133. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2007.

málefni Frjálslynda flokksins.

[12:04]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í upphafsorðum mínum um málefni innflytjenda í ræðunni á landsfundi sagði ég eftirfarandi:

„Frjálslyndi flokkurinn leggur ríka áherslu á að fólki af erlendu bergi brotið sem flyst hingað til lands verði gert kleift að finna sér hlutverk og aðlagast íslensku samfélagi. Tryggja þarf að ekki verði brotið á því fólki og því verði sýnd full virðing og réttindi virt.“

Ég vænti þess að þessi inngangur kaflans marki það sem ég sagði síðar í honum. Varðandi hins vegar það sem hv. þingmaður vék að um berkla vil ég vekja athygli, hæstv. forseti, á fréttabréfi frá farsóttafréttum landlæknisembættisins frá því í desember sl. þar sem sagt er:

„Það er rík ástæða til að fylgjast með berklasmiti meðal innflytjenda til Íslands.“

Þetta er ekki sagt að ástæðulausu. Það er vegna þess að það er mikið nýgengi í berklum í Austur-Evrópu og nú er frjáls för fólks yfir til Evrópu þó að við höfum sett takmörkun á Rúmeníu og Búlgaríu. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu og ég var ekki að benda á neitt annað en að tilefni væri til að fylgjast með þessu. Það var ekki í neinum illum tilgangi gert. Það er einfaldlega nauðsynlegt og ég undrast að það skuli sérstaklega gert að umræðuefni hjá Framsóknarflokknum að maður hafi minnst á það að eðlilegt væri að hér færu fram eðlilegar sóttvarnir og eftirlit með nýgengi sjúkdóma sem eru taldir hættulegir.

Ég veit ekki alveg hvert Framsóknarflokkurinn ætlar að reyna að fara í þessari umræðu. Ég held að hann sé að fara í fjósið og þurfi þá að moka flórinn eftir sjálfan sig ef hann ætlar að halda svona áfram í tómri vitleysu. (Gripið fram í.) Ég held að þú ættir að kynna þér bara hvað læknar eru að segja um þetta mál ef menn halda að þessi eina setning um að fylgjast með berklasmiti hafi verið eitthvað stórhættulegt eða endurspegli andúð í garð útlendinga. Það vill svo til að Íslendingar geta líka smitast af berklum á ferðum erlendis.

(Forseti (RG): Ég minni þingmenn á að ávarpa ekki aðra þingmenn beint.)