133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég á ekki von á öðru en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon verði mikill stuðningsmaður minn þegar við förum í einkaframkvæmdina Vaðlaheiðargöng og mun þá birtast klofningurinn sem ég vakti athygli á innan Vinstri grænna. Jón Bjarnason talar algerlega gegn öllu sem heitir einkaframkvæmd og hefði væntanlega ekki greitt atkvæði með frumvarpinu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann var samgönguráðherra og flutti það lagafrumvarp um Hvalfjarðargöng. En hvað um það, við skulum ekki gera það að aðalatriði málsins.

Samráð um samgönguáætlanir fer að mínu mati fram allt heila kjörtímabilið. Hér eru fluttar þingsályktunartillögur og fyrirspurnir, skriflegar og munnlegar og óundirbúnar o.s.frv., um samgöngumál þannig að ég finn það mjög vel hverjar áherslur eru hjá þingmönnum í samgöngumálum eftir samráð og umræður í þingsal. Þannig að við komum að þessu með ýmsum hætti.

Ég hef að sjálfsögðu lagt mikið upp úr því að vinna vandlega að þessu og hvorki 2003 né 2005 og í raun og veru ekki heldur núna eru miklar efnislegar gagnrýnisraddir uppi um samgönguáætlunina. Fyrst og fremst er rætt um að við séum að láta of lítið fjármagn í þetta og að framkvæmdir séu ekki nógu snemma á áætlunartímabilinu, en um raunverulegu áherslurnar, hvort við eigum að fara í jarðgöng eða hvort við eigum að byggja upp vegina á einum eða öðrum stað, er ekki mikill ágreiningur. Ég heyri það ekki. Ágreiningurinn er, eins og ég sagði, um það að við látum of litla fjármuni í þessi mál.