133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:02]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var margt athyglisvert í ræðu hæstv. menntamálaráðherra. Ég er svo heppinn að vera næstur á mælendaskrá, get þá tekið ýmislegt fyrir og mun þess vegna nú í andsvari einbeita mér að einföldum og nettum hlutum.

Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort ég hafi ekki örugglega skilið ræðu hæstv. ráðherra rétt þegar hæstv. ráðherra fer yfir umræðu varðandi hin svokölluðu ESA-skjöl hin nýju sem komu til menntamálanefndar undir lok þeirrar umfjöllunar sem var síðast. Er ekki rétt að hæstv. ráðherra hafi sagt að ef við í menntamálanefndinni hefðum lesið almennilega þau gögn sem áður voru komin hefðum við átt að vita að hin nýju væru til staðar og hefðum þar af leiðandi átt miklu fyrr að biðja um gögnin? Það hefði aldrei staðið á því í menntamálaráðuneytinu að afhenda slík gögn um leið og um þau væri beðið. Ég vildi kanna hvort ég hafi ekki örugglega skilið hæstv. ráðherra rétt.