133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

tæknifrjóvgun.

530. mál
[19:48]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun, með síðari breytingum, eins og fram er komið. Ég vil í byrjun fagna því — eins og aðrir hv. þingmenn hafa reyndar gert — að frumvarpið sé komið fram. Það er rétt að aðdragandinn er langur, m.a. í því sem gerst hefur í vísindaheiminum og læknavísindunum. Hér heima hefur umræðan þróast mjög og er það ekki síst fyrir tilstilli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur tekið málið upp á þingi eins og hún kom inn á í máli sínu hér áðan.

Ég vona að frumvarpið stuðli að aukinni umræðu, og þá ekki síst meðal almennings, um þessi mál, bæði um þá möguleika sem felast í þessari framþróun læknavísindanna en líka um þau siðferðilegu álitamál sem koma upp og taka þarf á. Ég veit að heilmikil umræða hefur átt sér stað í vísindaheiminum og einhver umræða á vettvangi stjórnmálanna. Málið hefur jú komið til umræðu og meðferðar hér á þingi.

Þróunin varð sú — og þekki ég málið ágætlega þar sem ég var á þeim tíma aðstoðarmaður þáv. hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jóns Kristjánssonar, — að ráðherra ákvað að setja á stofn nefnd og hafði þar til hliðsjónar þingsályktunartillögu sem rædd hafði verið hér á þingi og tekin fyrir í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd. Eins og sést í góðri greinargerð frumvarpsins sem nú liggur fyrir fékkst einvala lið fólks í nefndina. Þekking af þessu tagi er ekki víða í samfélaginu en með skipun nefndarinnar held ég að náðst hafi að draga saman sérfræðinga á sviði vísinda, læknavísinda og annarra sviða sem málið snertir. Þá skiptir ekki síður máli að að málinu komu fulltrúi Prestafélagsins, guðfræðingur eða prestur, og einnig siðfræðingur. Ég held því að náðst hafi ágætt jafnvægi í því sem alltaf er uppi þegar við ræðum stofnfrumurannsóknir og möguleika á því sviði, það eru þessi siðferðilegu álitamál sem aðrir hv. þingmenn hafa komið inn á.

Ég tel að frumvarpið sé afar góð lending í þessu mikilvæga máli. Það er mikilvægt að Íslendingar hafi sömu möguleika og aðrar þjóðir til að halda áfram á þessari vegferð á sviði læknavísindanna og á sviði rannsókna af þessu tagi sem gefa mörgum sjúklingahópum von um lækningu. Auðvitað er margt óljóst enn og á næstu árum munu örugglega verða mikil þáttaskil. En þó eru mörg jákvæð teikn á lofti og það er í þeim anda sem þetta frumvarp er lagt fram, það felur í sér varfærin skref sem eru mjög til þess gerð að hægt sé að ná um það víðtækri sátt.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er með frumvarpinu lagt til að veittar verði tilteknar heimildir til að nota svonefnda umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna og að jafnframt verði í undantekningartilvikum heimilt að framkvæma kjarnaflutning, þ.e. einræktun, í læknisfræðilegum tilgangi. Frumvarpið er samið af nefnd, eins og fram er komið, sem skipuð var af hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Vil ég aðeins ræða þá málsmeðferð. Ég tel að hæstv. ráðherra og nefndin hafi lagt sig fram um að skapa umræðu í samfélaginu. Þegar nefndin hafði lokið vandaðri vinnu og skilað ráðherra drögum að frumvarpi og skýrslu birti hæstv. ráðherra skýrsluna á heimasíðu ráðuneytisins. Hann gaf þar með öllum tækifæri til að skoða efni skýrslunnar og frumvarpið og sendi það jafnframt sérstaklega völdum aðilum til umsagnar svo að þeir hinir sömu gætu haft áhrif á efni þess. Að yfirferð þeirra umsagna lokinni og eftir nánari yfirferð í ráðuneytinu kom frumvarpið hingað til þingsins. Því hefur heilmikið verið lagt af mörkum til að reyna að vekja upp umræðu í samfélaginu, en eins og ég sagði áðan hófst sú umræða fyrir nokkrum árum þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði sitt af mörkum hér á þingi, og beina sjónum að því sem er að gerast í nágrannalöndunum og í hinum stóra heimi.

Í fyrsta lagi er sem sagt verið að leggja til að heimilt verði, að skilyrðum uppfylltum, að nota svonefnda umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna. Segja má að löggjafinn hafi nú þegar, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu, tekið afstöðu þess efnis að þeir hagsmunir sem í því eru fólgnir að aðstoða fólk við að eignast börn réttlæti að fósturvísar séu búnir til, jafnvel þótt vitað sé að þeir muni ekki allir nýtast í þeim tilgangi.

Í öðru lagi erum við að tala um að heimilt verði í undantekningartilvikum að framkvæma kjarnaflutning í þeim tilgangi að búa til svokallaðar stofnfrumulínur sem nýst geta til lækninga eða til að afla þekkingar í líf- og læknisfræði. Jafnframt kemur skýrt fram að í engu sé verið að kvika frá banni núgildandi laga um einræktun í æxlunartilgangi, þ.e. í þeim tilgangi að einrækta manneskju. En um slíkt bann er að ræða og er rík samstaða meðal þjóða enda felur einræktun í sér afar mörg og flókin siðfræðileg vandamál auk þess sem fá rök styðja nauðsyn hennar eða gagnsemi fyrir einstaklinga eða samfélag. Ísland hefur undirgengist alþjóðlegan sáttmála þar sem skýrlega er kveðið á um bann við einræktun manna og mér finnst mikilvægt að það komi hér fram.

Eins og fram hefur komið í máli annarra hv. þingmanna eru stofnfrumurannsóknir vaxandi, ekki einungis á erlendum vettvangi heldur einnig hérlendis. Það gerir okkur kleift, að ég held, að stíga stór skref á þessum vettvangi. Landspítali – háskólasjúkrahús er nú þegar að nota svokallaðar stofnfrumuígræðslur og hafa þær verið stundaðar í um tvö ár og gengið vel. Í greinargerð með frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir þróun löggjafar á þessu sviði í öðrum löndum. Þarf ég svo sem ekki að endurtaka það. Mér finnst frumvarpið vel unnið og einnig greinargerðin sem fylgir með. Það er auðvitað mikilvægt að við fylgjumst með því sem er að gerast í kringum okkur. Nú er það verkefni hv. heilbrigðis- og trygginganefndar að fara rækilega yfir málið og hefur heilmargt komið fram í máli þingmanna. Almennt finnst mér ég heyra að menn séu spenntir fyrir þessu frumvarpi og fagni því reyndar að það sé komið fram. Ég tek undir það og við í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd munum að sjálfsögðu fara yfir málið, kalla til okkar gesti, óska umsagna og vinna málið eins vel og okkur er unnt. Mun ég gera mitt til þess að málið nái fram að ganga.