133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

42. mál
[17:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hér er um að ræða mjög gott mál og mikilvægt af því að brottfall eða ótímabær námslok, eða hvað sem það er kallað í skólakerfinu okkar, er verulegt vandamál. Það er ástæða til, ekki bara að hafa áhyggjur af því, heldur til að grípa til markvissra aðgerða gegn því.

Ég hef nokkrum sinnum flutt tillögu um að efla sérstaklega verk- og listnám og fjölga styttri starfsnámsbrautum í framhaldsskólunum, m.a. til að minnka brottfall, ekki af því að það sé eitthvað léttara nám en bóknámið heldur af því að það mundi ábyggilega verða til þess að fleiri færu í verknám en bóknám og fleiri af þeim sem hætta í bóknáminu án þess að klára það af því þeir hafa ekki áhuga á því eða telja það ekki eiga sérstaklega við sig.

Og ef sama hlutfall námsmanna og ungmenna á Íslandi færi í bóknám annars vegar og verknám hins vegar eins og er á Norðurlöndunum og í flestum Evrópulöndum, þá færu miklu, miklu fleiri hér í einhvers konar verknám og mundu þar af leiðandi líklega klára nám sitt.

En hér kemur fram að hátt í 40% íslenskra ungmenna ljúka ekki námi í framhaldsskóla áður en námslokum er náð, heldur hætta áður en formlegri skólagöngu í framhaldsskólunum er lokið. Það er að sjálfsögðu allt of hátt hlutfall, bæði fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið og hægt að leita margra leiða til að sporna gegn því. Það er ekki nokkur einasta spurning.

Þær leiðir sem eru langfarsælastar að fara strax í upphafi eru náms- og starfsráðgjöf. Við þingmennirnir fimm sem flytjum þetta mál, úr þremur flokkum, Framsóknarflokki, Samfylkingu og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, leggjum til að skipuleg aðstoð innan skólakerfisins sem kemur nemendum til hjálpar og er í höndum kennara-, náms- og starfsráðgjafa, verði stóraukin. Og sérstaklega með tilliti til þess að náms- og starfsráðgjöf er mjög nýleg grein innan skólakerfisins. Hún er í rauninni rétt að skjóta þar rótum, auðvitað mismikið eftir skólastigum en er held ég af mörgum mjög vanmetin grein.

Ég held að það skipti gífurlega miklu máli að auka náms- og starfsráðgjöf verulega í skólunum að því þar er upphafsreiturinn sem námsmaðurinn er staddur á þegar hann velur sér brautina sem hann fer inn á í framhaldsskóla, í 9. eða 10. bekk í grunnskólanum. Það val er gífurlega afdrifaríkt fyrir alla framtíð námsmannsins eins og gefur augaleið.

Nemandi sem eftir góða náms- og starfsráðgjöf sæi að hann hefði t.d. brennandi áhuga á einhverju listnámi og sæi að það væri auðvelt fyrir hann að halda því námi áfram síðar í háskóla þótt hann hefði ekki lokið formlegu stúdentsprófi o.s.frv., hann færi þá strax í nám sem hentaði honum og hann hefði mjög mikinn áhuga á. En fengi hann ekki neina eða litla náms- og starfsráðgjöf, færi á einhverja bóknámsbraut svona „af því bara“ þá hætti hann náminu sennilega fljótlega einfaldlega vegna þess að honum hundleiddist námið, hann hefði engan áhuga á því, sæi engan framtíðartilgang með því, byðist síðan spennandi tilboð um vinnu þar sem hann fengi góð laun og þá er leiðin til baka oft svolítið vandrötuð og margir sem koma aldrei til baka.

Það komu fréttir af brottfalli nemenda í framhaldsskólum í síðustu viku þar sem sérstaklega var tekið til þess að brottfall nemenda í framhaldsskólum t.d. á Suðurnesjum væri mikið. Þar var talað um að yfir 50%, ég held hátt í 60% karlkyns nemenda á aldrinum 16 ára til tvítugs hættu áður en þeir lykju námi.

Það er náttúrlega gríðarlega há tala þegar sex af hverjum tíu í árgangi karlkyns nemenda hættir áður en hann lýkur einhverju formlegu námi í skólanum af því að auðvitað nýtist námið nemandanum ekki nema að litlum hluta ef hann lýkur ekki formlegri gráðu, útskrifast annaðhvort með sveinspróf eða stúdentspróf eða einhver önnur réttindi. Þá fyrst nýtist námið fullkomlega og leiðin til frekari menntunar seinna verður greið.

En í allri umræðunni um hið mikla brottfall hér á landi leggjum við flutningsmenn tillögunnar áherslu á að það verði að gefa gaum að aðferðum í náms- og starfsráðgjöf sem beinast að því að vísa veginn um flókið upplýsingaumhverfi, öllum þeim sem eru núverandi eða væntanlegir þátttakendur í skólakerfi eða atvinnulífi.

Að okkar mati er ljóst að brottfall nemenda og skortur á úrræðum fyrir þann hóp sem hættir námi kostar einstaklingana persónulega, fjárhagslega og félagslega, og hefur að sjálfsögðu í för með sér kostnað fyrir skólakerfið en kannski miklu frekar fyrir einstaklinginn sjálfan seinna meir í lífinu þegar það þrengir að starfsmöguleikum hans seinna á lífsleiðinni að hafa ekki tekjumöguleika og einfaldlega leiðir til að lifa farsælu og góðu lífi, að hafa ekki lokið skóla á sínum tíma. Í raun og veru ætti að vera jafnsjálfsagt að ungmenni séu í skólum til 18–19 ára aldurs eins og það var einu sinni, að klára grunnskólann.

Þannig held ég að þróunin verði. Við höfum lagt mikla áherslu á að auka verulega samfelluna á milli allra skólastiga, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og þannig fjölgi þeim sem ljúka t.d. stúdentsprófi fyrr og yngri en normið var og er enn þá, um tvítugt. Þeim fjölgi verulega af því samfellan og skilin á milli verða miklu minni en er í dag.

Þau skörpu skil sem nú eru á milli skólastiganna eru að mínu mati algjörlega úrelt. Þeim eigum við að kappkosta að eyða. Ég er sannfærður um að það er langbest t.d. að sveitarfélögin í landinu reki framhaldsskólann líka. Einnig að þau reki leikskólann sem við munum ræða á eftir, gjaldfrjálsan leikskóla, grunnskólann og þá framhaldsskólann.

Þannig væri miklu auðveldara að ná fram samfellu á milli skólastiga, eyða skilunum á milli og þar með held ég að það væri unnin áfangi í því að draga úr ótímabærum námslokum eða brottfalli úr skólunum og efla verulega náms- og starfsráðgjöf.

Rétt að lokum í þessu samhengi, af því það tengist þessu beint, þá var í fyrra fjallað töluvert um afdrif lesblindra og skrifblindra barna í skólakerfinu sem er oft ansi nöturleg og grimm. Þau mál rak á fjörur okkar sem eru í menntamálanefnd Alþingis út af framgöngu föður barns með alvarlega lesblindu. Við fjölluðum um málið á nokkrum fundum nefndarinnar.

Það þarf að sjálfsögðu að gæta sérstaklega að þeim nemendum sem eiga við alvarlega námserfiðleika að stríða, með náms- og starfsráðgjöf og utanumhaldi á öllum skólastigunum en sérstaklega í fyrstu bekkjum grunnskóla því lesblinda, dyslexía, er skilgreind af mörgum sem ein tegund fötlunar. Svo alvarlega háir þetta einstaklingum að það þarf að taka miklu þéttar utan um þá nemendur sem eiga erfiðara með nám, t.d. vegna dyslexíu, en einnig af mörgum öðrum ástæðum, t.d. félagslegum.

Ég held að efling náms- og starfsráðgjafar bæði í grunn- og framhaldsskólum mundi skipta gífurlega miklu máli til að draga úr brottfalli til að bæta aðstæður allra nemenda og ekki síst þeirra sem eiga undir högg að sækja í skólakerfinu.