133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

lokafjárlög 2005.

440. mál
[14:23]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða lokafjárlög ársins 2005. Mér finnst ástæða til að rifja upp að það eru ekki nema örfá ár síðan þetta var í þeim ólestri að frumvarpið var ekki lagt fram fyrr en löngu seinna, það voru mörg ár sem biðu og hér hefur sannarlega orðið mjög mikil framför. Það er þakkarvert að við skulum vera komin í það far að geta afgreitt þetta svona fljótt. Þetta er nauðsynlegt og vonandi til eftirbreytni.

Um þá tækni sem þetta fjallar um fyrst og fremst, það er spurning um hvernig við færum og hvernig við gerum þetta, má ýmislegt segja eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Helga Hjörvar. Ég hef t.d. oft haft á orði hvort ekki væri ástæða til þess í heild að hætta við markaða tekjustofna, þeir væru bara til að gera þetta allt of flókið og rugla menn í ríminu. Ég hef oft komið með þá hugmynd og get haldið því áfram. Það væri heilbrigðara að vera ekkert með þetta. Það er samt ástæða til þess þegar við komum með fjárlög í þingið að minnast þess að fjárlögin fyrir árið 2005 eru þau fjárlög sem hafa skilað ríkissjóði mestum nettóafgangi í sögu þessa lands. Ég vil gera það aðeins að umræðuefni af því að það kom fram í vetur að lánsfjárhæfi ríkissjóðs hefur lækkað og menn kenndu því um, þessir tæknimenn sem stóðu að því, að það væru fjárlög ríkisins. Ég hef miklar efasemdir um slíkar fullyrðingar.

Það kom fram þá að í meðförum þingsins í fyrra hefði t.d. fjárlagafrumvarpið hækkað, en hvað hækkaði það mikið? Það hækkaði um 1 prómill af landsframleiðslunni. Ég ætla að segja, virðulegur forseti, að það er ekki til í dæminu að nokkrir félagsfræðingar eða hagfræðingar muni nokkurn tíma ráða yfir þeim mælitækjum að geta mælt hvaða áhrif 1 prómill af landsframleiðslu hefur á afkomu ríkissjóðs. Þetta er bara hrein vitleysa, getur ekki verið. Það er ástæða til að segja það hér enn og aftur að afkoma hins íslenska ríkissjóðs er mjög til fyrirmyndar og betri en flestra annarra ríkja í Evrópu, kannski Noregur og Sviss séu þar á sama báti. Það er furðulegt að heyra það alltaf aftur og aftur gagnvart þeirri þenslu sem var hér á síðasta ári — sem er nú horfin, það hefur verið verðbólgulaust land núna í eina fimm mánuði, menn gleyma því, það er 0% verðbólga síðustu fimm mánuði, menn eru alltaf að horfa í baksýnisspegil í staðinn fyrir að líta fram, hér er engin þensla, hér er jafnvægi. Það er ástæða til að spyrja sig: Er það rétt sem menn hafa sagt hér hvað eftir annað og hver að taka upp eftir öðrum, að Seðlabankinn sé einn á vaktinni gagnvart verðþenslunni? Ríkissjóður gerir þar ekkert, segja menn. En ríkissjóður hefur skilað meiri afgangi á undanförnum árum en nokkurn tíma áður hefur þekkst í sögunni. Hins vegar er ástæða til þess, virðulegi forseti, að horfa til þess hver útlánaþenslan hefur verið hjá íslenskum bönkum. Hún er ótrúleg og ég ætla sannarlega að segja frá því rétt einu sinni að þar hefur verið farið fram með miklum glannaskap. Útlánaaukning til fyrirtækja og heimilanna frá 2003 er talin vera um 1.400 milljarðar. Þetta eru gríðarlegar upphæðir og líka ástæða til að spyrja að því enn einu sinni sem ég hef oft gert áður: Hvernig má það vera, þetta mikla innstreymi peninga til Íslands? Hvernig stendur á því að nú streyma inn svo miklir peningar? Er það vegna þess að menn hafa staðið vaktina með því að hækka hér endalaust vexti? Eða getur það verið sem margir hafa haldið fram, og ég kasta þeirri spurningu enn þá einu sinni fram, að það sé hugsanlegt að einmitt þessar miklu vaxtahækkanir virki öfugt, þetta sé gróðrarstía fyrir þá sem vilja vera í spekúlasjón, þeirra sem eru að reyna og sannarlega ná árangri með því að veðja á vaxtamismuninn?

Virðulegi forseti. Hér á landi núna erum við í mjög góðri stöðu. Ríkissjóður hefur aldrei staðið betur, íslenska samfélagið hefur aldrei staðið betur og mér finnst ástæða til að fagna því. Nettóskuldir íslenskra heimila eru taldar einhverjar þær lægstu í Vestur-Evrópu svo að ég komi því að í þessari umræðu, einhverjar þær lægstu. Íslendingar eru líklega miðað við höfðatölu ríkasta þjóðin í heiminum Við erum með eignir í lífeyrissjóðunum upp á 1.200 milljarða, þar af 500 milljarða sem við ávöxtum erlendis með gríðarlega góðum árangri. Það er ástæða til að vekja athygli á þeirri umræðu sem núna er í gangi í fjölmiðlum Íslands um reikningsuppgjör, hið alþjóðlega reikningsuppgjör sem ég efast ekki um að sé rétt, sem tekur ekki tillit til ávaxtanna af fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Því hefur verið haldið fram að ef það væri gert væri viðskiptahallinn á Íslandi á síðasta ári 100 milljörðum minni en reiknað er. Ef þetta er rétt er ástæða til að horfast í augu við það að Ísland er í dag, á árinu 2007, kannski með viðskipti við útlönd sem eru mjög nálægt því að vera núll, viðskiptahallinn sé enginn. Ég velti þessu upp, virðulegi forseti, það er ástæða til að vekja athygli á þessari umræðu. Við höfum ástæðu til þess um leið og við fögnum því að við erum að fara yfir þetta frumvarp núna svona snemma, við munum taka til efnislegrar meðferðar í meðförum fjárlaganefndar þá tækni sem þarna er um að ræða. Það er sannarlega ástæða til að tala þar um það og fara í gegnum það og við skulum þá fara yfir það aftur í seinni umræðunni.

Það er mikið fagnaðarefni að svo skuli vera komið að við skulum vera að ræða þessi fjárlög núna og það er janúarmánuður enn þá. (Gripið fram í: Þetta er allt of jákvætt … fjárlögin …)