133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar Víkartindur strandaði hér við land kom í ljós þegar menn skoðuðu aðdragandann og fylgdust reyndar með honum, að íslensk stjórnvöld höfðu ekki möguleika á að grípa inn í. Landhelgisgæslan gat ekki tekið yfir málið vegna þess að lagagrundvöll skorti til þess.

Nú er sá lagagrundvöllur fyrir hendi en auðvitað hefði það mál átt að ýta við mönnum líka að skoða þyrfti hér önnur mál. Fyrrverandi samgönguráðherra hafði sett af stað nefnd til að skoða siglingaleiðir og sjá til þess að skip færu leiðir sem væru sem öruggastar. Hæstv. núverandi samgönguráðherra hefur setið í átta ár án þess að til nokkurra framkvæmda komi í framhaldi af því sem fyrri samgönguráðherra gerði.

Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni hverslags sofandaháttur er í gangi hvað þessa hluti varðar. Búið er að ræða árum saman um siglingar stórra skipa fram hjá Íslandi sem séu að skella á og munu gríðarlega stór skip fara hér fram hjá. Þau mega nánast sigla við strendur landsins. Önnur lönd, t.d. Noregur, hafa nú þegar sett reglur um hver fjarlægðin eigi að vera og haft hana það ríflega að hægt sé að grípa til aðgerða ef bilanir verða í þessum skipum eða eitthvað kemur upp á. Ekki er hægt að bíða lengur eftir því að hér taki menn slíkar ákvarðanir. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra til að fara ofan í skúffurnar hjá sér, draga upp það sem þar er og koma málum fram ef þarf að setja lög um það á Alþingi. Menn geti skoðað þá lagasmíð sem þarf til að hægt sé að ná tökum á þessum málum.

Verið er að smíða varðskip fyrir Íslendinga. Gert er ráð fyrir (Forseti hringir.) að það eigi að geta tekið á svona málum, þ.e. að draga gríðarlega stór skip frá landi ef á þarf að halda. (Forseti hringir.) En hvar verða slík skip staðsett?