133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:12]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er ég ekki mjög þingreyndur maður, því miður kynnu margir að segja, en þannig er að mér er tjáð af mér mun þingreyndari mönnum að aldrei séu tveir næturfundir í röð. Í gær stóð fundur langt fram yfir miðnætti. Hér voru ræðuhöld til kl. að verða eitt og þá var gert hlé á fundinum og mér skilst að hæstv. forsetar hafi ráðið ráðum sínum og velt fyrir sér hversu lengi ætti að halda áfram. Síðan varð klukkan langt gengin í tvö og þá var ákveðið að fresta fundi. Var það afar skynsamleg ákvörðun, herra forseti.

Þess vegna fer ég fram á það að nú verði gert hlé á fundi svo að þingmenn geti fengið réttmætan nætursvefn. Þó að vökulögin gildi ekki hér á þingi, að mér skilst, finnst mér algjörlega ástæðulaust að pína þá þingmenn sem þó nenna að vera hér — þar eru reyndar þingmenn stjórnarandstöðunnar í miklum meiri hluta, herra forseti — að vera hér langt fram í nóttina. (Gripið fram í: … starfsmenn þingsins.) Auk þess bitnar þetta á starfsmönnum þingsins og þykir mér mjög miður að starfsmenn þingsins skuli þurfa að sætta sig við það að sitja hér og vinna kvöld eftir kvöld. Í dag er fimmtudagur, á mánudaginn var kvöldfundur sem stóð fram yfir miðnætti, á þriðjudag var kvöldfundur — allt heita þetta kvöldfundir þó að þeir standi fram undir og fram yfir miðnætti — og í kvöld tjáir hæstv. forseti okkur að ræðuhöld muni halda áfram og það verði síðan athugað um miðnætti hversu lengi eigi að halda áfram.

Herra forseti. Ég vona að við fáum skýrari svör um þetta.