133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

farþegaflug milli Vestmannaeyja og lands.

245. mál
[15:06]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þingmenn verði að gæta hófs í kröfum sínum um ríkisstyrki. Það er af mörgu að taka og mörg er matarholan sem menn vilja komast í í þeim efnum.

Staðreyndin er hins vegar sú að á Bakkaflugvelli var byggð upp mjög góð aðstaða. Hún var fyrst og fremst byggð upp til þess að þar væri hægt að sinna leiguflugi, fyrirvaralausum flugferðum eins og hefur verið gert í gegnum tíðina með miklum ágætum.

Við stóðum hins vegar frammi fyrir því að flugfélagið sem flaug á milli höfuðborgarinnar og Vestmannaeyja hætti að fljúga vegna þess að þeir töldu að ekki væru viðskiptalegar forsendur fyrir slíku flugi.

Á svipuðum tíma, eða skömmu áður, var boðinn út reksturinn á Herjólfi þar sem ferðum var fjölgað mjög mikið. Samkeppni er sem sagt á milli Herjólfssiglinganna og flugsins.

Nú stöndum við frammi fyrir því þegar við höfum tekið ákvörðun um að styrkja flugið á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og bjóða það út, að þá koma athugasemdir frá skipafélaginu sem gerir út Herjólf. Þeir gera kröfur á þeim nótum að þar sé um óeðlilegan stuðning að ræða. Ég tel því að ef farið yrði að styrkja einnig flug á milli Bakka og Eyja, séu þessar samgöngur í nokkru uppnámi.

Ég tel að við þurfum að vanda þarna valið og taka ákvarðanir um skynsamlegustu kostina og ég tel að (Forseti hringir.) skynsamlegustu kostirnir í ríkisstuðningi séu siglingarnar með Herjólfi og flug til höfuðborgarinnar.