133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum.

450. mál
[13:53]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum.

Hinn 6. desember 2005 samþykkti Alþingi þingsályktun um að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2004, frá 23. apríl 2004, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins nr. 2003/72/EB frá 22. júlí 2003, um viðbætur við samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög að því er varðar aðild starfsmanna.

Með frumvarpi þessu, sem samið er af Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst, er lagt til að sett verði lög til innleiðingar á efni tilskipunarinnar.

Við smíði frumvarpsins var í öllum meginatriðum fylgt ákvæðum tilskipunarinnar. Þá voru lög um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, nr. 27/2004, einnig höfð til hliðsjónar sem og frumvarp til þeirra laga, enda ákvæði tilskipunarinnar sem liggur þeim að baki að miklu leyti sambærileg við ákvæði tilskipunarinnar frá 2003. Loks voru höfð til hliðsjónar dönsk lög um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum.

Í fyrrgreindri tilskipun frá 2003 eru settar fram reglur til að vernda rétt starfsmanna evrópskra samvinnufélaga til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi evrópska samvinnufélagsins sem þeir starfa hjá. Ákvæðum tilskipunarinnar er ætlað að tryggja að venjur um aðild starfsmanna hjá aðilum sem taka þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags hvorki hverfi né minnki að vægi við stofnun evrópska samvinnufélagsins. Vegna margbreytilegra reglna og venja sem fyrir hendi eru í aðildarríkjunum um það hvernig fulltrúar starfsmanna koma að ákvarðanatöku í samvinnufélögum mælir tilskipunin hins vegar ekki fyrir um eina evrópska fyrirmynd að aðild starfsmanna fyrir öll evrópsk samvinnufélög. Tilskipunin leggur hins vegar þá skyldu á aðildarríki að tryggja ákveðna málsmeðferð um upplýsingamiðlun og samráð á fjölþjóðlegum grundvelli í öllum tilvikum þegar evrópsk samvinnufélög eru stofnuð frá grunni, ef stærð þeirra gefur tilefni til þess, miðað við fjölda starfa.

Frumvarp þetta tengist lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006, sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní 2006.

Innleiðing tilskipunarinnar frá 2003 kallar á lagabreytingar hér á landi til viðbótar við þær reglur sem þegar hafa verið lögfestar varðandi evrópsk samvinnufélög. Með frumvarpi þessu er lagt til að settar verði meginreglur til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar. Þannig verði réttur starfsmanna evrópskra samvinnufélaga til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi evrópskra samvinnufélaga sem þeir vinna hjá tryggður sem og að gildandi reglur hvorki hverfi né minnki að vægi við stofnun evrópska samvinnufélagsins.

Í frumvarpinu er kveðið á um að þegar ákveðið hefur verið að stofna evrópsk samvinnufélög skuli framkvæmdastjórnir eða stjórnir þeirra lögaðila sem taka þátt í stofnun þess gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hefja samningaviðræður við fulltrúa starfsmanna um tilhögun á aðild starfsmanna í evrópska samvinnufélaginu. Sérstök samninganefnd er í forsvari fyrir starfsmenn þeirra aðila sem taka þátt í þeim viðræðum. Við myndun nefndarinnar skal meðal annars tryggja að nefndarmenn séu kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna hjá lögaðilunum, sem taka þátt, hlutaðeigandi dótturfyrirtækjum og starfsstöðvum í hverju aðildarríki fyrir sig. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fulltrúar sem kjörnir eru á Íslandi til setu í slíkri samninganefnd séu kosnir af trúnaðarmönnum innan fyrirtækja, en starfsmenn sem ekki eiga trúnaðarmann velji sér sameiginlegan fulltrúa sem taki þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina. Séu engir trúnaðarmenn innan fyrirtækis eiga allir starfsmenn fyrirtækis eða starfsstöðvar rétt á að taka þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina.

Í frumvarpinu er kveðið á um að þegar ákveðið hefur verið að stofna evrópsk samvinnufélög skuli framkvæmdastjórnir eða stjórnir þeirra lögaðila sem taka þátt í stofnun þess gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hefja samningaviðræður við fulltrúa starfsmanna um tilhögun á aðild starfsmanna í evrópska samvinnufélaginu. Sérstök samninganefnd er í forsvari fyrir starfsmenn þeirra aðila sem taka þátt í þeim viðræðum. Við myndun nefndarinnar skal meðal annars tryggja að nefndarmenn séu kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna hjá lögaðilunum, sem taka þátt, hlutaðeigandi dótturfyrirtækjum og starfsstöðvum í hverju aðildarríki fyrir sig. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fulltrúar sem kjörnir eru á Íslandi til setu í slíkri samninganefnd séu kosnir af trúnaðarmönnum innan fyrirtækja, en starfsmenn sem ekki eiga trúnaðarmann velji sér sameiginlegan fulltrúa sem taki þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina. Séu engir trúnaðarmenn innan fyrirtækis eiga allir starfsmenn fyrirtækis eða starfsstöðvar rétt á að taka þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina.

Frumvarpið hefur að geyma ákvæði sem er ætlað að tryggja rétt fulltrúa starfsmanna í samninganefndinni til að fá upplýsingar um þau fyrirtæki sem standa að stofnun evrópsks samvinnufélags og áform þeirra er varða starfsemi félagsins. Einnig er kveðið á um rétt sérstöku samninganefndarinnar til að kalla eftir sérfræðiaðstoð og bera þau félög sem taka þátt í stofnun evrópsks samvinnufélags allan kostnað af starfi nefndarinnar. Markmið samningaviðræðna er að ná samkomulagi um aðild starfsmanna að evrópsku samvinnufélagi, þ.e. varðandi rétt fulltrúa starfsmanna til upplýsinga, samráðs og þátttöku.

Verði aðilarnir ásáttir í samningaviðræðum um að koma á tiltekinni tilhögun á þátttöku skal í samkomulagi þeirra einnig kveðið á um inntak þeirrar tilhögunar.

Samningaviðræður geta að hámarki staðið yfir í eitt ár. Aðilar geta ákveðið að slíta viðræðum. Náist ekki að ljúka viðræðum með samningi taka gildi tilteknar reglur um aðild starfsmanna sem eru í III. kafla frumvarpsins.

Ákvæði IV. kafla frumvarpsins fjalla um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum sem eru stofnuð af einstaklingum eingöngu eða af einum lögaðila og einstaklingum. Er þá miðað við að starfsmenn séu færri en 50 eða starfi hjá evrópsku samvinnufélagi í aðeins einu aðildarríki. Í þeim tilvikum skulu innan evrópska samvinnufélagsins sjálfs gilda ákvæði aðildarríkis þar sem evrópska samvinnufélagið hefur skráða skrifstofu. Innan dótturfyrirtækja evrópska samvinnufélagsins og starfsstöðva skulu aftur á móti gilda þau ákvæði þess aðildarríkis þar sem þau eru staðsett. Ef heildarstarfsmannafjöldi evrópskra samvinnufélaga sem stofnuð eru með þessum hætti er a.m.k. 50 manns í a.m.k. tveimur aðildarríkjum getur hins vegar tiltekið hlutfall starfsmanna farið fram á að ákvæði II. og III. kafla frumvarpsins skuli gilda um aðild starfsmanna, eftir því sem við getur átt.

Í V. kafla er fjallað um rétt starfsmanna evrópsks samvinnufélags og/eða fulltrúa þeirra til þátttöku í félagsfundum eða í svæða- eða deildarfundum og til að greiða þar atkvæði. Loks geymir VI. kafli frumvarpsins ýmis ákvæði, svo sem um vernd fulltrúa starfsmanna, þagnarskyldu, meðferð ágreiningsmála, tengsl frumvarpsins við ákvæði annarra laga og heimild ráðherra til að setja nánari ákvæði um efni frumvarpsins í reglugerð.

Ákvæði frumvarpsins gilda eingöngu um evrópsk samvinnufélög og hefur það engin áhrif á rétt starfsmanna annarra fyrirtækja til upplýsinga og samráðs. Í þeim tilvikum þegar starfandi félag umbreytist eða verður hluti af evrópsku samvinnufélagi er meginreglan hins vegar sú að þær sérreglur sem kveðið er á um í frumvarpinu, eða byggjast á samkomulagi aðila, ganga framar ákvæðum annarra laga er varða þátttöku starfsmanna, að því leyti sem annað er ekki tekið fram. Þetta felur meðal annars í sér að þar sem nú eru starfandi evrópsk samstarfsráð innan fyrirtækis, sbr. lög nr. 61/1999, gilda ákvæði þeirra laga almennt ekki um evrópsk samvinnufélög eða dótturfélög þess. Sama máli gildir um reglur einstakra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins um þátttöku starfsmanna.

Að lokum vil ég taka fram að það er eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins að viðhalda þátttökurétti starfsmanna í þeim tilvikum þegar hann var fyrir hendi fyrir stofnun félagsins, þótt í undantekningartilvikum sé heimilt að semja um brottfall hans. Ákvæðin leiða því fyrst og fremst til þess að þátttökurétturinn byggist eftirleiðis á samkomulagi sem fulltrúar starfsmanna og evrópska samvinnufélagsins eða stofnenda þess gera með sér, eða, í þeim tilvikum þegar samningaviðræður leiða ekki til þess að gert sé samkomulag, á ákvæðum III. kafla frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.