að njóta. Þess vegna munu þeir semja um kjör sín eins og gengur og gerist þegar fólk hefur störf hjá nýju félagi. Við ætlum ekki að fara að blanda okkur í það, stjórnarmeirihlutinn, um hvað er samið.

Það er líka eðlilegt að minnast á, úr því að ég veit að hv. þingmaður var að hugsa það, að auðvitað munu þeir starfsmenn sem aldrei hafa starfað hjá Ríkisútvarpinu ekki njóta sömu réttinda og þeir sem hafa áunnið sér einhver réttindi á mörgum árum eða áratugum.