133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka hér af tvímæli um að ekkert annað hafi staðið til og ekkert annað standi til af hálfu umhverfisráðuneytisins en að leggja til friðlýsingu alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum með náttúrulegum rennslisháttum. Reyndar hafði ég svo sem enga ástæðu til að ætla annað en það er mjög mikilvægt að það liggi hér alveg ótvírætt fyrir og sé skráð í þingtíðindin að ekki beri að lesa neitt annað út úr orðalagi athugasemda við frumvarpið.

Ég vil svo taka fram varðandi þjóðgarðsmörkin sjálf og að hluta til vegna þess að mér láðist að koma inn á það í ræðu minni að ég tel auðvitað að menn þurfi að hugsa miklu stærra en gert er í þessum fyrstu afmörkunardrögum sem ganga talsvert skemmra en tillögur þingmannanefndarinnar. Ég tel að Skjálfandafljót eigi að friðlýsast ásamt með Jökulsá á Fjöllum þannig að stórfljótin beggja vegna Ódáðahrauns séu með í þjóðgarðinum og þá er Aldeyjarfossi, Goðafossi, Barnafossi og fossum í Skjálfandafljóti sjálfkrafa borgið. Þá er auðvitað einboðið að taka Suðurá og Suðurárbotna með. Ég átti nokkurn þátt í því, held ég, að farið var í Vonarskarð og það skoðað og að þingmannanefndin færði í raun heldur út kvíarnar en hitt og ákvað að leggja til að Tungnafellsjökull og Vonarskarð yrðu tekin með. Í Vonarskarði eru einhver mögnuðustu vatnaskil landsins þar sem Kaldakvísl hnígur til suðurs og Rauðá og upptaka kvíslar Skjálfandafljóts til norðurs á sömu sandsléttunni. Auðvitað er einboðið að tengja friðlýsingu Vonarskarðs, sem er ein af kannski minna þekktum en einhverjum allra mögnuðustu náttúruperlum Íslands, við friðlýsingu Skjálfandafljóts. Þá er að mínu mati komin sú stóra heild norður frá Vatnajökli með (Forseti hringir.) Ódáðahrauni og fljótunum beggja vegna sem í framtíðinni á að vera innan þjóðgarðs.