133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:48]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það greinilega fer í taugarnar á stjórnarandstöðunni að ríkisstjórnin talar einum rómi í þessu máli, þessu mikilvæga máli sem við teljum að muni styrkja og efla Ríkisútvarpið til þess að sinna menningarhlutverki sínu.

En það er hins vegar alveg ljóst eftir að hafa hlustað á umræðurnar, að stjórnarandstaðan er margradda í þessu máli. Það er greinilegt að það fer virkilega í taugarnar á stjórnarandstöðunni.

Síðan er það þetta sáttatilboð sem er ekkert annað en leikaraskapur til þess að fela þau vandræði sem stjórnarandstaðan er komin í. Ég spyr, af hverju á þetta þing og meiri hluti þess að afsala sér valdinu og rétti sínum yfir til meiri hluta næsta þings? Við skulum rifja hér upp söguna.

Í öllu umdeildara máli fyrir tveimur árum gerði ríkisstjórnin stjórnarandstöðunni tilboð í svonefndu fjölmiðlamáli um að lögfesta það mál en fresta gildistökunni fram yfir kosningar. Hvað gerði stjórnarandstaðan þá? Hún sló á þá útréttu sáttarhönd, vegna þess að það kæmi ekki til greina. Þetta þing hefur því umboð og vald til þess að ákveða þetta mál. Við erum búin að ræða þetta mál í yfir 120 tíma, ræddum það fram til kl. 2 í nótt.

Ég spyr: Eru menn ekki búnir að fá nóg? Það getur verið að menn þurfi að ræða þetta enn frekar. En það er búið að ræða þetta lengur en Kárahnjúkana. Þrisvar sinnum lengur. Það er búið að ræða þetta mál lengur en gagnagrunn á heilbrigðissviði. Það er búið að ræða þetta mál mun lengur en málið um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég tel að við eigum að láta lýðræðið njóta sín hér á þingi. Við þingmenn eigum að fá tækifæri til að kjósa um þetta mál til þess m.a. að við getum farið í að ræða önnur mikilvæg (Forseti hringir.) málefni sem eru brýn og góð.