133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vátryggingarsamningar.

387. mál
[19:33]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Um nokkurt skeið hefur verið talað um það í íslensku samfélagi að áhrif stjórnmálamanna fari sífellt minnkandi og áhrif peningamanna fari ört vaxandi, að helstu fyrirmyndir íslenskra ungmenna og oft og tíðum annarra í samfélaginu séu einstaklingar sem eru vel efnum búnir og hafa komist í álnir. Ég velti þessu fyrir mér þegar við sjáum ríkisstjórnina koma hlaupandi æ ofan í æ eins og einhverjir sendisveinar, ef svo má að orði komast, þar sem hún er í rauninni að ganga erinda annarra.

Við ræddum áðan um Landsvirkjun og þá hugmynd að afsala Landsvirkjun landi úr þjóðlendu sem Alþingi samþykkti fyrir nokkrum árum að yrði ekki gert, að meginstefnu til yrðu þjóðlendur í þjóðareign og úr þjóðlendum yrði ekki afhent land. Hæstv. forsætisráðherra kom hingað í dag og talaði fyrir þessu tiltekna máli og færði fram þau rök helst að vegna þess að viðskipti hefðu átt sér stað með þessi réttindi alla öldina og hagsmunir lánardrottna horfðu til þess að Landsvirkjun fengi þetta land yrði að afhenda þeim landið. Það breytti engu þó að sams konar rök ættu við um bændur hringinn í kringum landið sem hafa í gegnum árhundruð keypt og selt lönd og veðsett þau tilteknum lánardrottnum. Þau rök virðast ekki eiga við um þá heldur einungis um Landsvirkjun.

Næsta mál á dagskrá er það mál sem við ræðum hér. Það lýtur að því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra kemur hingað með erindisbréf sem ekki verður túlkað á annan veg en þann að hann gangi erinda tryggingafélaga í þeim skilningi að tryggja það að tryggingafélög þurfi helst ekki að taka neina áhættu þegar þau selja tryggingar. Tryggingar eru í eðli sínu áhætta og einstaklingar kaupa sér tryggingu til að takmarka þessa áhættu. Tryggingafélagið tekst á hendur áhættu vegna þess að það ætlar að koma til skjalanna ef þessi áhætta verður að veruleika. Þar af leiðandi er eðli trygginga að takmarka áhættu. Í þessu tilviki vaknar sú spurning: Af hverju gengur ríkisstjórnin erinda tryggingafélaga í þeim skilningi að veita þeim heimildir til að afla upplýsinga sem hér er verið að kalla eftir? Hvað gerir það að verkum að takmarka þarf áhættu tryggingafélaga á þann hátt sem hér er lagt til? Þessi heimild til upplýsingaöflunar leiðir eðli málsins samkvæmt af sér að það verður síðan tryggingafélaganna að meta þessar upplýsingar, meta þá áhættu sem tryggingafélögin eru tilbúin að taka og taka jafnvel afstöðu til þess hvort líkur standi til að einhverjar tilteknar upplýsingar leiði til þess að viðkomandi vátryggingartaki kunni hugsanlega að fá sjúkdóma eða veikjast í einhverri óskilgreindri framtíð. Þetta getur einnig þýtt að það verði ekki á færi nema fárra að kaupa sér þessar tryggingar og það getur varla verið það sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að tryggja. Hæstv. iðnaðarráðherra er vel kunnugt um að uppi hafa verið deilur milli Fjármálaeftirlitsins eða vátryggingafélaganna annars vegar og Persónuverndar hins vegar og því vaknar spurningin: Hvers vegna tekur ríkisstjórnin afstöðu með vátryggingafélögunum gegn einstaklingunum? Fyrir þá sem vilja henda upp samsæriskenningum af hvaða tilefni sem er þá gefur þetta örugglega tilefni til að menn búi til einhverjar samsæriskenningar í aðdraganda kosninga. Ég held að það sé afar auðvelt.

Sú kvöð hvílir á hæstv. viðskiptaráðherra að svara þessari spurningu. Hér er um það að ræða að verið er að takmarka áhættu tryggingafélaganna á kostnað einstaklinganna. Af hverju velur ríkisstjórnin að fara þessa leið? Kannski er það rétt sem sífellt er verið að gefa í skyn í opinberri umræðu að hlutur stjórnmálamanna fari ört minnkandi en hlutur stórra fyrirtækja og efnaðra einstaklinga ört stækkandi. Það er þróun sem ég tel afar ógeðfellda svo vægt sé til orða tekið vegna þess að við sem erum kjörin til að setja almennar leikreglur í samfélaginu eigum fyrst og fremst að vera bundin samvisku okkar og engu öðru. Þess vegna er svo mikilvægt að við fáum miklu ítarlegri upplýsingar um það hvers vegna ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara þessa leið.

Ég las þetta frumvarp og greinargerðina með því með þeim formerkjum að leita að því sem í raun og veru gerði það að verkum að ríkisstjórnin tekur afstöðu með tryggingafélögunum gegn einstaklingunum í þeirri deilu sem uppi hefur verið þar sem tryggingafélögin hafa sótt hart að fá að afla nýrra upplýsinga til að takmarka áhættu sína og jafnvel upplýsinga sem eru mjög viðkvæmar og ganga inn á persónurétt einstaklinga. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp það sem ég fann um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Breyting þessi er lögð til þar sem ekki er hægt að ætlast til að umsækjandi“ — þ.e. umsækjandi um vátryggingu — „sem ekki býr yfir þekkingu á læknisfræði geti lagt almennt mat á heilsufar sitt eða nákominna ættingja.“

Af þessu má þá væntanlega ráða, virðulegi forseti, að í dag geti tryggingafélögin einungis treyst sér til að tryggja lækna. Það sé svo vandmeðfarið að meta þá áhættu sem því fylgir að tryggja einstaklinga að það verði að gera þessa breytingu, því að óvíst sé að umsækjandi búi yfir læknisfræðiþekkingu. Þetta eru röksemdirnar sem finna má fyrir þessari breytingu þar sem menn þurfa að takast á við spurninguna: Af hverju tekur ríkisstjórnin afstöðu með tryggingafélögunum gegn einstaklingunum, gegn persónuverndinni? Gegn Persónuvernd. Það verða að koma miklu skýrari svör við þessu.

Ég hafði ekki hugsað mér að hafa langt mál eða mikið um þetta tiltekna frumvarp. Ég sit í efnahags- og viðskiptanefnd og vænti þess að málið komi þangað og þar gefst færi á að ræða það í þaula. Það sem eftir stendur í mínum huga er spurningin sem ég hef spurt einu sinni eða tvisvar í þessari ræðu: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin gengur sífellt erinda annarra?

Það var ágætt sem einn ónefndur frambjóðandi sagði um daginn þegar hann var að reyna að lýsa ríkisstjórninni en það var eitthvað á þá leið að þótt hjólið snúist sé hamsturinn dauður, þ.e. í þeim skilningi að það væri engin hugmyndafræði og ekkert líf eftir í þessari ríkisstjórn annað en að koma með einhver erindi inn í þingið frá hinum og þessum í samfélaginu. Þegar maður reynir að taka upp umræðu til að reyna að átta sig á því hvort í þessu felist einhver stefna, einhver markmið, einhver sýn sem vert er að líta til eða ræða þá er það ekki hægt, því að eins og hæstv. forsætisráðherra sagði áðan þá eru þetta sértækar aðgerðir sem hafa ekki fordæmisgildi. Þetta eru allt saman sértækar aðgerðir. Við erum að erindast strákarnir, hæstv. ráðherrar, fyrir hina ýmsu í samfélaginu. Þetta er kannski besta lýsingin á þeirri ríkisstjórn sem nú situr og þeirri hugmyndafræði sem hún vinnur eftir, því að öll hugmyndafræði í þeim skilningi er löngu fyrir bí og kannski ekki að undra.

Ég ætla að lokum að ítreka þessa litlu spurningu: Hvers vegna tekur ríkisstjórnin afstöðu með tryggingafélögunum gegn einstaklingunum í þessu frumvarpi?