133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[13:45]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er viss ánægja sem felst í því að fá í hendur mál frá hæstv. menntamálaráðherra sem lítur þannig út við fyrstu sýn að það virðist vera ákaflega vel undirbúið. Enda kemur í ljós að undirbúningur málsins hefur frá upphafi verið í höndum þeirra sem málið snertir hvað mest, þ.e. forustumanna Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Rektor Kennaraháskóla Íslands, Ólafur Proppé, hefur verið mikill áhugamaður um sameiningu þessara tveggja stofnana árum saman og beitt sér í því efni enda kom út skýrsla strax árið 2002 um það málefni.

Ég held að seint verði metið að verðleikum það frábæra frumkvöðlastarf sem Kennaraháskóli Íslands hefur unnið að í uppbyggingu menntunar á landinu öllu og það frumkvöðlastarf sem þeir hófu í fjarmenntun á landinu. Þeim er aldrei eignaður nógur hlutur í því efni og með þeim hætti breyttu þeir hlutfalli menntaðra kennara á landinu þannig að nú eru grunnskólar landsins mjög víða mannaðir fullmenntuðum kennurum.

Eitt af því sem hefur verið baráttumál hjá Kennaraháskóla Íslands árum saman er einmitt að lengja kennaranámið, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á áðan, en til þess hefur aldrei fengist fjármagn. Það kæmi mér ekkert á óvart að einmitt sú leið sem hér er verið að fara sé í rauninni leið sem rektor Kennaraháskóla Íslands sá út úr því öngstræti sem Kennaraháskólinn var kominn í með nám sitt, því að eins og kom líka fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þá hefur Kennaraháskóli Íslands þurft að vísa nemendum frá árum saman vegna þess að ekki hefur fengist nægilegt fjármagn til þess að veita þeim inngöngu sem um hafa sótt, þrátt fyrir það hversu þörfin er mikil, t.d. á leikskólakennarasviðinu þar sem alltaf vantar starfsfólk alls staðar á landinu.

Ég held að í þessari sameiningu felist mikil tækifæri og þau alveg augljós, þarna gefast tækifæri til þess að efla og bæta menntun kennara sem þarf að fara í ef við ætlum að geta boðið upp á sveigjanlegt nám á grunnskólastigi en það er nauðsynlegt ef við ætlum að gefa nemendum færi á að rækta hæfileika sína og hæfni eins og best er kostur. Við sjáum það á framhaldsskólastigi þar sem sveigjanlegt nám er í boði hversu vel það getur gagnast bæði seinfærum nemendum sem haga þá ferð sinni í gegnum framhaldsskólana eftir því sem aðstæður þeirra leyfa, og þeim sem eiga auðveldara með nám og geta beitt sér af meiri krafti af einhverjum ástæðum. Nemendur geta þá hagað námi sínu þannig að þeir taka námið ýmist á skemmri eða lengri tíma, allt eftir aðstæðum. Þetta þyrfti líka að vera hægt í grunnskólunum í meiri mæli en nú er en til þess að hægt sé t.d. að kenna meira í stærðfræði eða erlendum tungumálum eða öðru því sem kennt er á framhaldsskólastigi í dag þá þarf auðvitað að efla þekkingu kennaranna sem sinna börnunum á grunnskólastigi. Þetta held ég að náist fram með lengingu kennaramenntunar og það verður örugglega niðurstaðan eða ein af niðurstöðunum með sameiningu skólanna tveggja.

Auðvitað felast líka ákveðnar hættur í slíkri sameiningu. Ég held t.d. að veik fjárhagsleg staða Háskóla Íslands feli í sér ákveðna hættu fyrir Kennaraháskóla Íslands sem er vel staddur fjárhagslega vegna þess að þar hefur verið farin sú leið að taka ekki inn alla nemendur sem hafa sótt um en það hefur hins vegar verið gert í Háskóla Íslands og fyrir vikið er Háskóli Íslands ekki vel staddur fjárhagslega, eins og alkunna er. Ég ætla því að brýna það fyrir hæstv. menntamálaráðherra að tryggja að það fjármagn sem nauðsynlegt er verði látið fylgja með þegar sameining stofnana á í hlut.

Ég er ekki að segja þetta að ástæðulausu því að tvisvar á yfirstandandi kjörtímabili hafa verið sameinaðar stofnanir sem heyra undir landbúnaðarnefnd þar sem ég starfa, bæði skólarnir sem núna heita Landbúnaðarháskóli Íslands og eins fjöldi stofnana sem nú heita Landbúnaðarstofnun Íslands. Í hvorugu þeirra tilvika var gert ráð fyrir nokkrum kostnaði sem hlytist af sameiningunni og fyrir vikið skortir auðvitað fé til rekstrarins svo að þær koma út með halla.

Ég ætla bara að nefna eitt dæmi úr sameiningarferlinu við stofnun Landbúnaðarstofnun Íslands. Þar var verið að taka saman í eina nýja stofnun minni stofnanir eða deildir sem höfðu átt inni hjá öðrum stærri deildum. Við stofnsetningu nýju stofnunarinnar var ekki gert ráð fyrir neinum skrifstofukostnaði, símakerfi eða þeirri þjónustu sem litlu stofnanirnar höfðu fengið á gamla staðnum. Þetta er auðvitað algjörlega fyrirsjáanlegur hlutur og það var gerð grein fyrir þessu í undirbúningsvinnunni en það var samt valið að fara þannig að eins og ég hef hér rakið.

Ég treysti fagfólkinu í Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands ákaflega vel til þess að standa vel að þessari sameiningu en að gefinni þeirri forsendu að tekið verði tillit til þarfa stofnananna fyrir fjármagn sem fylgir fyrsta flokks starfsemi.