133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

svar við fyrirspurn um fjárhagsstöðu RÚV.

[13:43]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ítreka það að hér er ekkert nýtt á ferðinni. Menn vissu það alveg að rekstrarstaða Ríkisútvarpsins hefur ekki verið góð í gegnum tíðina og það hefur aldrei verið falið. (SJS: Hún hefur versnað.) Það er aldrei falið, ja hún hefur því miður versnað. Ég vil sérstaklega endurtaka það sem ég sagði áðan. Við erum búin að tryggja það í fjáraukalögum að hluta af skuldum Ríkisútvarpsins verður aflétt og það er ekki bara eitthvað smáræði. Að aflétta skuldum auðveldar Ríkisútvarpinu að starfa til lengri tíma. Auðvitað er verið að hugsa til framtíðar, hv. þm. Ögmundur Jónasson. Þegar verið er að aflétta verulegum skuldum Ríkisútvarpsins þá er verið að huga að því að það geti verið starfrækt og staðið undir þeim skyldum og kröfum sem við gerum til þess til lengri tíma. Og það sem skiptir mestu í þessu máli og mér finnst því miður enn og aftur stjórnarandstaðan vera að vaða reyk og villu í þessu máli. Það er alltaf að koma eitthvað nýtt, það er alltaf verið að reyna að fela eitthvað. Það sem skiptir mestu máli og menn forðast að ræða hér, er að það er verið að skila Ríkisútvarpinu með 15% eiginfjárhlutfalli. Það er verið að tryggja góðan starfsgrundvöll til framtíðar, ekki bara einhvern skyndibita heldur til framtíðar.