133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:07]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur góða heyrn og hann hefur numið það að innan úr Samfylkingunni — að hans sögn — hafi komið raddir um að opna á skólagjöld. Þá er nú rétt að upplýsa hv. þingmann um það hvernig við teljum hentast að haga þeim málum.

Við erum þeirrar skoðunar að það eigi að vera gjaldfrjáls menntaleið alveg frá fyrstu stigum leikskóla til loka háskólaprófs. Hins vegar teljum við að menn eigi að hafa val. Ef einhverjir vilja verða sér úti um menntun utan hins opinbera háskólakerfis, sem ég var hér að lýsa, og fara í það sem kalla má einkarekna háskóla eins og Bifröst, HR og fleiri háskóla þar sem eru skólagjöld á samfélagið að létta þeim þá leið með því að bjóða upp á námslán fyrir skólagjöldum. Endranær fara menn í slíkt nám til þess að verða sér úti um ríkari ævitekjur.

Til að það geti lukkast verða menn að geta notfært sér námið til þess að hækka tekjur sínar. Það eru ekki allir sem geta gert það, t.d. ekki þeir sem búa við mikla ómegð og eru einstæðir foreldrar eða hugsanlega fatlaðir sem búa við fimm sinnum hærra atvinnuleysisstig en aðrir. Þessum hópum teljum við að eigi ekki að bægja frá því að notfæra sér þennan valkost og þess vegna verði að taka sérstaklega tillit til þeirra með því að veita námsstyrki í þessum tilvikum. Þetta er það sem við höfum sagt.

Í grundvallaratriðum á ríkið sem sagt að bjóða upp á gjaldfría námsleið frá fyrstu stigum leikskóla til lokastigs háskóla. Utan þess ef menn kjósa sjálfir að velja sér annað nám þar sem eru skólagjöld á ríkið að hlaupa undir bagga með námslánum. Það þýðir ekki að við séum að ýta undir skólagjöld, þvert á móti erum við að tryggja eina opinbera leið sem er án skólagjalda.