133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

vaxtarsamningur Vestfjarða.

528. mál
[15:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Nýlega var lögð fram skýrsla Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hagvöxt landshluta 1998–2004. Þar komu fram tölulegar staðreyndir sem eru íbúum Vestfjarða og Norðurlands vestra mikið áhyggjuefni og hljóta að vekja stjórnvöld af þyrnirósarsvefni varðandi stöðu atvinnu- og byggðamála þessara svæða. Á Vestfjörðum var dauft yfir atvinnulífinu á tímabilinu, framleiðsla dróst saman á þremur af þeim sex árum sem skoðuð eru og öll árin nema tvö er vöxtur minni en að meðaltali á landinu öllu. Árið 1999 dragast fiskveiðar saman um fjórðung á Vestfjörðum og samdráttur er einnig í vinnslu. Árið 2001 rétta veiðar heldur úr kútnum en veiðar og vinnsla dragast saman aftur árin 2002 og 2003.

Svipaða sögu er að segja um Norðurland vestra. Í fjögur ár af sex dregst framleiðslan saman og fiskvinnsla einnig. Hagvöxtur í þessum landshlutum var því enginn og neikvæður um 6,6% en á sama tíma var hagvöxtur á höfuðborgarsvæðinu 39%. Nýskráning hlutafélaga og einkahlutafélaga hefur dregist saman í þessum landshlutum. Þessar staðreyndir vekja ótta íbúa þessara landshluta um áframhaldandi þróun í sömu átt ef ekki verður brugðist við af fullum þunga af hálfu stjórnvalda. Fjölgun íbúa mun halda áfram þar sem hagvöxtur er og þensla. Íbúum mun að sama skapi fækka þar sem hagvöxtur er neikvæður

Íbúar þessara landsvæða halda eflaust áfram að flytja þangað sem tekjumöguleikarnir eru meiri og hagvöxtur mikill eins og á höfuðborgarsvæðinu. Stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi og þensla sem fylgt hefur í kjölfarið, valdið verðbólgu og háu vaxtastigi, bitnar mjög á þessum landshlutum. Þar er ekki hægt að mæta skuldaaukningu heimila og verðlagshækkunum með hærri markaðslaunum. Þau eru ekki til staðar í neikvæðum hagvexti. Einnig hefur sjávarútvegurinn liðið fyrir stóriðjustefnu stjórnvalda. Miklar vonir eru því bundnar við vaxtarsamning Vestfjarða og framkvæmd hans. Ég vil bera upp eftirfarandi fyrirspurn í þremur liðum til hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hvað líður framkvæmd einstakra þátta í vaxtarsamningi Vestfjarða og liggja fyrir upplýsingar um hvaða árangri samningurinn hefur skilað frá upphafi?

2. Hve miklir fjármunir hafa verið veittir til einstakra verkefna sem tilheyra samningnum og til samningsins í heild?

3. Hefur ríkisstjórnin áform um að bregðast við þeim neikvæða hagvexti sem verið hefur á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra að undanförnu og upplýst hefur verið um, og þá hvernig?