133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:01]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ánægjulegt og ég held að það sé í fyrsta sinn sem þingmaður Framsóknarflokksins viðurkennir að ranglega hafi verið staðið að ráðningu þeirri sem hér varð gerð að umræðuefni. Á sínum tíma barðist Framsóknarflokkurinn á hæl og hnakka gegn þeirri gagnrýni sem þá var höfð uppi, enda er það í eðli Framsóknarflokksins og mjög fast gróið í sögu hans að vilja beita ríkisvaldinu, þegar hann er með það, til pólitískra áhrifa fyrir sjálfan sig. Hann er auðvitað eins konar samtryggingarfélag og hann er auðvitað eins konar atvinnumiðlun og það loðir við Framsókn.

Mér heyrðist þingmaðurinn segja að menntamálaráðherra réði útvarpsstjóra áfram. Það er ekki svo. Það er einmitt svo að fréttastjóramálið getur gerst aftur hvenær sem er. Það felst í því að sá ríkisstjórnarmeirihluti sem kosinn er í stjórnina héðan frá Alþingi ræður því sem hann vill ráða áfram, vegna þess að hann ræður útvarpsstjórann og getur rekið hann þegar honum sýnist og hefur þvílíkt ægivald yfir honum að ef sá maður er ekki þeim mun sterkari karakter og meiri persóna getur það fallið í það far. Það er það sem Framsóknarflokkurinn hefur lýst sig sammála í þessu máli og í öllum þeim sjö umræðum sem farið hafa fram um það.