133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:57]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það sýnir kannski best hversu stórt mál hér er á ferðinni og sem margs þarf að gæta í, að á þeim þremur þingum sem það hefur verið til umræðu hafa sífellt komið upp nýjar hliðar á málinu sem ástæða var fyrir menntamálanefnd að skoða og flytja breytingartillögur um. Margvíslegar breytingar hafa verið fluttar á þessu ferli og margar þeirra gert frumvarpið betur úr garði en það upphaflega var lagt fram af hálfu hæstv. menntamálaráðherra. Þess vegna finnst mér að hæstv. menntamálaráðherra ætti frekar að vera þakklát stjórnarandstöðunni fyrir að vilja ítarlega umræðu um málið og fyrir allar þær góðu ábendingar sem stjórnarandstaðan hefur komið fram með frekar en að agnúast sífellt út í hana og kalla málefnalegar og ítarlegar umræður málþóf.

Af öllum þeim góðu ábendingum og tillögum sem stjórnarandstaðan hefur komið fram með þá er ein af þeim veigamestu sú að í meðförum þingsins hefur að tillögu okkar í stjórnarandstöðunni verið tekið inn ákvæði um að upplýsingalög taki til laga um Ríkisútvarpið. Það er auðvitað gleggsta dæmið um hve mikilvægt er að málið fái ítarlega umfjöllun hér. Sú gagnrýni sem fram hefur komið á stjórnskipulagið, fjármögnunina, réttindamál starfsmanna, samkeppnishliðina og það nýjasta um ESA-leynigögnin og stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart samkeppnisrétti og Evrópurétti er hvert um sig stórmál sem þarf að ræða ítarlega. Ef vilji ráðherra hefði náð fram að ganga fyrir jól hefði t.d. ekki komið fram það sem nú liggur fyrir, annars vegar um samkeppnishliðina og stöðuna á auglýsinga- og kostunarmarkaði, sem t.d. Samkeppnisstofnun hefur gagnrýnt, og hins vegar reglur um mat sem fram þarf að fara áður en Ríkisútvarpið tekur upp nýja þjónustu, samanber bréfaviðskipti ESA við menntamálaráðuneytið.

Ástæða er til að halda því vel til haga sem fram hefur komið um þessa þætti frá því að málið var rætt hér fyrir jólaleyfi þingmanna. Það er gert m.a. í ítarlegu framhaldsnefndaráliti minni hluta menntamálanefndar sem ég ætla ekki að lesa upp hér. Ýmsir hafa orðið til þess að vitna í það. Ég vil þó draga fram hve alvarlegt það er að halda gögnum leyndum fyrir þinginu og minna á að t.d. í dönsku lögunum um ráðherraábyrgð er ákvæði um að leyni ráðherrar upplýsingum eða gögnum sem mikilvæg eru fyrir meðferð máls á þinginu varðar það við lög um ráðherraábyrgð. Það er einmitt ákvæði sem ég hef reynt oft og iðulega að koma inn í lög um ráðherraábyrgð hér á landi en ekki tekist enn. Eftir því sem árin líða hefur það sýnt sig að mjög nauðsynlegt er að hafa þar inni slík ákvæði um ráðherraábyrgð vegna þess að það hefur komið allt of oft fyrir að dregnar eru fram villandi upplýsingar eða jafnvel gögnum leynt fyrir þinginu. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál að slíkt sé gert og þarf auðvitað að ræða það líka í ljósi laga um ráðherraábyrgð.

Síðan er hin hliðin á þeim nýja fleti sem upp hefur komið í málinu eftir jólaleyfi þingmanna, þ.e. staða RÚV gagnvart samkeppnisrétti og sérreglum Evrópuréttarins um útvarp í almannaþjónustu, en staðan er óljós eins og vel hefur verið gerð grein fyrir í umræðunni. Ekki er hægt að ganga fram hjá því að verði málið afgreitt með þessum hætti frá þinginu er ljóst að kærur á kærur ofan eru óumflýjanlegar, m.a. og ekki síst vegna þess að ekki er tryggður fjárhagslegur aðskilnaður starfsemi í almannaþágu og samkeppnisrekstri RÚV og raunar erfitt að sjá hvernig á að framkvæma hann. Um þetta hefur verið rætt og ritað í fjölmiðlum og kannski hefur þetta verið dregið hvað gleggst fram af Ástráði Haraldssyni hæstaréttarlögmanni þar sem hann gerir ýmsar veigamiklar athugasemdir við frumvarp menntamálaráðherra í Fréttablaðinu 15. janúar sl.

Þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Hann telur ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað starfsemi í almannaþágu og samkeppnisrekstur óframkvæmanlegt. Ekki sé kveðið sérstaklega á um að lögin eigi að ganga framar sérlögum og að lög um opinber hlutafélög dugi ekki utan um þá starfsemi sem Ríkisútvarpinu ohf. sé ætlað að sinna.“

Í viðtalinu kemur líka fram og haft eftir Ástráði Haraldssyni, með leyfi forseta:

,,Um leið og starfsemi er færð í form hlutafélags verður hún einkaréttareðlis og það er mikilvægt að menn átti sig á að frumvarpið fjallar því í reynd um einkavæðingu Ríkisútvarpsins.“

Það er einmitt það sem við mörg óttuðumst, að hér sé verið að stíga stórt skref í átt til þess að einkavæða Ríkisútvarpið og það er m.a. þess vegna sem menn vilja ræða ítarlega um málið því að fæstir hér inni, nema sjálfstæðismenn og maður er orðinn óviss um hvað Framsóknarflokkurinn vill í því efni, vilja einkavæða Ríkisútvarpið.

Síðar í viðtalinu segir líka, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu segir að skilja skuli að fjárreiður þeirrar starfsemi sem skilgreind er sem útvarpsþjónusta í almannaþágu og þeirrar sem telst samkeppnisrekstur. Í því felst að tekjur sem fást með afnotagjöldum eða nefskatti og ætlaðar eru til útvarps í almannaþágu má ekki nota til að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi. Ástráður segir hugsunina rétta en telur erfitt að sýna fram á að sá hluti rekstrarins sem ekki á að njóta ríkisframlags geri það ekki. ,,Þegar Ríkisútvarpið hefur verið leitt út á eyðihjarn einkarekstrar virðast mér menn vera býsna vopnlausir gagnvart gagn- og samkeppnisaðilum sem mundu kæra til Evrópustofnana. Ég álít að það verði mjög erfitt að verjast slíkum samkeppniskærum“.“

Síðar segir Ástráður, með leyfi forseta:

,,Þess vegna óttast ég, af því að mér þykir vænt um Ríkisútvarpið og vil viðhalda því, að þetta verði upphafið að endalokum þess í þeirri mynd sem við þekkjum það.“

Hafa mætti fleiri orð um þennan þátt málsins, virðulegi forseti, og vitna frekar í Ástráð Haraldsson og fleiri sem hafa áhyggjur af því að lögfesting frumvarpsins verði upphafið að endalokum útvarpsins í þeirri mynd sem við Íslendingar þekkjum.

Í framhaldsnefndaráliti minni hlutans er líka vikið að þessum þætti málsins varðandi samskiptin við ESA. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Mikilvægt atriði sem um er fjallað í síðari bréfaskiptum ESA við ráðuneytin hefur aldrei verið kynnt eða rætt í nefndinni og er ekki að finna í frumvarpinu eða fylgigögnum þess, svo sem þjónustusamningsdrögunum. Þetta eru reglur um mat sem fara þurfi fram áður en Ríkisútvarpið tekur upp nýja þjónustu á almannaútvarpssviði.“

Í greinargerðinni í framhaldsnefndarálitinu er ýmislegt annað sagt um þennan þátt málsins en ég tel nægjanlegt að vitna í nefndarálitið og þennan kafla þess um hvað hér er á ferðinni.

Mikið hefur verið rætt um réttindi starfsmanna, a.m.k. af tveimur síðustu ræðumönnum, hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hv. þm. Valdimar L. Friðrikssyni. Ég tel afar mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað hér er á ferðinni og ég held að ekki sé ofsögum sagt að réttindi starfsmanna eru í uppnámi verði frumvarpið að lögum.

Vikið er að þessu í framhaldsnefndarálitinu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, var gestur nefndarinnar ásamt Halldóru Friðjónsdóttur, formanni BHM, og Árna Stefáni Jónssyni, varaformanni BSRB. Fram kom í máli Gunnars að bagalegt væri hversu mismunandi leiðir hefðu verið farnar við rekstrarformsbreytingar opinberra stofnana á liðnum árum. Æskilegt hefði verið að setja rammalöggjöf sem segði fyrir um almennar leikreglur við slíka framkvæmd, og ef slíkri löggjöf væri til að dreifa mætti gera ráð fyrir færri árekstrum við starfsmenn meðan á breytingunum stæði. Ljóst væri af reynslunni að breytingar af þessu tagi þyrftu ekki að valda teljandi óánægju meðal starfsmanna, og nefndi Gunnar dæmi um það.“

Það er ástæða til að vekja athygli á því að hér talar Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, sem hefur auðvitað mikla reynslu af samningum um réttindi starfsmanna og kjör þeirra. Ástæða er til að halda því til haga sem hann segir um þetta efni.

Síðan segir í framhaldsnefndarálitinu um þennan þátt, virðulegi forseti:

,,Ásetningur ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið virðist vera sá að koma stofnuninni úr opinberu rekstrarumhverfi í umhverfi einkarekstrar. Það hefur í för með sér endurskilgreiningu á ábyrgð og skyldum starfsmanna. Slík endurskilgreining hefur ekki farið fram, enda ekki verið farin sú leið að setja almennan lagaramma um einkarekstur í opinberri eigu. Ætlunin er að láta ófullkomin lög um opinber hlutafélög nægja. Enn er gert ráð fyrir að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi með höndum verkefni og ábyrgð sem talist getur eðlilegt að sinnt sé af hálfu opinberra aðila, eins og öryggis- og almannavarnarhlutverk ásamt því að skrá, framleiða og varðveita menningararf þjóðarinnar að hluta, sem er ekki ósvipað hlutverk og starfsmenn Þjóðminjasafns, Þjóðskjalasafns og Þjóðleikhúss gegna.“

Ég held að mikilvægt sé að hafa slíkt skráð í nefndarálitið sem ég var að vitna til vegna þess að ég hygg að þegar frumvarpið verður lögfest, verði það lögfest óbreytt eins og allt bendir til, muni alveg örugglega rísa upp deilur um réttindi starfsmanna.

Einnig er ástæða að halda til haga umsögn um málið frá starfsmönnum, t.d. hjá trúnaðarmanni félags fréttamanna, G. Pétri Matthíassyni, en þar er um að ræða bréf sem stílað er á menntamálaráðherra og formann menntamálanefndar Alþingis. Þar spyr G. Pétur Matthíasson, með leyfi forseta:

,,Undirritaður óskar fyrir hönd umbjóðenda sinna skýrra svara af hálfu ráðherra og menntamálanefndar varðandi réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins vegna fyrirhugaðra breytinga á rekstrarformi RÚV.

Vísað er til svars ráðherra við spurningum blaðamanns Fréttablaðsins sem svo birtist 15. nóvember 2006:

,,Málið mun fá sinn eðlilega framgang en ætlunin er að sjálfsögðu að réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins haldist.“

Spurt er, hvernig verður þetta tryggt?

Ekki stendur það í frumvarpinu eins og það lítur út núna og það eitt ljóst að starfsmenn Ríkisútvarpsins hætta að verða opinberir starfsmenn og verða starfsmenn á almennum markaði. Við þá breytingu tapast víðtæk réttindi og má nefna lífeyrisréttindi, orlofsréttindi, fæðingarorlofsrétt og biðlaunarétt. Útvarpsstjóri fær víðtækt vald til samninga við starfsmenn en getur engu svarað um hvað Ríkisútvarpið ohf. hyggst fyrir.“

Raunar er sama endurtekið í umsögn stjórnar Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins um frumvarpið Ríkisútvarpið ohf. Þar segir, með leyfi forseta:

,,SSR telur kaflann um réttindi starfsmanna ófullnægjandi. Ljóst er að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geta ekki gilt um starfsmennina eftir breytingu Ríkisútvarpsins í Ríkisútvarpið ohf. Réttindi starfsmanna ríkisins samkvæmt ofannefndum lögum teljast hluti af kjörum þeirra og verða því ekki afnumin án þess að í felist skerðing á kjörum. Nauðsynlegt er því að gera stöðu starfsmanna eftir breytinguna sem líkasta því sem verið hefði ef Ríkisútvarpið hefði áfram verið ríkisstofnun. Þau atriði sem einkum skipta hér máli eru biðlaunaréttur, lífeyrissjóðsréttindi, aðild að stéttarfélögum, uppsagnarréttindi, þar á meðal réttur til áminningar vegna uppsagnar, veikindaréttur, fæðingarorlofs- og orlofsréttur.“

Hér er ekki verið að tala um nein smáréttindi eins og ég hef lesið upp, virðulegi forseti. Þetta eru réttindi sem verkalýðshreyfingin og stéttarfélög launafólks hafa háð mikla baráttu fyrir að ná fram og það er auðvitað ekki hægt með slíku frumvarpi sem hér er á ferðinni að skerða slík réttindi.

Með þessu fylgir áhugaverð samantekt Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns sem er tekin saman fyrir Starfsmannasamtök RÚV í tilefni af frumvarpinu. Ég vænti þess að ýmsir á undan mér hafi farið ofan í hina athyglisverðu samantekt Láru V. Júlíusdóttur þannig að hún sé örugglega skráð í þingsöguna. Þar lýsir hún því vel hvað gerist, að við niðurlagninu stofnunarinnar breytist lagalegt umhverfi starfsmanna RÚV. Hún tiltekur biðlaunaréttindin og hvaða áhrif þetta hefur á þau í ítarlegu máli. Lífeyrisréttindin, og það sem kemur fram t.d. að því er varðar lífeyrisréttindin o.fl. er hve mikið bil og mismunur er á réttindum á almenna markaðnum og opinbera vinnumarkaðnum og hvaða áhrif þetta getur haft til skerðingar sérstaklega varðandi lífeyrisréttindin.

Lára vitnar í fæðingarorlofsréttinn og hvaða áhrif þetta hefur á þá sem hafa verið opinberir starfsmenn. Þar kemur hún inn á mál sem við höfum iðulega rætt í þingsölum, þ.e. mismunur á réttindum opinberra starfsmanna til fæðingarorlofs og þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði. Ég ætla að fá að vitna í það. Þetta er stuttur kafli en þar segir Lára, með leyfi forseta:

,,Rétt er að vekja athygli á mismunandi rétti opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði til fæðingarorlofs. Um fæðingarorlof fer samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Þar er öllum foreldrum tryggður réttur til fæðingarorlofs. Samkvæmt lögunum á ekki að vera munur á rétti þeirra sem eru opinberir starfsmenn og þeirra sem eru í starfi á almennum vinnumarkaði. Í framkvæmd er reyndin þó önnur. Starfsmenn á almennum vinnumarkaði sem eru í fæðingarorlofi fá ekki orlofslaun greidd á þeim tíma. Þegar þeir síðan fara í orlof eftir að hafa verið í fæðingarorlofi hluta orlofsársins, fá þeir einungis orlof greitt í hlutfalli við þann tíma sem þeir voru í starfi. Þeir eiga rétt á samningsbundnu fríi, en orlofslaunin eru skert sem þessu nemur. Opinberir starfsmenn fá hins vegar óskert orlofslaun þótt þeir hafi varið hluta af orlofsárinu í fæðingarorlofi. Hér er eðlilegt að fram komi krafa frá starfsmönnum að sama regla komi til með að gilda áfram eftir að ohf. hefur yfirtekið RÚV.“

Ég spyr, virðulegi forseti, er það svo? Geta starfsmennirnir verið öruggir um að þeir geti haldið þeim orlofsréttindum sem þeir nú hafa, t.d. til óskertra orlofslauna? Við höfum tekist á um það í þessum ræðustól, m.a. við félagsmálaráðherra, þar sem félagsmálaráðherrann sem sat hér á árinu 2002, Páll Pétursson, svaraði fyrirspurn minni um þetta efni, hvort ekki ætti að gilda sami réttur fyrir fólk á almennum vinnumarkaði varðandi töku orlofslauna og gilti um opinbera starfsmenn — og svar hans var já. Síðan var þessu snúið við og staðan núna er sú að mismunandi réttur er varðandi orlofslaun á vinnumarkaði þ.e. á opinbera markaðnum, sem hefur þennan rétt, full orlofslaun, meðan aðrir á almenna vinnumarkaðnum hafa hann ekki.

Síðan eru ákvæði um uppsagnarrétt, veikindarétt og orlofsréttindi og tekið á því hvaða áhrif þetta hefur. Hér er stórmál á ferðinni, virðulegi forseti, að skilja réttindi starfsmannanna raunverulega eftir í uppnámi og enginn veit í raun hvar hann stendur í þeim efnum ef frumvarpið verður samþykkt. Ég hef, virðulegi forseti, verulegar áhyggjur af þessu og ástæða til að hafa það. Eins og fram hefur komið í umræðunum og eftir yfirferð menntamálanefndar í málinu er óvissan mikil og til vansa fyrir þingið að skilja við það í þeirri stöðu.

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, sem ég vitnaði til áðan, hefur líka látið þetta til sín taka í fjölmiðlum og skrifar um þetta grein sem hann nefnir Einkavæðing Ríkisútvarpsins.

Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Ef frumvarpið verður að lögum verður þar með ákveðið að einkavæða starfsemi Ríkisútvarpsins.“

Og heldur síðan áfram, með leyfi forseta:

„Í þessu varðar öngvu hver eignaraðild hins nýja félags verður heldur hitt að starfsemin verður eftir að Ríkisútvarpið ohf. tekur við henni ekki framar opinbers réttar eðlis heldur einkaréttar eðlis. Þannig færist starfsemin af sviði opinbers rekstrar yfir á svið einkarekstrar.“

Síðan segir:

„Í þessari einkavæðingu felst m.a. að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gilda ekki framar um starfsemina og marka því ekki lengur réttarstöðu starfsmannanna. Lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka ekki framar til starfseminnar og stjórnendur hins nýja hlutafélags verða ekki fremur en aðrir stjórnendur hlutafélaga bundnir af ákvæðum stjórnsýslulaga í sýslan sinni. Starfsemin hefur þá verið einkavædd, flutt á svið einkaréttar og réttarstaðan sú sama og gildir um aðra starfsemi á almennum markaði.“

Þetta er afar skýrt. Hér er á ferðinni hæstaréttarlögmaður sem er vel heima í þessu efni sem enn sannfærir okkur um, virðulegi forseti, hve mikil óhæfa það er að skilja málið um réttindi starfsmannanna eftir í þessari stöðu.

Ég ætla áfram að vitna í Ástráð en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Af einhverjum ástæðum hafa flutningsmenn tillagna um einkavæðingu Ríkisútvarpsins kosið að nefna tillögur sínar ekki réttum nöfnum. Reynt er að færa einkavæðinguna í búning sem er til þess fallinn að villa um fyrir þjóðinni. Þannig er talað um hlutafélagavæðingu (eins og það sé ekki einkavæðing) og mikið úr því gert að óheimilt verði að selja fyrirtækið. Það atriði skiptir þó harla litlu máli þegar grannt er skoðað. Meginatriðið er það að verði frumvarpið að lögum mun Ríkisútvarpið færast yfir á svið einkaréttar.“

Þetta getur haft veruleg áhrif á réttarstöðu starfsmanna ef ekki er afdráttarlaust tekið á því í frumvarpinu sem við nú ræðum. Það þarf að liggja afdráttarlaust og miklu skýrar fyrir en það gerir nú.

Á þessum morgni vakti Valdimar L. Friðriksson, 9. þm. Suðvest., athygli á yfirlýsingu frá BHM og BSRB sem er dagsett 17. janúar 2007. Þar kemur fram, án þess að ég ætli að fara yfir þá yfirlýsingu sem hv. þm. Valdimar L. Friðriksson hefur gert mjög vel hér, að þeir halda því fram að réttindi starfsmanna séu í óvissu og uppnámi.

Í lok yfirlýsingarinnar, sem aðrir hafa farið hér ítarlega yfir, stendur, með leyfi forseta:

„Það hefur alltaf legið fyrir að starfsmenn eigi rétt á aðild að LSR að fengnu samþykki atvinnurekanda en BSRB og BHM hafa viljað fá ákvæði þar um inn í frumvarpið svo rétturinn verði ekki háður samþykki stjórnar RÚV ohf. “

Við stöndum frammi fyrir því að réttindin verða háð samþykki stjórnar RÚV ohf. ef skilið verður við málið eins og allt stefnir í.

Í lok yfirlýsingarinnar segir, með leyfi forseta:

„Óvissan um rétt starfsmanna er því enn jafnmikil og hún var fyrir yfirlýsingu Páls Magnússonar.“ — Sem vitnað var í áður í yfirlýsingunni.

Ég ætla að láta þetta nægja um réttindi starfsmanna, sem ég veit að hv. þm. Valdimar L. Friðriksson sem talar á eftir mér mun alveg örugglega gera góð skil, því sá ágæti þingmaður þekkir vel til kjaramála og réttinda starfsmanna og launafólks. Hann hefur auðvitað áhyggjur af því eins og við mörg hér inni hvernig með það verði farið ef skilið verði við málið í þessum búningi.

Ég ætla að víkja nokkrum orðum að stjórnskipulaginu, virðulegi forseti. Ég vil fyrst halda því til haga að það er blekking að með frumvarpinu sé verið að hverfa frá pólitískri íhlutun í málefni RÚV. Það nægir bara að nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkisstjórnarmeirihluti í nýju útvarpsráði ráði útvarpsstjóra og reki að vild. Útvarpsstjóri er því ekki óháður pólitísku valdi hverju sinni. RÚV verður greinilega áfram háð pólitískum afskiptum og inngripum ef valdhöfum þykir þurfa. Ekki fer heldur mikið fyrir atvinnulýðræði, virðulegi forseti, í þeirri stjórnskipan sem taka á upp. Fyrir því höfum við í Samfylkingunni talað að starfsmenn RÚV eigi fulltrúa í stjórn og þannig sé til að mynda tryggt að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni. Slíkt mundi sannarlega auka lýðræðið í stofnuninni og tryggja fagleg vinnubrögð sem þeirri stofnun eru nauðsynleg. Mér finnst, virðulegi forseti, að allt of lítið sé rætt hér í þessari virðulegu stofnun um atvinnulýðræði eins og tíðkast hjá öðrum þjóðum, að starfsmenn eigi rétt til setu í stjórnum stofnana og fyrirtækja. Fyrir því tölum við sannarlega í Samfylkingunni.

Ljóst er, virðulegi forseti, að það sem mestu skiptir um sjálfstæði RÚV er að stjórnskipulag þess sé með þeim hætti að þar verði slitið á öll pólitísk ítök í stofnuninni til að styrkja RÚV og auka sjálfstæði þess. Markmiðið með rekstri RÚV á auðvitað að vera að auka öryggisþáttinn og fyrst og síðast að efla alla dagskrárgerð og menningartengt efni og að útvarpið verði öflugur lýðræðislegur vettvangur upplýsinga og umræðu um allt land þar sem allar ákvarðanir byggja á faglegum forsendum án nokkurrar pólitískrar íhlutunar. Það gerum við sannarlega ekki með frumvarpinu, virðulegi forseti, verði það afgreitt með þeim hætti að RÚV standi þannig að allar ákvarðanir byggist á faglegum forsendum án pólitískrar íhlutunar.

Ég vil aðeins ræða um það sem ég kalla gegnsæi. Vísa ég þá til þess að ástæða er til að nefna hver verði réttur alþingismanna til að fá upplýsingar um stöðu RÚV, fjárhagsleg málefni o.fl. eftir að frumvarpið er orðið að lögum. Í því sambandi er ástæða til að halda til haga að þegar frumvarpið um opinber hlutafélög var til umræðu á síðasta löggjafarþingi vildu þingmenn Samfylkingarinnar ganga miklu lengra en stjórnarfrumvarpið um það efni til að tryggja gegnsæi og aðgang þingmanna að upplýsingum. Ástæða er til að ætla að með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, verði verulega skertur réttur þingmanna til upplýsinga um stöðu og fjárhagsleg málefni RÚV. Vil ég einmitt benda á að þingmenn Samfylkingarinnar hafa lengi lagt fram frumvarp undir forustu Guðmundar Árna Stefánssonar, fyrrverandi þingmanns, um að breyting verði gerð á þingsköpum þess efnis að þar verði kveðið á um skýlausan rétt alþingismanna til upplýsinga um málefni fyrirtækja sem ríkissjóður á að hálfu eða meira. Þetta frumvarp kallar sannarlega á endurflutning á því frumvarpi, verði umrætt frumvarp að lögum, vegna þess að ótækt er eins og hefur verið að gerast hér á umliðnum árum, að alltaf er meira og meira verið að loka á aðgang þingmanna að upplýsingum um málefni fyrirtækja, jafnvel þó að um sé að ræða opinberar stofnanir, kannski að 50% hluta í eigu ríkisins, þá er alltaf verið að skýla sér á bak við hlutafélagalöggjöf og verður alveg örugglega gert varðandi þetta mál.

Ég vil í lokin, virðulegi forseti, aðeins fara yfir fjármögnunina á RÚV verði frumvarpið að lögum. Ég ætla að einskorða mig við að víkja að fjármögnuninni um hinn svokallaða nefskatt sem nú á að taka upp í stað afnotagjalda. Þá ætla ég að vísa til þess að árið 2004 kom fram mjög greinargóð skýrsla um fjármögnun RÚV þar sem farið var yfir helstu leiðir sem til greina kæmu við fjármögnun og farið yfir kosti og galla þeirra leiða. Af þeirri skýrslu má ráða að hæstv. menntamálaráðherra hefur, virðulegi forseti, valið mjög óskynsamlega leið í fjármögnun með því að fara nefskattsleiðina.

Ég ætla aðeins að fara yfir það mál, virðulegi forseti, og byrja á að vísa til þess að í viðhorfskönnun sem IMG Gallup gerði fyrir RÚV, að vísu fyrir nokkrum árum, þ.e. árið 2002, kom fram að 41% aðspurðra vildi að RÚV yrði fjármagnað með beinum framlögum úr ríkissjóði og 33% með afnotagjöldum einstaklinga 18 ára og eldri en 26% með nefskatti. Einungis fjórðungur, virðulegi forseti, vildi fara þá leið sem hæstv. ríkisstjórn og menntamálaráðherra leggja til. Aðrar leiðir sem nefndar hafa verið er skattlagning á fasteignir og að ákveðið hlutfall af tekjuskatti einstaklinga og lögaðila renni til fjármögnunar RÚV og síðan sú leið að fjármagnið komi úr ríkissjóði.

Af tekjum RÚV á árinu 2003 kom rúmlega 2,1 milljarður af tæplega 3 milljarða kr. rekstrartekjum af afnotagjöldum, eða tæp 69%. Athyglisvert er að lögaðilar greiða nú einungis 4,2% allra afnotagjalda. Ég spyr, virðulegi forseti: Er það sanngjarnt að lögaðilar greiði svo lítinn hlut sem raun ber vitni, sem ekki mun mjög mikið breytast við það að taka upp nefskattinn? Það er auðvitað mikilvægt þegar menn eru að meta fjármögnunarleiðir fyrir RÚV, að tryggt sé eins og kostur er með þeirri leið sem farin er sjálfstæði Ríkisútvarpsins þannig að um sé að ræða tryggan tekjustofn sem haldi a.m.k. raungildi sínu og sé ekki háður geðþóttaákvörðunum stjórnvalda við fjárlagaafgreiðslu hverju sinni.

Mig langar aðeins að fara yfir kosti og galla bæði afnotagjaldanna og nefskattsins sem á að taka upp og koma aðeins inn á þá leið sem nefnd hefur verið líka, þ.e. að skattleggja fasteignir. Þar ætla ég að styðjast við skýrsluna um fjármögnun RÚV sem Þorsteinn Þorsteinsson, forstöðumaður markaðssviðs Ríkisútvarpsins, tók saman, auk fleiri erinda sem ég tel að erindi eigi í umræðuna. Ef við förum fyrst í afnotagjöldin eins og þau eru núna er um að ræða öruggan tekjustofn sem veitir útvarpinu hvað mest sjálfstæði. Gallarnir eru innheimtan, hún er kostnaðarsöm og innheimtuaðgerðir umdeildar. Í samanburði sem gerður hefur verið á afnotagjöldum milli landa kemur í ljós að afnotagjöld eru langhæst á Íslandi. Þau eru t.d. helmingi lægri í Bretlandi og eru mun lægri annars staðar á Norðurlöndunum. Afnotagjöld eru viðhöfð í 30–40 löndum í hinum vestræna heimi eða svo var þegar þetta var tekið saman fyrir tveimur árum. Innheimtuhlutfall afnotagjalda hér á landi er með því hæsta sem þekkist eða 92% en afnotagjöldin koma illa við tekjuminnstu heimilin. Fjöldi einstaklinga sem greiddi afnotagjöld fyrir tveimur árum var um 85 þúsund og tæplega 3.700 fyrirtæki.

Ef við víkjum aðeins að nefskattinum, sem er sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara, er gert ráð fyrir 14.580 þús. kr. í nefskatt á mann og undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þar er um að ræða börn innan 16 ára aldurs og þá sem eru 70 ára og eldri.

Ef sama regla er viðhöfð og á að gera varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra og varðar þá sem eru undanþegnir skattinum, þá eru þeir sem eru með tekjur undir 79 þús. kr., að vísu var það fyrir áramót, nú er það sennilega komið nálægt 90 þús kr. núna 1. janúar, undanþegnir nefskattinum.

Miðað er við 16 ára aldur og ef ákveðið væri að nefskatturinn tæki mið af 18 ára aldri í stað 16 ára aldri þyrfti að hækka gjaldið, sem nú er ákveðið 14.580, um sirka 2.000 krónur.

En ljóst er, virðulegi forseti, að nefskattur er greinilega hvað óvinsælastur meðal almennings ef marka má þá könnun sem ég vitnaði til áðan. Kostirnir sem teflt er fram eru þeir að nefskatturinn sé skilvirkari en afnotagjaldið og innheimtukostnaður miklu minni en af afnotagjöldunum.

En gallarnir eru þeir, virðulegi forseti, og þeir eru alvarlegir, að skatturinn dregur verulega úr sjálfstæði stofnunarinnar og er háður geðþóttaákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Engin ákvæði eru um að hann hækki, t.d. árlega í samræmi við verðlagsbreytingar. Skatturinn kemur mjög misjafnt niður á heimilum og fjölskyldum þar sem t.d. margir unglingar eru, 16 ára og eldri. Þær fjölskyldur koma illa út úr skattinum. Ég get nefnt að ef þetta eru 15 þús. kr. hjá fjögurra manna fjölskyldu, þá erum við að tala um 60 þús. kr.

Það sem er athyglisvert, virðulegi forseti, og ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir, að þeir sem hafa mestar tekjurnar í landinu, þeir sem eingöngu lifa af fjármagnstekjum, sem voru um 2.200 manns samkvæmt álagningunni í ágúst á síðasta ári, og lifa í vellystingum bara af fjármagnstekjunum borga ekki krónu í nefskatt. Sem sagt, þeir ríkustu í þjóðfélaginu sem hafa fjármagnstekjur sér til framfærslu sleppa við að greiða þennan nefskatt. (Gripið fram í: Alveg?) Alveg, þeir sem hafa bara fjármagnstekjur.

En ef fólk er með yfir 90 þús. á mánuði, lágtekjufólk, þá þurfa einstaklingar að borga 14.580 kr. Lágtekjufólk með þrjá eða fjóra í heimili með um 250–300 þús. kr. þarf að borga 60 þús. kr. í afnotagjöld.

Ég spyr, virðulegi forseti, er þetta sanngjarnt? Er það sanngjarnt að þeir sem hafa miklar fjármagnstekjur sér til framfærslu sleppi við að greiða þennan nefskatt?

Nú er það svo, virðulegi forseti, að … (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þingmaður? (Gripið fram í: Þá er þetta ekki nefskattur.) Þá er þetta nefnilega ekki nefskattur. Þarna hitti hv. þingmaður naglann á höfuðið, þetta er alls ekki nefskattur. Þetta er ekki nefskattur fyrir þá ríku.

En það er nefnilega nokkuð óljóst í frumvarpinu, virðulegi forseti, hvernig á að framkvæma þetta. Vegna þess að þegar við vorum að fjalla um málið í fyrra, eða á árinu 2005 var það, fyrst þegar þetta kom fram, voru ekki fyrirhugaðar neinar jöfnunaraðgerðir varðandi fjölmenn heimili annað en þær undanþágur sem kveðið er um þá sem eru undanþegnir gjaldinu í Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. þá sem eru undir skattleysismörkum. Ekki voru þá fyrirhugaðar neinar jöfnunaraðgerðir. Eitthvað hefur nú tosað hæstv. fjármálaráðherra áleiðis í að minnsta kosti að fara að hugleiða hvort ástæða sé til að hafa jöfnunaraðgerðir gagnvart því óréttlæti þegar um er að ræða fjölskyldu þar sem í eru þrír, fjórir eða fimm, þar sem nefskattur getur orðið mjög þungur, því aðeins er vitnað í jöfnunaraðgerðir í frumvarpinu.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er að fjárhæð nefskattsins verði endurskoðuð þegar nær dregur því að breyting á tekjustofnum Ríkisútvarpsins ohf. kemur til framkvæmda. Almennt mætti þó miða við að haga skattlagningunni þannig að hvert þriggja manna heimili yrði nokkurn veginn jafnsett eftir sem áður, sem mundi þýða að gjaldið lækkaði fyrir fámennari heimili, en hækkaði fyrir heimili þar sem fullorðnir einstaklingar 16 ára og eldri væru 4 eða fleiri. Væntanlega næði gjaldið ekki til námsmanna sem væru 16 ára og eldri þar sem almennt má gera ráð fyrir að þeir falli undir þau tekjumörk sem ákvæðið tekur mið af, sbr. lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra.“

Fyrst er til að segja að það er bara ekkert vitað um það sem er staðhæft hér að gjaldið taki almennt ekki til námsmanna sem eru 16 ára og eldri. Sumir vinna sér inn drjúgar tekjur á sumrin og gætu auðveldlega farið upp fyrir þessi 90 þús. kr. tekjumörk. Það gæti því vel verið að þetta gjald mundi líka falla á fátæka námsmenn, þó það falli ekki á þessa ríku sem lifa bara af fjármagnstekjunum.

Af því að gefið er undir fótinn með að einhvers konar jöfnunaraðgerðir kæmu hugsanlega fram gagnvart barnmörgum fjölskyldum, þá er þetta bara skilið eftir í lausu lofti. Þingið á að samþykkja fjármögnun sem við vitum ekki hvernig verður framkvæmd í reynd. Ég spyr því: Á að afgreiða þessar jöfnunaraðgerðir, virðulegi forseti, með reglugerð í höndum ráðherra án þess að þingið hafi nokkuð um það að segja hvernig þær jöfnunaraðgerðir yrðu framkvæmdar?

Mér finnst það ekki eðlilegt, virðulegi forseti. Mér finnst ekki eðlilegt að það sé gert á þann hátt. Fróðlegt væri að heyra það í umræðunni hjá þeim sem sátu fundinn í menntamálanefnd hvort þetta hafi verið rætt á þann hátt og hvort málið sé þannig vaxið að ráðherra geti með reglugerð án afskipta þingsins gripið til einhvers konar jöfnunaraðgerða.

Að minnsta kosti er þetta allt mjög óljóst í ákvæði 11. gr. eða því sem um hana er sagt. Ef maður reynir að nálgast þetta eitthvað betur í umsögn fjármálaráðuneytisins er maður litlu nær um hvað þetta muni þýða.

Því er ástæða til, virðulegi forseti, að setja mikla fyrirvara við umrædda leið sem á að vera einn helsti tekjustofn RÚV og gera athugasemdir við að málið skuli skilið eftir með þessum hætti og ekki hafi verið farið betur yfir kosti og galla annarra leiða en nefskattsleiðarinnar.

Í skýrslu Þorsteins Þorsteinssonar sem ég vitnaði til áðan er fasteignaleiðin sú leið sem helst er mælt með. Ég hef skoðað hana nokkuð og án þess að ég hafi mótað mér skoðun á að hún sé endilega besta leiðin, þá er hún fýsilegur kostur til að skoða að minnsta kosti. Því að skattinn væri hægt að hafa miklu lægri. Hann mundi leggjast á fleiri og hægt væri að láta hann ná til fleiri lögaðila en með þeirri leið sem hér á að fara. Til að ná sömu fjárhæð og á að fá fram með nefskattinum hefði að mínu viti verið nægjanlegt að hafa gjaldið 10–11 þús. kr. í staðinn fyrir 14.580 kr. á hvert nef — nema fjármagnseigendur.

Með nefskattsleiðinni greiða lögaðilar um 300 milljónir, eða var fyrir tveimur árum, af áformuðum 2,3 milljörðum kr. Mér finnst ekki réttlátt að lögaðilar greiði svona lítinn hluta af fjármögnun RÚV eða aðeins 300 milljónir af 2,3 milljörðum sem var fyrir tveimur árum sem sennilega er orðið nær 3 milljörðum kr. Hægt hefði verið að ná fram meira jafnræði og lægra gjaldi með því að skoða fasteignaleiðina.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt frekar. Ég hafði aðallega áhuga á að fara inn á starfsmannamálin eins og ég hef gert, stjórnskipulagið og síðan fjármögnunina sem fyrirhuguð er og benda á þá vankanta sem eru á þeirri leið sem ráðherra hefur valið, sem er leið ójafnræðis. Ég er alveg sannfærð um að þegar fólk áttar sig á hvað þetta þýðir, þegar þetta kemur til framkvæmda þá muni margir verða til þess að mótmæla þeirri nefskattsleið sem á að fara, sérstaklega af því að hún mismunar mjög fólki og þeir sleppa sem mestar hafa tekjurnar.

Virðulegi forseti. Engan þarf að undra þó hér hafi orðið ítarlegar umræður um þetta stóra mál sem skiptir þjóðina miklu máli. Ég spái því að ef stjórnarflokkarnir halda áfram að loknum næstu kosningum, sem ég sannarlega vona að verði ekki, þá erum við að hrinda í framkvæmd máli sem er alveg örugglega skref í átt til þess að Ríkisútvarpið verður fyrr en síðar einkavætt.

Virðulegi forseti. Komumst við í stjórnarandstöðunni til valda er alveg öruggt að snúið verður af þeirri braut sem stjórnarflokkarnir eru að leiða þjóðina inn á í því mikilvæga málefni sem er Ríkisútvarpið, útvarp allra landsmanna.