133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get vel gert ágreining við þann þátt þessa máls, sem ég reyndar gerði í ræðu minni, að ég óttast að við séum ósköp einfaldlega að skammta of naumt til almennra vegagerðarverkefna. Mér finnst sá þáttur pínulítið eins og að verða útundan. Það er eins og menn gleymi því hve gríðarlega mikið er enn eftir í hinni almennu vegagerð, klára hringveginn, endurbyggja lélegustu kaflana á honum sem ekki þola núverandi þungaflutninga, sem auðvitað á að fara með út á sjó eins og kostur er, og svo að fara í þá malarvegi alla saman, tengivegi og kafla, sem sáralítið miðar með.

Varðandi einkafjármögnun, einkaframkvæmd þá er enginn ágreiningur um þau efni í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við lokum ekki á það að skoða hluti sem eru hliðstæðir við Hvalfjarðargöng. Hvalfjarðargöng eru ekki einkaframkvæmd. Þau eru í raun einkafjármögnuð framkvæmd sem verður hluti af almenna vegakerfinu um leið og hún er búin að borga sig upp. Það var algert skilyrði af minni hálfu og það gerði ég áhugamönnunum strax ljóst að þeir þyrftu ekki að eyða tíma sínum í marga fundi með mér ef annað ætti að vera upp á teningnum. Það var hins vegar pólitískt þannig statt og það var efnislega líka þannig statt — þessi mikla stytting var ekki í vegáætlun og áhugasamir aðilar vildu drífa hana áfram. Menn sáu möguleikana á því að umferðin sjálf gæti borgað framkvæmdina upp. Því var einboðið að skoða það með alveg sama hætti og einboðið er að skoða Vaðlaheiðargöng með þeim kostum að umferðin borgi þann hluta kostnaðarins sem hún ræður við, leiðin styttist mikið og menn sleppa við erfiðan fjallveg, og framkvæmdin gangi síðan inn í hið almenna vegakerfi um leið og hún er búin að borga sig upp, þá verður það hliðstæða við Hvalfjarðargöngin sem ég á ekki í neinum vandræðum með að styðja. Það á ekkert skylt við hugmyndir um einkaframkvæmdir í almennri vegagerð með skuggagjöldum eða öðru slíku. Það er allt annar hlutur, það veit ég að hæstv. samgönguráðherra hlýtur að skilja.