133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

afgreiðsla frumvarps um RÚV.

[13:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér koma upp vaskir fótgönguliðar og skjóta skildi fyrir ráðherra sinn. En það breytir ekki hinu, og það veit ég að virðulegur forseti hlýtur að viðurkenna, að þetta er stórkostlega ámælisverð málsmeðferð. Auðvitað áttu þessar upplýsingar fullt erindi inn í umræðuna.

Þegar búið er að biðja skriflega um upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu eiga þær að berast Alþingi innan tilskilins frests nema stórkostleg vandkvæði séu á því og í raun og veru ekki tæknilega hægt að verða við beiðninni. Þá eiga menn að koma hér og óska eftir lengri fresti. Forseti á auðvitað að ganga eftir því fyrir hönd okkar þingmanna að þessi réttur okkar sé virtur. Lágmarkskrafa væri að mér finnst, og sú sem kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan, að atkvæðagreiðslunni yrði þá að minnsta kosti frestað um sinn, t.d. um einn dag, þannig að mönnum gæfist tími til að gaumgæfa þessar upplýsingar. Menn eiga eftir að fara með atkvæðaskýringar sínar og að sjálfsögðu skiptir afkoma og fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins máli í því sambandi.

Menn skjóta sér á bak við það að bókhaldslega eigi Ríkisútvarpið samkvæmt efnahagsreikningi að verða með 15% eigið fé. En hvaða gagn er að því ef reksturinn er á dúndrandi niðurleið eins og þessar upplýsingar sýna? Ef tekjustreymið til fyrirtækisins er að hrynja? Eða ef stjórnandinn er búinn að missa svo gjörsamlega tök á rekstrinum að þar er verið að fara úr öskunni í eldinn á örfáum mánuðum?

Snillingurinn sem á að fá alræðisvald, bæði í rekstrarlegum og dagskrárlegum málefnum Ríkisútvarpsins ef að líkum lætur, öðlingur menntamálaráðherra, hæstv. forseti, útvarpsstjórinn Páll Magnússon, er að skila (Forseti hringir.) þessum glæsilega árangri í verki. Ég vil spyrja hæstv. forseta að því og vil fá svör, það mundi flýta fyrir umræðunni ef forseti svaraði því. (Forseti hringir.) Hyggst forseti verða við því?

(Forseti (SP): Hv. þingmaður ræði um fundarstjórn forseta.)

Já, ef ég fær frið fyrir bjöllunni mun ég gera það. Hyggst forseti verða við óskum okkar um að fresta atkvæðagreiðslunni að minnsta kosti um sinn þannig að við getum gaumgæft þetta svar sem var að koma í okkar hendur fyrir fáeinum mínútum, helst í einn dag eða að minnsta kosti í nokkra klukkutíma? Verður hægt að fá svör fljótlega frá forseta við þessum spurningum?

Ég mæli þó með því að hv. þm. Halldór Blöndal, 2. þm. Norðaust., fái að tala áður því að það er líklegt að þar falli nokkur gullkornin.

(Forseti (SP): Forseti ítrekar það að umræðu um Ríkisútvarpið er lokið og atkvæðagreiðsla er á dagskrá hér á eftir.)