133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:27]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var greinilega ekki hér fyrr í dag þegar við áttum orðaskipti einmitt um þá vinnu sem fram fór í kjölfarið á því að nefndin skilaði skýrslu sinni. Þegar þessi nefnd var skipuð var nefnilega ekki tryggt að nokkur fulltrúi umhverfisráðuneytisins eða undirstofnana þess kæmi að þeirri vinnu. Nefndinni var falið að vinna að nýtingaráætlun. Hún ákvað síðan að það væri ekki hægt nema jafnframt væri unnin verndaráætlun. Það var gert án þess að nokkur fulltrúi ráðuneytisins kæmi að þeirri vinnu.

Mér finnst það skjóta afskaplega skökku við að þingmaður sem telur sig málsvara náttúruverndar og umhverfismála, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerir, gagnrýni að það sé ekki tryggt að náttúruverndarhluti þessarar vinnu sé á forræði umhverfisráðuneytisins. Það var leitast við að tryggja það og það var ekki gert á vettvangi ríkisstjórnarinnar heldur var það krafa og ósk frá umhverfisráðuneytinu að forræði umhverfisráðuneytisins á náttúruvernd og náttúruverndaráætlun væri ekki frá því tekin, sem (Forseti hringir.) ég hefði haldið að hv. þingmaður fagnaði og styddi.