133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:53]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Á milli banka og neytenda er sérstakt trúnaðarsamband og sá trúnaður er eiginlega hvað mestur á Íslandi. Aðeins 1,7% íslenskra neytenda yfirgefa bankann sinn á ári. Þessi trúnaður minnir dálítið á hjónaband, endist kannski dálítið lengur.

Þetta er mjög hindrandi á samkeppni á milli bankanna, mjög, og spurning hvernig tekst að yfirvinna það. Þetta leiðir líka til þess að markaðssetning bankanna beinist að ungmennum vegna þess að þeir vita það að ef þeir ná sálinni ungri halda þeir henni mjög líklega alla ævi, sem verður til þess að þeir hella yfir ungdóminn skuldsetningum, sem ég tel vera ósiðlegt. Mér finnst yfirleitt að yfirdráttarlán og yfirdráttur til einstaklinga sé ósiðlegur vegna þess að yfirdráttur er í eðli sínu gjaldfallinn á hverju einasta augnabliki og er aðallega ætlaður fyrirtækjum en af einhverjum ástæðum hafa íslenskir bankar farið inn á þessa braut gagnvart einstaklingum.

Hér hefur töluvert mikið verið talað um hagnað. Ég gleðst yfir þessum hagnaði. Hann kemur aðallega erlendis frá og hann er aðallega vegna stórviðskipta í útrásinni. Við eigum að gleðjast yfir því að bankarnir séu að skutla miklum peningum til Íslands. Við þurfum jafnframt að gæta þess að búa þeim þannig umhverfi að þeir fari ekki til útlanda því að þeir eru allir orðnir alþjóðlegir, þeir eru ekki lengur íslenskir og menn þurfa að gera sér grein fyrir því. Það er hlutverk Alþingis að standa vörð um það að þessi alþjóðlegu fyrirtæki hafi höfuðstöðvar á Íslandi og búa þeim þannig umhverfi.