133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[16:36]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Félagar mínir, hv. þm. Jóhann Ársælsson og hv. þm. Mörður Árnason, úr Samfylkingunni hafa gert afstöðu okkar ágæt skil í þessari umræðu og hafa komið inn á meginþætti sem skipta máli í svo mikilvægri umræðu sem við erum að taka hér í dag.

Ég ætla að leyfa mér að segja, virðulegi forseti, að loksins kemur þessi skýrsla, Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, til umræðu á Alþingi. Þetta er góð skýrsla, þ.e. það var gott verk að fenginn var hópur til að vinna að skýrslunni. Að vísu var slæmt að alltaf var talað um hana sem fyrsta áfanga og umræðan um skýrsluna var þannig að það mátti gefa sér að þetta væri svona fyrsta mat og svo ætti eftir að vinna meira með þá kosti sem þar lægju fyrir. Ég var ein þeirra sem héldu alltaf að haldið yrði áfram með þetta verk og það sem mér þótti ábótavant í þeim virkjunarkostum sem þarna voru taldir upp og raðað í flokka var að eftir ætti að koma önnur betri skýrsla um sömu kosti svo við fengjum að sjá að búið væri að vinna ný gögn þannig að ljóst væri að eitthvað, sem hafði verið metið sem hugsanlega góðan virkjunarkost, væri það nú kannski ekki af því búið væri að fara betur í málið.

En staðreyndin er sú, og það er mikilvægt að það komi fram, að þetta er raunveruleg skýrsla, rammaáætlun um þá kosti sem hér eru nefndir. Ætlunin var ekki að fara betur ofan í þetta og skýra það sem ábótavant var. Þetta er rammaáætlun um þessa virkjunarkosti og næsti áfangi, eins og Mörður Árnason, félagi minn nefndi, er um nýja virkjunarkosti, aðra kosti, aðrar ár eða önnur jarðhitasvæði.

Ég ætla líka að leggja áherslu á það, eins og félagar mínir, að ekkert gagn er í svona áætlun ef hún kemur ekki fyrir þingið, Alþingi sjálft og það leggi mat á að búið sé að sortera þarna, búið að skoða og við sammála um að virkjunarkostirnir skuli vera af því vægi sem þar er getið. Það er galli skýrslunnar að hún fékk ekki þetta vægi. Hún fékk ekkert mat á hinu háa Alþingi. Það frumvarp sem við erum að ræða gerir þar með tilvísun í þessa skýrslu þannig að ef niðurstaðan yrði með meirihlutavaldi, eins og oft gerist á Alþingi, eftir nefndarskoðun sú hin sama og frumvarpið gerir ráð fyrir, þá er í rauninni orðin til niðurstaða um virkjunarkosti samkvæmt skýrslunni.

Menn verða að gera sér grein fyrir þessu vegna þess að það er gífurlega stórt mál í þessari umræðu. Ef nefndin ber gæfu til að fara ofan í málið með þeim hætti sem félagar mínir hafa komið með ábendingar um, þá mundi sú niðurstaða sem nefndin kæmist að líka raska niðurstöðu þessarar skýrslu. Þess vegna, virðulegi forseti, erum við núna loksins að ræða þessa rammaáætlun sem löngu hefði átt að að vera búið gera.

Annað vil ég jafnframt nefna. Gífurlegur skortur er á grunngögnum og náttúrufarskortum til að fara í vinnu sem þarf að fara í varðandi náttúru Íslands. Ef við ætlum að taka höndum saman og segja: Ekki fleiri ofurvirkjanir, ekki taka fleiri ár sem kalla á að við fórnum merkilegum vatnsföllum. Tökum höndum saman um hvað við gætum hugsað okkur að gera og hvað við erum ákveðin í að ekki skuli hróflað við, þá vantar, fyrir utan það sem við horfum á og þykjumst þekkja af því við metum það sem náttúrufegurð, náttúrufarskort og grunngögn.

Það er til vansa fyrir framkvæmdarvaldið og Alþingi að seint og illa hefur gengið að skaffa fjármagn til að vinna slík kort. Samfylkingin hefur árlega flutt tillögur á Alþingi um að slíkra gagna sé aflað og flutt þingsályktunartillögu um að afla grunngagna um náttúru Íslands og gerð náttúrufarskorta. Sú tillaga hefur auðvitað ekki fengist samþykkt, jafngóð og hún er, af því að hún kemur frá stjórnarandstöðuflokki. Hún hefur hverju sinni mátt bara dvelja í möppu í nefnd og verið svo flutt aftur.

Hins vegar höfum við tekið þetta mál fyrir í umhverfisnefnd og ég ætla að hrósa umhverfisnefnd fyrir að á síðustu tveimur árum höfum við í fjárlagatillögum umhverfisnefndar gert tillögu um að fjármagn yrði veitt af takmörkuðu ráðstöfunarfé þeirra nefndar í gerð náttúrufarskorta. Þetta er frumkvæði sem hefur komið frá Alþingi sjálfu, frá því fólki í umhverfisnefnd sem hafði skilning á því, þótt hún bæri ekki gæfu til að afgreiða tillögu okkar úr nefnd, að þarna yrði eitthvað að gera. Þetta má líta á sem staðfestingu umhverfisnefndar á því að þess sé þörf sem tillaga okkar hefur verið um. Það er mikilvægt að þetta komi fram við umræðuna, virðulegi forseti.

Svo vil ég líka geta þess, og endurtaka það sem hér hefur komið fram hjá okkur þingmönnum Samfylkingarinnar, að Samfylkingin hefur sett fram stefnumörkun um Fagra Ísland. Hún hefur verið flutt sem þingmál hér, í síðustu viku var rætt um að gera skuli rammaáætlun um náttúruvernd, sem er hliðstæðan við þá skýrslu sem við erum að ræða óbeint, og sem fengi þá staðfestingu Alþingis. Hún er hluti af stefnumörkun um Fagra Ísland þar sem segir líka að fresta skuli virkjunarframkvæmdum meðan þessi rammaáætlun um náttúruvernd er unnin.

Þegar við ákveðum að setja náttúruna í forgang og vinna rammaáætlun um náttúruvernd átta menn sig strax á því að það muni skorta gögn. Að þekkingu skortir til að vinna hana með þeirri sæmd sem við ætlumst til að hún sé unnin.

Tillaga okkar fellur ágætlega að því að í nokkur ár hefur verið of mikil þensla. Það þarf að bregðast við henni. Venjulegt fólk hefur í dag ákveðið að rísa upp og bregðast við. Á undanförnum árum hefur fólk farið í fjárfestingar og trúað boðskap ríkisstjórnar um að óhætt sé að búa til áætlanir, stækka við sig eða fara í nýtt húsnæði. Fólk hefur tekið þau lán sem hafa verið í boði og trúað því að málefni fjölskyldunnar yrðu sett í öndvegi. En nú er verið að hegna því með stanslausri verðbólgu. Lánin hækka hratt. Á dögunum kom til mín maður og sagði: Lánið okkar hjónanna hefur hækkað um eina og hálfa milljón frá því í fyrra. Við tökum því ekki þegjandi lengur. Við sættum okkur ekki við þessa stjórnsýslu lengur. Við sættum okkur ekki við þetta.

Ef stjórnarliðið er undrandi á að ríkisstjórnin sé fallin í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun þá ætti það að staldra við og sjá fólkið sem hefur offjárfest og verður fyrir barðinu á þenslunni, eða réttara sagt: Sú fjárfesting sem var skynsamleg miðað við tekjur fjölskyldunnar á sínum tíma er offjárfesting vegna þenslunnar sem ríkisstjórnin tekur ekki á. Tillaga okkar um frestun virkjunarframkvæmda og það að setja náttúruna í forgang fellur vel að því ástandi sem ríkisstjórnin hefur búið til. Hún fellur líka að tillögu okkar um „Nýja atvinnulífið“, tillögu um nýja atvinnustefnu og átak varðandi sprota- og tæknigeirann í þessu landi.

Við í Samfylkingunni höfum horft á þessi mál heildrænt hvað atvinnulífið varðar. Við þorum að treysta á mannauðinn í þessu landi, staldra við með virkjunarframkvæmdir og setja náttúruna í öndvegi. Það má segja að þetta haldist í hendur í tillögum okkar.

Ég ætla að leyfa mér að skoða fyrst og fremst ákvæði til bráðabirgða III. Ég tek fram í leiðinni, af því ég ætla að einbeita mér að umræðunni um bráðabirgðaákvæðið, varðandi ákvæði sem liggja fyrir í frumvörpum hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra, að pólitíska málið er frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra. Þess vegna förum við fyrst og fremst í umræðu um það hér í dag en það reynist vera umhverfismál af því það snertir svo sterkt umhverfið og þingmál umhverfisráðherra.

Hv. þm. Mörður Árnason vitnaði áðan í orð fyrrverandi umhverfisráðherra, hv. þm. Sigríðar Önnur Þórðardóttur, þegar hún sagði brýnt að ljúka vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hún sagði jafnframt að stórefla þyrfti rannsóknir á náttúru landsins og allar ákvarðanir um virkjanir þyrftu að byggja á bestu fáanlegu þekkingu og upplýstri umræðu. Ekkert liggur á, sagði Sigríður Anna í utandagskrárumræðunni í gær. Orkuverð á áfram eftir að hækka. Inntak ræðu hennar var að ekkert mundi hlaupa frá okkur. Það er þetta sem við höfum líka sagt. Það verður að ljúka vinnunni við rammaáætlunina vegna þess að gagnagerðinni þar er ábótavant. Einkunnagjöfin um gagnaöflun segir okkur hverju er ábótavant og hvar nægileg gögn liggja fyrir. Það þarf að stórefla rannsóknir og ákvarðanir um virkjanir þurfa að byggja á bestu fáanlegri þekkingu og upplýstri umræðu.

Ég hlýt að nefna það að upplýst umræða og besta fáanlega þekking var ekki til staðar varðandi Kárahnjúkavirkjun. Hv. þm. Jóhann Ársælsson fór yfir það áðan varðandi virkjunarkostina og gögnin sem lágu fyrir í rammaáætlun og út frá því hefðum við ekki farið í Kárahnjúkavirkjunina. Gögnunum var mjög ábótavant. Mér finnst líka gott að heyra þingmann úr stjórnarliðinu tala um upplýsta umræðu. Frá því að vinna að virkjun við Kárahnjúka hófst hefur komið í ljós að ekki höfðu komið fram nægilega skýrar upplýsingar í umræðunni fyrir fram. Umræðan fór fram eftir á, hin upplýsta umræða varð til síðar.

Ég hafði hugsað mér, virðulegi forseti, að fjalla um gæði gagna í skýrslunni, í rammaáætlun um virkjunarkosti. En hv. þm. Mörður Árnason tók það ómak af mér. Ég ætla bara að nefna tvennt í því sambandi. Mér virðist sem búið sé að sækja um rannsóknarleyfi á sex stöðum sem nefndir eru í viðauka við rammaáætlun, þ.e. eftir því sem ég sé af skýrslunni. Leyfin gætu verið fleiri vegna þess að iðnaðarráðuneytið er ekki að upplýsa okkur á Alþingi um það hverju sinni sem þeim berst erindi eða bréf með ósk um rannsóknarleyfi.

Ég bið hæstv. iðnaðarráðherra að upplýsa okkur um hverjir og hve margir hafi sótt um rannsóknarleyfi og hve mörg hafi verið veitt. Ég tel að búið sé að veita rannsóknarleyfi, sé bara litið á virkjunarkostina sem gefnir eru upp í töflum undir flokknum umhverfisáhrif, í Trölladyngju við Krýsuvík. Þessi virkjunarkostur er t.d. bara með B í flokknum varðandi gagnaöflun. Mér virðist líka búið að veita rannsóknarleyfi í Sandfelli við Krýsuvík. Þar eru gæði gagna ekki hærri en C. Það ætti náttúrlega ekki að fara inn á svæði eins og Krýsuvíkursvæðið með gögn í C-flokki á bak við sig.

T.d. varðandi Ölkelduháls sem hér hefur verið nefndur þá er gagnaöflun þar í gæðaflokki B og D. Það er athyglisvert að Ölkelduháls fær einkunnina D hvað varðar gæði gagna varðandi útivist. Nú er litið svo á að þetta svæði sé mjög verðmætt útivistarsvæði. Það fær einkunnina D hvað varðar gæði gagna um útivist á jafnmikilvægu svæði.

Þetta verður að skoða vandlega í þessum fyrsta áfanga af rammaáætlun um virkjunarkosti. Alls staðar þar sem gæði gagna eru undir hefði átt að halda áfram að vinna að gagnagerð. Þegar tekin væri ákvörðun lægi algerlega fyrir hver gæði gagnanna væru. Mér er sagt að það kosti um 120 millj. kr. eða sem nemur verði einnar tilraunaborholu að klára að rannsaka verndargildi háhitasvæðanna. Að það sé um það bil verðmæti einnar tilraunaborholu að klára að rannsaka verndargildi háhitasvæðanna.

Það er líka athyglisvert, og það er umhugsunarefni, og þá ætla ég að taka það fram að fáa menn þekki ég vandaðri að virðingu sinni og vinnubrögðum en Þorkel Helgason, forstjóra Orkustofnunar. Það er Orkustofnun sem veitir fé til að kanna verndargildi. En það eru bara sjaldan peningar til þeirra verka.

Þess vegna er það umhugsunarefni að sá sem á að sjá um orkuöflun, vera vakandi yfir öllum orkukostum og möguleikum til orkuvinnslu, til að skaffa orku til þeirra verka sem ríkisstjórnin biður um, á ekki að vera sá aðili sem veitir fé til að leita að verndargildinu. Það á að vera í höndum annarra. Mér finnst að sá kostur ætti að vera hjá umhverfisráðuneytinu. Þetta höfum við t.d. aldrei rætt hér svo ég muni. Hef ég þó bæði tekið þátt í og hlustað á umræður af þessum toga á Alþingi. Þetta ætti ekki að eiga sér stað. Ég veit ekki hverju ég á að líkja þessu við, en hagsmunaaðili á að veita fé til að kanna hvort það er eitthvað sem brýtur gegn hagsmunum sem hann á að varðveita. Þetta verðum við að skoða. Þetta þarf að skoða ef menn vilja vinna vel.

Félagar mínir hafa sagt: Það verður ekki sátt um að halda áfram og fara í verkefni eða virkjanir á öllum þeim stöðum sem eru merktir A og þeim sem ekki eru athugasemdir við í kosti B. En ég vil gjarnan heyra hæstv. iðnaðarráðherra segja. Hvernig er litið á kosti merkta B sem eru með athugasemd? Sums staðar í skýrslunni er talað um ábendingu vegna náttúrufegurðar, t.d. varðandi Skaftárveitu. Þar er Langisjór. Þar er ábending um mikla náttúrufegurð. En ég geri mér ekki grein fyrir því hvort ráðuneytið mundi líta á það sem athugasemd við virkjanakost. Mig vantar upplýsingar um það.

Þetta eru þau meginatriði sem ég vildi nefna til viðbótar því sem félagar mínir hafa komið inn á í þessari umræðu. Ég ætla ekki að lengja hana með því að endurtaka neitt af því. Hins vegar vil ég enda á því að nefna hve fádæma góð tillaga Samfylkingarinnar er um rammaáætlun um náttúruvernd. Samkvæmt henni yrði umhverfisráðherra falin gerð rammaáætlunar um náttúruvernd sem nái til landsins alls. Markmið áætlunarinnar verði að skapa samstöðu og sátt um náttúruvernd á Íslandi.

Í áætluninni komi fram tillögur um skipulag verndarsvæða og áætlun um virka verndun þeirra með lögum þar sem það á við og nýtingu sem samræmist náttúruvernd. Áætlunin verði lögð til grundvallar við aðalskipulag og hugsanlegt landskipulag. Umhverfisráðherra leggi tillögur til þingsályktunar um rammaáætlun um náttúruvernd fyrir Alþingi eigi síðar en veturinn 2009–2010.

Við höfum hugsað okkur að fram að því verði öðrum virkjunarframkvæmdum slegið á frest til að tryggja að náttúran verði í öndvegi við þær ákvarðanir sem verða teknar. Ég vil enda á þeim orðum, á örstuttri umfjöllun um tillögu Samfylkingarinnar í þessum efnum.