133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[17:07]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er á ferðinni frumvarp um ánægjulegan viðburð, stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Rétt er að fagna í upphafi þeim árangri sem flutningur frumvarpsins og væntanleg samþykkt þess fyrr eða síðar er fyrir náttúruverndarhreyfinguna á Íslandi og alla þá sem komið hafa nálægt þessu máli. Hér var minnst á Hjörleif Guttormsson og ágæta tillögu hans um þjóðgarða sem eigi sér kjarna í jökulhettunum. Það er líka rétt að minna á tillögu Samfylkingarinnar um Vatnajökulsþjóðgarð árið 2003 og síðan alla þá aðra sem hafa komið nálægt málinu. En ég verð að segja að ég tel að þetta sé fyrst og fremst árangur náttúruverndarhreyfingarinnar sem slíkrar sem hér hefur þroskast mjög og náð afli hin síðustu ár, tapað orrustum því miður en líka unnið, bæði einstaka bardaga og styrjaldir, og fyrst og fremst þó — til að yfirgefa nú stríðslíkingarnar — náð að skjóta rótum í hugarfari og umhugsun almennings og vonandi líka stjórnmálamanna, a.m.k. sumra.

Það er merkilegt við þetta frumvarp og þennan þjóðgarð sem við erum að tala hér um væntanlegan að hér er á ferðinni landnýting með vernd og það liggja fyrir útreikningar um að þessi landnýting verði arðbær. Ég vona svo sannarlega að þeir standist þótt ég geri fyrirvara við tölurnar, a.m.k. í byrjun, sem hér hafa komið fram. Það er líka ánægjulegt að líklegt er að stofnun þessa þjóðgarðs geti að lokum veitt vinnu í nágrenni þjóðgarðsins. Þetta verður því væntanlega gott dæmi um það að landnýting með vernd getur skilað sér með ágóða fyrir samfélagið, beinum ágóða, fjárhagslegum ágóða, bæði fyrir samfélagið og fyrir þá sem næstir búa, alveg öfugt við það sem verið hefur meginstefnan gagnvart verðmætum hér á landi að geta ekki nýtt þau öðruvísi en að eyðileggja þau að hluta eða öllu. Þar er auðvitað nærtækasta dæmið sem áður hefur verið nefnt í þessari umræðu, og er því miður ekki innan þessara þjóðgarðsmarka, framkvæmdirnar við Kárahnjúka og það Hálslón sem nú er að fyllast.

Það er sífelld ásókn í landið, í að eyðileggja landið til annars konar nýtingar en verndarnýtingar. Skammsýni og skammtímahagsmunir valda því t.d. að Ingólfsfjall má nú drúpa höfði og að ákveðið hefur verið að Teigsskógur skuli líka tapa gildi sínu, því sem hann hefur nú, svo ég nefni tvö einföld, nýleg dæmi. Annað er sennilega því að kenna að við höfum ekki neinn þann ramma í náttúruverndarlögum, þá vörn í náttúruverndarlögum, og bæði eru þau auðvitað því að kenna, sem getur komið í veg fyrir eyðileggingu af þessu tagi. Hitt dæmið virðist vera um að kenna skammsýni, vonandi augnabliksskammsýni hæstv. umhverfisráðherra sjálfs.

Ég vil um þennan þjóðgarð að lokum til hóls taka undir með Roger Croft, sem segir í grein sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum, hygg ég, um Vatnajökulsþjóðgarð að hann eigi að tryggja betra umhverfi, hann eigi að tryggja sterkari byggðarlög, hann stuðli að jákvæðri ímynd Íslands og hann komi væntanlega að lokum, stofnun þessa þjóðgarðs, á heimsminjaská um merkustu staði, einhverju merkilegasta landsvæði, samfelldu, á Íslandi, 13 þúsund ferkílómetrar og vonandi meira að stærð þegar yfir lýkur.

Þá verður að verja nokkrum tíma í athugasemdir, bæði þær sem þegar hafa komið fram, sem ég skal nú vera fljótur með, og síðan það sem ég vil minnast á sérstaklega. Ég veit að tala á um málið almennt í 1. umr. en ég bið um að horft verði í gegnum fingur með það að ég spyrji nokkurra spurninga um einstaka liði.

Það þarf, eins og síðasti ræðumaður sagði, að tryggja fjármuni til þess að mál af þessu tagi gangi upp. Það þarf að skipuleggja svæðið, það þarf að vera fyrir hendi vilji manna til þess svæðis sem um er að ræða og það þarf auðvitað að ganga frá skipulagi þannig að það sé gott. Við skulum láta fjármuni liggja milli hluta, því að það eru heitstrengingar í því plaggi sem hér liggur fyrir og við getum vonandi öll tekið höndum saman um það á næsta kjörtímabili að láta það ganga upp. Um svæðið hafa menn talað hér. Hugmyndin var að Vatnajökulsþjóðgarður næði frá strönd til strandar og væri myndarlegur, myndarlegri en hér er gert ráð fyrir. Menn hafa nefnt ýmislegt og ég ætla ekki að lengja þá upptalningu. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði hér um Langasjó og það er rétt að endurtaka þá spurningu: Af hverju er Langisjór ekki með? Allir viðurkenna að Langisjór er frábært náttúrusvæði fyrir ferðamennsku og upplifun og reyndar fyrir vísindarannsóknir. Enginn efast um að Langisjór er hluti af þeirri heild sem Vatnajökulsþjóðgarður á að taka til og mér finnst rétt að umhverfisráðherra segi okkur frá því hvers vegna hann er undanskilinn. Auðvitað læðist sá grunur að mönnum að umhverfisráðherra hafi brostið kjark eða ekki treyst sér til að hafa hann með vegna ásóknar virkjunarmanna í þetta vatn. Og ekki þarf að bæta við góða ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.

Þetta er vonandi bara spurning um tíma og auðvitað er það þannig, miðað við þau lög og þann hátt sem hér er á hafður, að í upphafi verður ákveðið svæði lagt undir og síðan bætt við það með nokkrum hætti. Ég vil sérstaklega minnast á að það hefði þurft segja í lögum og þarf a.m.k. í reglugerð að segja okkur hvað er Vatnajökull, til hvaða svæðis nær það örnefni? Jöklar hopa á hverjum degi og okkur skortir í raun og veru afmörkun á því hvað Vatnajökull er frá ári til árs að ég segi nú ekki degi til dags. Það þarf auðvitað að kveða á um mörkin, kveða á um ákveðið belti út frá jökulbrúninni nú, það er hugsanlega álitamál hvað það nær langt en það verður að muna að Vatnajökull er hvikult náttúrufyrirbrigði umfram það sem gildir um önnur svæði.

Við erum að setja lög. Það er sem sagt ekki nægilegt að umhverfisráðherra skrifi um þetta reglugerð, eins og hann getur þó gert samkvæmt náttúruverndarlögum og það er væntanlega vegna þess sem lesa má í plöggum um málið að stofna þarf þennan þjóðgarð gegn náttúruverndarlögunum. Það vekur auðvitað athygli á því sem sjálfsagt er að ræða hér síðar í tengslum við þetta mál að það er kominn tími til að fara í gegnum það hvernig hátta eigi þjóðgörðum og friðlýstum svæðum, hvort það skuli gert með reglugerðum, eins og nú er gert ráð fyrir, eða með lögum. Þó að mönnum kunni að finnast að ekki sé nægilegt svigrúm með lögum tel ég að við eigum að gera meira af því að koma þessu fyrir með lögum en með reglugerðum, hreinlega vegna þess að við sjáum að reglugerðir er hægt að taka til baka með einu pennastriki, með einni undirskrift. Að minnsta kosti tel ég að það eigi að vera þannig og legg það fram sem millileið að reglugerðir um friðlýsingu eða þjóðgarða verði ekki teknar af nema með lögum, að atbeina Alþingis þurfi til þess að afnema reglugerð um friðlýsingu eða þjóðgarð.

Hér er líka ekki einungis um það að ræða að sett séu lög vegna þjóðgarðsins, en það er gert sennilega í tvennum tilgangi, annars vegar af því að stjórn þjóðgarðsins er öðruvísi, og þá komum við að skipulaginu, en gert er ráð fyrir í náttúruverndarlögum, og hins vegar eru náttúruverndarlög afnumin á ákveðnum stöðum innan þessa þjóðgarðs. Það er satt að segja einkennilegt að þurfa að gera þetta hvort tveggja og ráðherra þarf að skýra það betur en gert hefur verið hvers vegna hinum hefðbundna eða lögfesta stjórnanda þjóðgarða á Íslandi, Umhverfisstofnun, er kippt algjörlega út úr þessum lögum. Liggur í þessu einhvers konar álit á þeirri stofnun, að hún sé ónýt, að hún geti ekki sinnt þessu? Annað verður ekki lesið úr þessu, því að Umhverfisstofnun á þá eina aðild að þessum þjóðgarði að stundum er nefnt að hún eigi að vera í einhvers konar samráði eða ráðgjöf, stundum með Náttúrufræðistofnun. Maður spyr: Fyrst einungis er um þetta að ræða, nægir þá ekki Náttúrufræðistofnun til að gefa ráð og hafa samráð? Því að jafnvel þótt menn vilji skipa stjórn þjóðgarðs þessa með öðrum hætti en mælt er fyrir um í náttúruverndarlögum þarf ekki að kippa Umhverfisstofnun algjörlega út úr þeirri skipan.

Í náttúruverndarlögum nú er kveðið á um að það geti verið ráðgefandi nefndir sem skipaðar séu mönnum frá sveitarstjórnunum sem helst koma að eða heimamönnum eins og það er stundum kallað. Mér fyndist alveg koma til greina að breyta náttúruverndarlögum að þessu leyti og kveða þar á um það að heimamenn, svokallaðir, geti átt aðild að stjórnum þjóðgarða ef þær yfir höfuð eru settar á fót, sem enn fremur væri ekki vitlaust að gera. Á það var minnst hér áðan, hinn augljósa skringileik sem blasir við eftir samþykkt þessara laga að þá eru á Íslandi þrír þjóðgarðar. Einum þeirra er stjórnað af þinginu, öðrum er stjórnað með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir í Vatnajökulsþjóðgarðinum, þ.e. annars vegar er það ráðherra og hins vegar sveitarstjórnirnar sem tilnefna menn í stjórn þjóðgarðsins, sá þriðji er hins vegar í umsjá Umhverfisstofnunar. Ég spyr: Á að skilja hann einan eftir í umsjá Umhverfisstofnunar? Hvernig hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að hafa þetta í framtíðinni?

Það er líka skrýtið hvernig stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs er falið í þessu framhaldi vald sem í náttúrverndarlögum er falið Umhverfisstofnun um framkvæmdir, því að framkvæmdir í þjóðgarðinum eru þannig að Umhverfisstofnun kemur þar hvergi við sögu nema með samráði eða einhvers konar ráðgjöf ef eftir því er sótt. Samráð er, eins og við vitum, óljóst hugtak í íslenskri pólitík á vorum tímum. Það er annars vegar þjóðgarðsstjórnin, sem að meiri hluta er skipuð af sveitarstjórnunum, eða ráðherra sjálfur, án nokkurrar hlutdeildar hinnar faglegu stjórnsýslustofnunar sem hann þó ræður yfir, sem gefur slík leyfi. Ég tel að þetta sé ekki heppilegt stjórnskipulag, það gætu orðið brestir á þessu og að það skapi ekki það traust sem þarf að ríkja í kringum þjóðgarðinn.

Svo vil ég segja um stjórnina og það sem áður hefur verið minnst á, að það er erfitt að sætta sig við þá stjórn, það fyrirkomulag sem sett er fram í frumvarpinu að fjórir formenn svæðisráða eigi að skipa meiri hluta þjóðgarðsstjórnarinnar. Mér finnst það vel til fallið að í svæðisráðunum sjálfum, eins og völdum þeirra og áhrifum er háttað, geti setið slíkir menn, tilnefndir af sveitarstjórnum og síðan tvenns konar samtökum í héraði, en að þeir skipi meiri hluta þjóðgarðsstjórnarinnar ásamt einum manni frá umhverfissamtökum og síðan tveimur ráðherraskipuðum mönnum tel ég ekki heppilegt. Þetta er líka í andstöðu við tillögur þingmannanefndarinnar sem vissulega benti á og lagði til að sveitarstjórnum í grennd þjóðgarðsins yrði gert hærra undir höfði en gert er ráð fyrir í náttúruverndarlögum, sem ég endurtek að ég tel að vel megi koma fyrir með breytingum á náttúruverndarlögunum sjálfum, en það var aldrei talað um meirihlutaaðild heimamanna að stjórn og rekstri þjóðgarðsins. Þar stóð að tryggja þyrfti aðild heimamanna að stjórn og rekstri þjóðgarðsins.

Það skiptir miklu máli, eins og hér var rakið, að samstaða náist um stofnun þessa þjóðgarðs. Ekki er einungis um það að ræða að stór hluti landsins sé tekinn til þessara ákveðnu nytja, verndarnytja af ýmsu tagi og reyndar hefðbundinna landbúnaðarnytja sem sjálfbærar teljast, heldur er auðvitað líka um það að ræða að hér á að veita verulegt fé til þessarar starfsemi. Það er svo með fjárveitingar að þeir sem leggja fram fé verða að fá eitthvað í staðinn og hætt er við að þessar hugmyndir frumvarpsins um stjórnarfyrirkomulag hreki frá samstöðu u.þ.b. 90% landsmanna við það. 63% munu vera á hinu þrengra höfuðborgarsvæði og ef við víkkum það aðeins út erum við komin upp í kannski 70, 75%. Ekki einu sinni Akureyringar eiga hlutdeild að þessum þjóðgarði. Heimamenn teljast, eðlilega, þeir sem búa við jökulárnar í suðurparti þjóðgarðsins. Síðan teljast heimamenn þeir sem búa í sveitarfélögum sem eiga fjarlæg lönd að Vatnajökli eða á Vatnajökli. Þar á meðal eru bændur og búalið sem búa við strönd Skjálfandaflóa. Ég verð að viðurkenna að það er nokkuð langt seilst í hugtakaskýringu heimamanna að svo langt sé farið. En nágrannar þeirra sem búa þar sem a.m.k. einu sinni hét Húsavík, í því sveitarfélagi, eru hins vegar ekki heimamenn í þessari skilgreiningu, hvað þá annað fólk, íbúar á Vestfjörðum sem eru jafnmiklir Íslendingar og við hér, að ógleymdum þeim kjósendum í Reykjavíkurkjördæmi suður sem hafa treyst bæði þeim sem hér stendur og hæstv. umhverfisráðherra til að vera fulltrúar sínir hér á þinginu.

Ég verð að segja fyrir mig að þrátt fyrir fullkominn stuðning minn við það að nágrannar á svæði eins og þessu hafi ákveðinn rétt til að hafa um það að segja og véla um það sem þar fer fram, á ég ákaflega erfitt með það sem fulltrúi Reykvíkinga í Reykjavíkurkjördæmi suður, Reykvíkinga allra og fólks á höfuðborgarsvæðinu og 90–95% Íslendinga, sem ekki teljast vera heimamenn að Vatnajökli, að samþykkja þetta frumvarp eins og því er núna fyrir komið.

Ég á lítið eftir, forseti, en vildi þó nefna nokkur atriði og þau eru m.a. ef ég tel þau upp hér: Hvernig stendur á því að eignarnámsheimildir sem eru í náttúruverndarlögum eru afnumdar hérna? Mér þykir ákaflega undarlegt að skapa sér þá samningsstöðu fyrir fram að afnema eignarnámsheimildir sem menn í orkugeiranum veifa í kringum sig og þar eigi ríkið að hlaupa til og nema eignir af mönnum vegna virkjanahagsmuna en það má ekki hafa þetta í bakhöndinni vegna náttúruverndarhagsmuna.

Ég vil líka spyrja um þá ágætu hugmynd að þjóðgarður geti samanstaðið af ríkislandi, þjóðlendum, þjóðgörðum sem þegar hafa verið stofnaðir og einkalandi sem lýtur einkaeign. Hvernig á það að vera, getur það þá gengið kaupum og sölum? Hver er réttur landeigandans eftir að samningur er gerður? Er hann t.d. uppsegjanlegur, getur erfingi eignarlands í þjóðgarði sagt: Ég er hættur við, ég ætla að reisa mér sumarbústað á þessu landi og segi bara bless við ykkur?

Ég vil að lokum spyrja um það, þó að ég eigi fáar sekúndur eftir: Hvernig er sú stjórnsýsla að ráðherra taki ákvörðun sem síðan sé hægt að kæra til ráðherra, samanber 13. gr. og 19. gr.? Ég held að þetta standist ekki og þetta er meðal þeirra atriða, því miður fleiri en vænta mátti og vonast var til, sem umhverfisnefnd þingsins þarf að fara mjög vandlega yfir.