133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

starf trúfélaga í grunnskólum og framhaldsskólum.

314. mál
[13:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka menntamálaráðherra fyrir svörin og tek fram að hún hefði kannski getað leitað til mín um að haga þeim með öðrum hætti hefði hún viljað í staðinn fyrir að skamma forseta úr þessum stóli. Ég geri mér grein fyrir að það getur verið snúið að svara þessu en ég vildi hins vegar að það yrði gert rækilega og þakka fyrir þau svör sem þegar hafa komið fram.

Ég tel að menntamálaráðherra geti ekki með þessum hætti vísað frá sér ábyrgð á því sem gerist í grunnskólunum. Þeir eru reknir á opinberum vegum þótt sveitarfélögin hafi yfir þeim forræði og menntamálaráðherra ber fulla ábyrgð á starfsramma þeirra.

Þess vegna er það menntamálaráðherra að svara spurningum sem ég hef borið fram og birst hafa í umræðu undanfarið um jafnræði í skólum, um hvernig á að haga trúboði, kristinfræðslu eða fræðslu um önnur trúarbrögð í grunnskólum á opinberum vegum á tímum fjölmenningar og á þeim tímum að þjóðkirkjan hefur aðra stöðu í samfélaginu en áður var.

Menntamálaráðherra getur ekki kastað því yfir á sveitarfélögin að það sé alveg sama við hvaða samtök eða stofnanir þau hafi samstarf vegna þess að menntamálaráðherra er fulltrúi nemendanna og foreldra nemendanna gagnvart þessum sömu sveitarfélögum og rekstri þeirra. Það er hlutverk menntamálaráðherra.

Ég tel að þetta mál þurfi að skoða betur og ég vil spyrja menntamálaráðherra hvort hún ætli sér það, hvort eitthvert starf sé í gangi í menntamálaráðuneytinu í því efni. Ef ekki, þá hyggst ég taka það upp í menntamálanefnd og auðvitað án nokkurs æsings, en á grundvelli mannréttinda og vandlegrar íhugunar um það sem fram fer í skólum landsins sem eru einnig (Forseti hringir.) kjarnlægir í hinu borgaralega samfélagi okkar tíma.