133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

alþjóðlegt bann við dauðarefsingum.

533. mál
[12:57]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að ég tel ekki nokkurn ágreining í þessum þingsal um málefnið. Mér er ekki kunnugt um að nokkur þingmaður haldi því fram að dauðarefsingar eigi rétt á sér. Stefna íslenskra stjórnvalda er skýr í þessum efnum. Það lét ég líka koma fram í tengslum við aftökuna á Saddam Hussein. Ég er hrædd um að hv. þm. Mörður Árnason fari ekki með rétt mál þegar hann heldur því fram að ég hafi sagt í tengslum við þann atburð að þessi karl hafi átt þetta skilið. Ég óttast að hv. þingmaður fari með rangt mál. Ég kannast ekki við að hafa látið þessi orð falla.

Ég sagði að þessi aftaka væri lögleg samkvæmt írökskum lögum en engu að síður fordæmdi íslenska ríkisstjórnin þennan atburð. Það er aðalatriðið. Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði áðan, að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, á allan okkar stuðning í þeirri baráttu sem nú er fram undan af hans hálfu og rödd Íslands á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur einungis verið í þá átt að fordæma dauðarefsingar. Þannig mun það verða áfram.