133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

gjaldskrá Herjólfs.

[10:43]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli ráðherra að rekstur Herjólfs hefði verið boðinn út og maður skyldi þá ætla að einhverjir fjármunir hefðu sparast við það. Það hlýtur að vekja upp þær spurningar hvort stjórnvöld hefðu ekki átt að notfæra sér það einmitt til að halda í við verðhækkanir með Herjólfi.

Ég kem ekki hér upp og ber fram þessa fyrirspurn til að gera lítið úr þeim umbótum sem til að mynda hafa verið gerðar í flugsamgöngum, alls ekki. Það má ekki misskilja orð mín með þeim hætti. Ég bendi hins vegar á að það er gersamlega óskiljanlegt að stjórnvöld skuli ekki sýna þessu meiri skilning, ekki grípa til eðlilegra og sjálfsagðra aðgerða eins og þeirra að reyna að halda í við flutningskostnað, kostnað með til að mynda þessu skipi milli lands og Eyja þegar Vestmannaeyjar sem eru eyjar eins og ég sagði áðan, búa við mjög sérstakar aðstæður, eru í mikilli vörn og Herjólfur er þjóðvegurinn til lands. Hann er lífæðin, málið er ekki flóknara en það og ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að skoða þetta mál vandlega og íhuga hvort ekki sé hægt að gera eitthvað til að laga þetta.