133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að hættan á því að í gegnum einhverja kennara slæðist efni sem ekki er talið hæft til notkunar við kennslu er fyrir hendi. Annars væri ekki 8. gr. í frumvarpinu. Það er því verið að opna fyrir ákveðna hættu með því að taka Námsgagnastofnun úr sambandi hvað það varðar að það kemur ekki til með að fara nema lítill hluti af námsgagnagerðinni eftir þetta í gegnum það faglega batterí sem Námsgagnastofnun hefur yfir að ráða. Hún hefur hingað til valið og vinsað úr í samvinnu við kennara auðvitað og í samvinnu við aðra sem koma að námsgagnagerð í landinu. Námsgagnastofnun hefur haft mjög vítt net fagmanna sem hún hefur ráðfært sig við og átt samskipti við varðandi gerð námsefnis fyrir grunnskólanema. Mér þykir því mjög mikilvægt að hlutverk Námsgagnastofnunar verði ekki svo rýrt að einhverjir víðir möskvar verði þar sem geti aukið hættuna á því að óæskilegt námsefni fari í gegnum þá og í grunnskólana. Ég vil því tryggja það að við séum örugg um að slíkt gerist ekki.