133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:45]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var athyglisvert sem hv. þingmaður las þarna upp, sem er væntanlega stefna hv. þingmanns í þessu máli, þegar kæmi að aðgengi að áfengi, og var þá að vísa í skýrslu sem heitir eitthvað á þá leið að áfengi sé engin venjuleg vara, ef ég man rétt. Þar las hv. þingmaður m.a. upp að það ætti að hafa fáa sölustaði. Er það ekki rétt, hv. þingmaður? (ÞBack: Hvatt til þess.) Hvatt til þess, sem er væntanlega skoðun hv. þingmanns, því að hv. þingmaður var rétt áður búin að … (Gripið fram í.) Heldur hvað? (ÞBack: Ekki fáa sölustaði; ekki í öllum matvöruverslunum.) Nei. Ég gat ekki annað heyrt (Forseti hringir.) en að hér væri talað um fáa sölustaði, virðulegi forseti, af því að hv. þingmaður hafði rétt áður talað um að hún teldi að ÁTVR ætti að fjölga sölustöðum sínum um landsbyggðina. Hér er hv. þingmaður því væntanlega komin í mótsögn við sjálfa sig.

Á sama hátt hefur hv. þingmaður ekki lesið frumvarpið vegna þess að hún talar um þá hættu sem skapist ef þetta fer í matvöruverslanir og allar verslanir þar sem ungt fólk muni afgreiða það.

Í b-lið 10. gr. stendur skýrt, með leyfi forseta:

„Starfsmenn sem afgreiða áfengi mega ekki vera yngri en 20 ára.“

Síðan er það nákvæmlega tilgreint að það eru ýmsar verslanir, m.a. verslanir sem hv. þingmaður nefndi, sjoppur og vídeóleigur og annað slíkt, þar sem ekki á að vera heimilt að selja þessa vöru samkvæmt frumvarpinu. (MÁ: En á bensínstöðvum samt.) Hv. þingmaður kallar: Bensínstöðvar. Það er akkúrat eins og gert er í dag.

Mér finnst sjálfsagt að fá gagnrýni á þetta frumvarp (Forseti hringir.) en það er betra að menn séu búnir að lesa það.