133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[17:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Bæði nú og á síðasta þingi var þetta mál kynnt þannig að um væri að ræða einfalt, lítið leiðréttingarmál, að árið 1965, fyrir 41–42 árum, hefði það verið ætlun ríkisins, sem svo var kallað, að leggja til fyrirtækisins Landsvirkjunar land og réttindi til eignar en það hefði eitthvað þvælst fyrir mönnum, bæði þá og í gegnum tíðina, að ganga almennilega frá því. Með því að samþykkja þetta frumvarp og renna því í gegnum þingið gætum við hins vegar bætt úr eins og ekkert væri. Slík frumvörp eru stundum flutt vegna þess að löggjafarstarfið, bæði störf framkvæmdarvaldsins og löggjafarstarfið, eru ekki gallalaus. Þegar þannig stendur á er auðvitað sjálfsagt að bregðast við.

Hér virðist hins vegar byggt á ótraustum heimildum, að þetta hafi verið ætlun ríkisins, sem svo er kallað, eða forsvarsmanna ríkisins árið 1965. Það hefur líka komið í ljós að landið sem frumvarpshafinn telur að hafi átt að leggja til fyrirtækisins er nú orðið þjóðlenda.

Það hefur margt breyst á þessum 42 árum. Í fyrsta lagi hafa tekið gildi lög um þjóðlendur, sem þetta land fellur undir samkvæmt úrskurði. Í öðru lagi er komin fram önnur hugsun gagnvart eignarheimildum en þá var. Það kristallast í orðunum „ríkiseign“ annars vegar og „þjóðareign“ hins vegar. Í þriðja lagi er Landsvirkjun nú í eigu ríkisins að öllu leyti og þarf ekki að taka tillit til Reykjavíkur og Akureyrar í því dæmi eins og hæstv. forsætisráðherra benti réttilega á í svari sínu við andsvari mínu að lokinni ræðu hans áðan. Í fjórða lagi er umhverfi raforkumála nú þannig að þar gilda almennar reglur samkeppninnar.

Í lögum um þjóðlendur, sem þetta land fellur undir, eru eins og getið hefur verið um í umræðunni engin ákvæði um að ríkið sem fer með þjóðlendurnar eða forsvarsmenn ríkisvaldsins geti selt þessar þjóðlendur. Þar er aðeins fjallað um nýtingarrétt, um afnot sem hægt sé að leyfa af þjóðlendunum. Þar eru engin ákvæði um afhendingu þeirra til eignar eða um sölu þeirra. Í þessu tilviki má einu gilda hvort er. Það er engin almenn heimild í þessum lögum til að láta þjóðlendur af hendi. Það er fullkomlega í andstöðu og gegn anda laganna um þjóðlendur. Þótt ég geri ráð fyrir að þetta séu sérlög sem ganga framar almennum lögum verður að athuga hver er staða þingsins til að gera þetta, að ganga gegn þjóðlendulögunum að þessu leyti því að í þeim er ekkert minnst á slíka heimild.

Það má raunar furða sig á því að þjóðlendulögin skuli ekki hafa þróast og engin stefnumótun hafa farið fram um þau. Það væri auðvitað eðlilegt að setja í þjóðlendulögin ákvæði um að ekki megi selja þjóðlendur nema í sérstökum undantekningartilvikum og fara í hver þau undantekningartilvik væru. Hér kann hæstv. forsætisráðherra að skapa mikið fordæmi, bæði um þær þjóðlendur sem þegar eru viðurkenndar og um þau lönd sem forsætisráðherra sjálfur eða menn á vegum samráðherra hans gera kröfur um. Áðan var minnst á að þetta frumvarp gæti komið illa í þá umræðu sem nú stendur yfir um þjóðlendur og um kröfur sem gerðar eru til þjóðlendna. Ég held að í raun væri réttara að kalla það svo að þetta frumvarp sé eins konar tundur í þá umræðu.

Getur hæstv. forsætisráðherra selt afréttarland bænda sem gert hefur verið að þjóðlendu? Getur hann borið fram frumvarp og pínt þingmeirihluta sinn til að selja hálendið í pörtum eða allt einhverjum fyrirtækjum eða kannski auðmönnum sem vildu halda þar afmælispartí? Getur forsætisráðherra selt Ólafi Ólafssyni efsta hluta Esjunnar, sem gerð var krafa um að væri þjóðlenda fyrir nokkru? Þetta frumvarp skapar það fordæmi, eins og Jóhann Ársælsson hv. þm. vakti athygli á, að í fyrsta sinn er þjóðlenda gerð að séreignarlandi með því að afhenda hana. Fram kemur að í því er ákveðið verðmæti. Forsætisráðherra ætlar að verið sé að afhenda Landsvirkjun jafnvirði 500 millj. kr. Hálfur milljarður sagði hæstv. forsætisráðherra að væri talan í þessu máli.

Þetta varðar umræðuna, deiluna sem einkum hefur staðið milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um hugtökin „ríkiseign“ og „þjóðareign“, um hver er eignarréttur á hlutum, landi eða verðmætum sem ríkið gætir. Við höfum haldið því fram að þjóðareign eigi í íslenskum lögum að vera annað eignarform en ríkiseign, að það gegni öðru máli um Skarðsbók eða þjóðminjar eða Þingvelli, sem eru með leyfi forseta, samkvæmt lögum „ævinleg eign íslensku þjóðarinnar“, en embættisbíl forsætisráðherra eða stólinn sem hann situr á hér í þinginu. Bíllinn og stóllinn lúta einkaeignarrétti ríkisins, sem er sami einkaeignarrétturinn og gildir um stólinn minn heima hjá mér eða bílinn í eigu fjölskyldu minnar. Það eiga að vera reglur í stjórnarskrá um muninn á þjóðareign og ríkiseign. Auðvitað er hann fyrst og fremst sá að þjóðareign, þannig að aftur sé vitnað í lögin um Þingvelli, má ekki selja eða veðsetja nema með einhverjum sérstökum skilyrðum. Embættisbifreið forsætisráðherra og stóllinn sem hann situr á í þinginu ganga kaupum og sölum eftir þeim hentugleikum sem eigandinn telur fyrir hendi.

Þjóðlendur tilheyra þjóðareignarskilgreiningunni og eru með allt öðrum hætti eign ríkisins en t.d. einhver lóð í Reykjavík eða Trékyllisvík. Það held ég að sé almennur skilningur, bæði þjóðarinnar og flestra lögfræðinga þó að það sé ekki nægilega ljóst í lögum. Þó er það nógu ljóst til þess að ekki er gert ráð fyrir sölu þjóðlendna í þjóðlendulögunum.

Maður spyr sig: Hvaða rök eru fyrir því nú að bera fram þetta frumvarp þar sem ljóst er að það gengur gegn anda þjóðlendulaganna? Ekki er að sjá að nein brýn rök standi til þess að Landsvirkjun eignist þetta land eins og hér er gert ráð fyrir. Hvaða rök eru það þá? Hvað gengur hæstv. forsætisráðherra til? Það er ljóst að það eru ekki þau rök sem minnst er á í athugasemdum um frumvarpið á síðu 13 í þingskjalinu. Þar er minnst á bréf borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans á Akureyri. Það vekur reyndar furðu að frumvarpið er endurflutt og eina breytingin í athugasemdunum er þessi hér, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð eigi útrætt.“

Það sem hefur gerst síðan er að Landsvirkjun lýtur öðrum eigendum en áður og þar á meðal ekki þeim sem vitnað er til á bls. 13 í athugasemdum við frumvarpið.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti þessu ágætlega áðan. Hann sagði málið algjörlega óskylt þeim samningi sem gerður var um kaup ríkisins á eignarhlutum Akureyrar og Reykjavíkur. Fyrirheitið tengist ekki þeim samningum með neinum hætti. Akureyri gerir ekki fyrirvara. Reykjavík gerir ekki fyrirvara og ríkið gerir heldur ekki fyrirvara um að þetta gangi í gegnum Alþingi enda hefur forsætisráðherra nánast engan rétt til þess, nema vegna þess að Alþingi þarf að samþykkja það. Það væri eðlilegt að hann gerði slíkan fyrirvara ef við værum með einhverjum hætti skuldbundin Reykjavík og Akureyri í þessu máli.

Þau rök eiga ekki við og ég þakka forsætisráðherra hæstv. fyrir að viðurkenna það. Þeim var mjög beitt í fyrra eða á síðasta þingi, að þetta bæri að gera til að hægt væri að kaupa þessa hluti sveitarfélaganna.

Þá kemur manni til hugar að hér sé, eins og á hefur verið minnst, verið að búa í haginn fyrir einkavæðingu í framtíðinni, tryggja að Landsvirkjun líti betur út við slíka einkavæðingu. Það er auðvitað í beinu framhaldi af yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes, sem hann gaf þegar hann var fjármálaráðherra. Fleiri stjórnarsinnar hafa lýst slíku yfir, einkum sjálfstæðismenn, en svo hefur einnig verið gert af hálfu Framsóknarflokksins. Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. iðnaðarráðherra, gerði það hér í fyrra eða hittiðfyrra jafnvel þó að Jón Sigurðsson, núverandi hæstv. formaður Framsóknarflokksins og iðnaðarráðherra, hafi dregið úr því í umræðum um kaupsamningana áminnsta hér fyrr í vetur.

Það passar líka við þá furðulegu skipan mála að Landsvirkjun er nú sameignarfyrirtæki. Það var skýrt þannig að ekki væri hægt að búa til sameignarfyrirtæki úr Landsvirkjun nema með því að þar væru tveir eigendur. — Það var aldrei nefnt sem ástæða þegar sama ríkisstjórn bar fram frumvarpið um Ríkisútvarpið sf. Þar var aðeins beitt rökunum um athugasemdir frá Evrópu. — En sem kunnugt er er eigandi Landsvirkjunar annars vegar ríkið og hins vegar fyrirtækið Eignarhlutir ehf., sem er í eigu sama eiganda, ríkisins með fulltrúann Þórhall Arason, sem er starfsmaður í fjármálaráðuneytinu, á einhvers konar sameignarhafafundi sem mynd var af á heimasíðu Landsvirkjunar um daginn. Það var merkileg mynd. Á henni voru einir 15 karlar, sem er orðið fátítt nema í því sem lýtur að stjórnum á vegum annaðhvort fjármálaráðherra eða forsætisráðherra.

Þriðja ástæðan fyrir því að flytja frumvarpið kynni að vera sú að bæta þyrfti eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Það væri þá í svipuðum dúr og tilgangurinn með að leggja bæði Orkubú Vestfjarða og Rarik undir Landsvirkjun sérstaklega og þurfi að gera það núna, að staðan líti illa út í augum lánardrottna. Mér heyrðist forsætisráðherra minnast á það sérstaklega vegna þess að Kárahnjúkavirkjun væri að setja Landsvirkjun á hnén í augum lánardrottna og nú þyrfti að bæta þá stöðu. Í raun er það mjög svipuð ástæða og héldist í hendur við einkavæðingarskýringuna í framtíðinni, sem ég held að sé kannski réttust.

Rökin eru a.m.k. ekki þau að Landsvirkjun þurfi á þessu að halda vegna þess að það muni bæta rekstur hennar á Búrfellsvirkjun. Þar nægir henni sá nýtingarréttur sem hún hefur að lögum og hún hefur ekki við meira að gera til að reka þá virkjun. Munurinn væri sá, gagnvart Búrfellsvirkjun einni og sér, að segja má að Landsvirkjun greiði afnotagjald fyrir nýtingarrétt sinn með því að reiða fram fé sem hagnað til ríkisins. En ef Landsvirkjun væri einkavædd mundi skapast krafa um raunverulegt afnotagjald sem svo héti til ríkisins fyrir þau réttindi sem hún nýtur. Með því að afhenda Landsvirkjun þessi réttindi, sem forsætisráðherra sjálfur metur upp á hálfan milljarð, týnist sú krafa og ekki verður gert ráð fyrir henni frekar hjá þeim fjárfestum sem kunna að horfa til Landsvirkjunar sem fjárfestingarkosts.

Ég verð að nefna, áður en ég hætti, þá breytingu sem orðið hefur frá 1965, að nú er samkeppnisumhverfi í þessum geira atvinnulífs og -rekstrar á Íslandi. Það sem hér er að gerast, séð með augum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur, er að ríkisvaldið misbeitir áhrifum sínum í samkeppninni með því að færa Landsvirkjun sérstaklega réttindi upp á hálfan milljarð. Ég á von á að það verði gerð athugasemd við það af hálfu þessara keppinauta. Ég efast um að ríkið geti gert þetta með því að breyta þjóðlendum í þau verðmæti, breyta landi og réttindum sem tilheyra öllum, og þar með einnig eigendum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur, til þess arna.

Ég veit að hæstv. forsætisráðherra skýrir í ræðu sinni á eftir betur fyrir okkur hvernig þessi hálfi milljarður, hvernig sú upphæð væri fengin. Um þetta var spurt í fyrra, hver væru verðmæti þessara réttinda og hvernig sú upphæð væri fengin. Hverra mat er það? Hann reiðir þá fram skýrslu hæfra manna sem hafa gert slíkt mat. Við fyrstu sýn eða heyrn þykir mér matið fremur lágt en er reiðubúinn að skipta um skoðun þegar ég heyri betri rök forsætisráðherra fyrir því.

Þetta frumvarp, forseti, gengur gegn anda þjóðlendulaganna. Það er þarflaust fyrir rekstur Landsvirkjunar. Það gefur fordæmi fyrir því að þjóðlendur verði seldar í framtíðinni og setur þjóðlendumálið allt saman í uppnám. Það gengur gegn samkeppnishugsun í orkugeiranum og á ekkert erindi í gegnum þingið. Það lýsir hins vegar ágætlega, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson rakti í góðri ræðu, að Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa sérstöðu, af íslenskum stjórnmálaflokkum, gagnvart auðlindunum og þjóðareigninni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið í veg fyrir að auðlindir sjávar verði gerðar að þjóðareign samkvæmt stjórnarskrá þótt hann hafi staðið að sérstöku ákvæði í stjórnarsáttmála þess efnis. Í honum er fyrirstaða gagnvart þeirri sáttatilraun sem reynd var um auðlindir í nefnd Karls Axelssonar. Sú fyrirstaða, geng ég út frá, byggist á andstöðu í Sjálfstæðisflokknum við sjálfan framtíðarkaflann í frumvarpinu. Skammtímaráðstafanir sem sú nefnd leggur til eru vissulega mjög umdeildar en það er framtíðarkaflinn sem menn hafa náð nokkurri sátt um, nema í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Í þriðja lagi gengur Sjálfstæðisflokkurinn nú fram fyrir skjöldu um það að hefja sölu á þjóðlendum og beitir til þess sögulegum rökum, sem eru hæpin, en neitar að telja fram önnur rök á bak við þetta þrátt fyrir spurningar manna hér og á síðasta þingi.