133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hv. þingmaður er vel að sér um garðyrkju en hann má nú ekki tala eins og það sé eingöngu grænmeti með nokkurra daga geymsluþoli sem flutt er um landið. Ætli það sé endilega nauðsynlegt að flytja áburð, sement, steypustyrktarjárn, þungar vinnuvélar, gáma eða annað slíkt eftir vegum? Ætli reglubundnar strandsiglingar, kannski með tveimur viðkomum í viku, væru ekki fínar samgöngur með ströndinni, ég tala nú ekki um ef gjaldskráin væri hagstæð? (Gripið fram í.)

Veit hv. þingmaður hvers konar okur er orðið á flutningum á afskekktustu svæði landsins? Ég er ekki viss um að hv. þingmaður finni mikið fyrir því í Árborg. (KÓ: Eigum við að taka upp Ríkisskip?) Ég skal ræða það við hv. þingmann við betra tækifæri. Ég er ekki endilega viss um að það þurfi að endurreisa Ríkisskip þó að ég haldi að það hafi verið afdrifarík mistök að slá þau af, a.m.k. tíu, fimmtán árum of snemma. Ég er ekki viss um að Halldór Blöndal fengi verðlaun í dag fyrir það afrek, eins og hann gerði á sínum tíma, þegar Heimdallur veitti honum frjálshyggjuverðalaunin fyrir að leggja niður Ríkisskip.

Nei, það má bjóða þessa þjónustu út. Það þyrfti ekki mikla meðgjöf. Það er alveg ljóst. Einkaaðilar hafa verið að skoða þetta og munar hársbreidd að þeir færu af stað ef þeir fengju vilyrði fyrir flutningum. Það er ekki stórt vandamál. Það verður eitt af því fyrsta sem ný ríkisstjórn gerir. Hér skal það loforð gefið og ég skal hundur heita ef ég stend ekki við það, verði ég í aðstöðu til þess, að eitt af því fyrsta sem ný ríkisstjórn gerir verður að undirbúa útboð á strandsiglingum.

Varðandi fjármögnun þessara hluta skulum við bara tala um þetta eins og þetta er, hv. þingmaður. Það hefur ekkert upp á sig að segja að menn séu að fara í hringi. Ég er að reyna að benda á að umferðin og/eða skattgreiðendur borga þessar framkvæmdir fyrr eða síðar með einum eða öðrum hætti, eins og Bessastaðabóndinn mundi segja. Lántaka er þá bara aðferð til að fresta því um sinn að umferðin og/eða skattgreiðendur borgi. Við skulum bara skoða stöðuna eins og hún er á hverjum tíma í þessu ljósi og þá er ekki um neitt að rífast.