133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

Grímseyjarferja.

539. mál
[15:51]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Hvenær er áætlað að nýja Grímseyjarferjan verði tilbúin til notkunar og hvenær átti hún að vera tilbúin samkvæmt útboði?“

Samkvæmt endurskoðaðri verkáætlun verktaka, dagsettri 13. janúar sl., eru verklok nú áætluð 25. maí 2007. Samkvæmt upphaflegum samningi eftir útboð voru verklok áætluð 31. október 2006, þannig að ljóst er að mikil seinkun hefur orðið hjá skipasmíðastöðinni eða verktakanum. Það á sér margvíslegar skýringar sem ég hef ekki tök á að svara hér.

Í annan stað er spurt:

„Hvert var kaupverð ferjunnar?“

Ferjan var keypt í lok nóvember 2005 og eins og fram kom hjá hv. þingmanni var verð hennar um 102 millj. kr. á þáverandi gengi.

Í þriðja lagi:

„Hver var samningsupphæð vegna viðgerða samkvæmt útboði?“

Upphaflegt samningsverð eftir útboð til verktaka, sem annast endurbætur á ferjunni, var um 117 millj. kr. miðað við núverandi gengi. Auk þess var keyptur losunar- og lestunarbúnaður frá Noregi að upphæð um það bil 54 millj. kr. Samningsverð eftir útboð er því um það bil 171 millj. kr.

Í fjórða lagi:

„Hver verður heildarkostnaður ferjunnar að lokinni allri viðgerð?“

Áætlaður heildarkostnaður ferjunnar að loknum endurbótum er um 350 millj. kr., þ.e. kaupverð 102 millj. kr., endurbætur 238 millj. kr. auk kostnaðar við eftirlit.

Mismunur á upphaflegum kostnaði, alls 273 millj. kr., og endanlegum kostnaði, 350 millj. kr., skýrist fyrst og fremst af óskum Grímseyinga um breytingar á skipinu samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni sem hefur séð um þetta mál. En skipaverkfræðingur og eftirlitsaðilar hafa sinnt eftirliti og veitt ráðgjöf.

Ég held að ekki sé skynsamlegt að fullyrða mikið um verð á nýsmíði. Ég hef alla vega ekki upplýsingar um þann samanburð sem hv. þingmaður er með í höndunum. Ég vænti þess að mér berist liðsstyrkur frá hv. þingmönnum Norðausturkjördæmis við að koma þessari ferju í höfn. Það hefur satt að segja ekki borið mikið á áhuga þeirra á þessu máli.