133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:48]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ef karlpeningurinn í þingsalnum gæti kannski gefið hljóð þá væri …

(Forseti (ÞBack): Ég ætla að biðja þingmenn um að halda hliðarfundi í hliðarsölum en ekki inni í þingsal.)

Þá væri kannski hægt að hefja ræðuna, frú forseti, þakka þér fyrir.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þau efnisatriði að bæta sem félagar mínir í Samfylkingunni hafa gert að umtalsefni við þessa umræðu um langtímasamgönguáætlun til 2018. Ég tek skýrt fram að ég tek undir margt af því sem þau hafa sagt en vildi þó brydda eilítið öðrum fleti á þessari umræðu en verið hefur í umræðunni framan af degi a.m.k. Það er græna hliðin, frú forseti. Hún hefur sannarlega ekki snúið upp í þessari umræðu.

Það vill þannig til að síðustu 100 síðurnar í þingskjalinu sem hér er til umræðu, þingsályktunartillögunni um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018, eru kannski það efnismesta og markverðasta sem í henni stendur. Það er umfjöllunin um umhverfismat áætlunarinnar. Vissulega er mjög gleðilegt að það skuli hafa farið fram og að sjálfsögðu er það nokkuð sem ætti að gera. En eins og með flest önnur mannanna verk er ekki sama hvernig það er gert, hvaða spurninga er spurt, hvernig þeim er svarað, hvernig þeim er fylgt eftir og hvernig þau tengjast síðan öðrum áætlunum, hvort sem þær heita náttúruverndaráætlun eða eru aðrar áætlanir á vegum stjórnvalda.

Áður en ég kem að því langar mig samt að nefna nokkur atriði í skjalinu sem hafa vakið áhuga minn og inna hæstv. ráðherra nánar eftir þeim. Eins og gert hefur verið að umræðuefni er á fyrsta tímabili áætlunarinnar gert ráð fyrir því að þrír milljarðar, ef ég les þetta rétt, verði settir í nýja samgöngumiðstöð í Reykjavík. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga að reist verði ný samgöngumiðstöð í Reykjavík en mig langar að vita hvers konar þarfagreining liggur að baki eða hvort hún hafi verið gerð fyrir þessa samgöngumiðstöð. Er málið komið svo langt, af því að ráðast á í þetta, að útboðsgögn séu tilbúin eða annað slíkt? Það skiptir auðvitað mjög miklu máli hvernig þetta mikla mannvirki lítur út, hvar það verður nákvæmlega staðsett og hvernig það tengist öðrum mannvirkjum, ekki síst vegakerfi á höfuðborgarsvæðinu.

Ég spyr að þessu, frú forseti, vegna þess að á sama svæði á bráðlega að hefjast uppbygging Háskólans í Reykjavík, þ.e. við Öskjuhlíðina. Á sama svæði verður væntanlega gangamunni Öskjuhlíðarganganna þótt þau séu ekki á langtímaáætlun, eins og gert hefur verið að umræðuefni fyrr í dag nema að því leyti að hefja má undirbúning þeirra fyrir lok tímabilsins. Það er eftir tólf ár. Hefur það verið skoðað heildrænt eða almennt séð hvernig þetta allt á að spila saman og passa í Öskjuhlíðinni? Það skiptir miklu máli af því að það er ekki nóg að setja niður samgöngumiðstöð fyrir allar tegundir samgangna, líka almenningsvagna og rútur og þar fram eftir götunum, ef tengingarnar við hana í borginni eru ekki úthugsaðar. Ég vil mjög gjarnan fá svör við því hvernig þetta á að vera. Ég verð líka að segja að í ljósi þess að í þessari áætlun er í raun lögð mjög lítil áhersla á eflingu almenningssamgangna er spurning hvort ekki mætti taka eitthvað af þessum miklu fjármunum til að efla almenningssamgöngur, sem eiga þó að hafa miðstöð í samgöngumiðstöðinni. Það er til lítils að reisa þriggja milljarða samgöngumiðstöð ef almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu heyra sögunni til eftir tólf ár. Það þarf væntanlega að skoða allt málið í þessu samhengi, frú forseti.

Ég vil gjarnan fá að ræða annað efnisatriði í þessu samhengi, þ.e. það varðar stígagerðina. Á öllum þremur tímabilum þessarar langtímaáætlunar er gert ráð fyrir að 840 millj. kr. fari til uppbyggingar reiðvega og lagningar þeirra. Eins og við sem sitjum í hv. samgöngunefnd vitum er inni í frumvarpi til vegalaga, sem er nú til umfjöllunar, ákvæði um að veita heimild til að finna út hvernig best sé að fjármagna lagningu hjólreiðastíga og göngustíga. Mér finnst löngu tímabært, frú forseti, að göngustígunum og hjólreiðastígunum sé gert jafnhátt undir höfði ef ekki hærra undir höfði en reiðvegum. Það þarf að hugsa það mál algjörlega upp á nýtt. Það kemur fram, m.a. í athugasemdum við umhverfismatsáætlunina, að það sem fólk hefur talað um í góðri trú, að leggja eigi hjólareiðastíga og göngustíga meðfram stofnvegum, er ekki endilega æskilegast. Þar er líka mjög mikil mengun. Það er kannski ekki mikil heilsubót í því að hjóla eða ganga meðfram stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu.

Það kemur m.a. fram í athugasemdum frá samtökum hjólreiðamanna að í raun þyrfti að hugsa málið upp á nýtt, sem á að gerast í langtímaáætlun, og fá nýja nálgun á hvernig við getum leyst það mál, hjólreiða- og göngustígakerfið, t.d. á suðvesturhorninu, þannig að það geti orðið valkostur, ferðamáti sem er raunverulegur valkostur fyrir fólkið sem hér býr. Ég hygg að ef slíkt kerfi væri gott mundu fleiri íbúar á höfuðborgarsvæðinu nýta sér það til ferða til og frá vinnu eða almennt til að komast á milli staða. Það þarf að skapa þau skilyrði að það sé hægt.

Mér finnst furðu sæta að ekki skuli í þessari áætlun gert ráð fyrir því að setja umtalsverða fjármuni í stígana, göngustíga og hjólreiðastíga. En frú forseti, þeir stígar eiga ekki endilega að liggja saman af því að við vitum það að þeir sem nota hjólreiðastígana og göngustígana eiga ekki alltaf samleið. En það er önnur umræða sem ég ætla ekki að fara út.

Eins og fram hefur komið í umræðunni og tekið er fram í þingsályktunartillögunni hefur umferð hér á landi aukist um hvorki meira né minna en 70% á árabilinu 1988–2004, það eru 16 ár, 70% vöxtur umferðar. Þetta er náttúrlega gríðarleg aukning og í raun meiri aukning en mann gat grunað að hafi orðið þótt maður vissi að hér væri einkabílaeign með því hæsta í heimi. Þegar við lítum til þess hvernig staðið hefur verið að uppbyggingu og viðhaldi vega, stofnvega og þjóðvega, er það ekki bara ljóst að það hefur setið á hakanum heldur hefur hin mikla umferð gert það að verkum að í raun hefði átt að sinna viðhaldinu mun betur en gert hefur verið. Við erum langt á eftir í því. Eins og menn hafa sagt í umræðunni í dag þá er vegakerfið í heild nokkrum áratugum á eftir í þróuninni. Það sinnir ekki þeim þörfum sem sinna þarf.

Mig langar einnig, frú forseti, að ræða um umhverfisþátt þessarar áætlunar. Hér er þriðja meginmarkmið áætlunarinnar, ef ég man það rétt. Það snýr að umhverfisþættinum og sagt að sjá eigi til þess að samgöngur séu í takti við sjálfbæra nýtingu umhverfisins, ef ég man þetta rétt. En í áætluninni sem slíkri, sem á að gilda til ársins 2018, í tólf ár, eru hvorki tímasett né tölusett markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landinu. Ég fæ ekki séð, eftir að hafa lesið flestar blaðsíður í þessari áætlun, að nokkurs staðar séu sett fram tímasett markmið og tölusett um hvernig stjórnvöld ætli að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Í raun endurspeglar þetta, frú forseti, afstöðu stjórnvalda almennt til þessa vandamáls, til hinnar miklu losunar gróðurhúsalofttegunda sem síðan leiðir til hlýnunar jarðar. Menn líta bara almennt svo á að ekkert þurfi að gera á Íslandi við að draga úr neinni losun.

Í tillögunni á bls. 159, með leyfi forseta, kemur fram að hlutdeild samgangna í heildarlosun koldíoxíðsígilda verði á þessu ári 39,8% en hlutdeild samgangna verði árið 2018 40,5%. Þetta er sama hlutfall, það verður engin minnkun. Það á ekki að gera neitt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Allar aðrar samgöngur, a.m.k. hér á Vesturlöndum og í Evrópusambandinu, setja sér mjög metnaðarfull markmið um hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Ég veit að Íslendingar standa að mörgu leyti vel í þessum samanburði en hvað varðar bara samgöngur, fiskiflotann og bílaflotann, þá stöndum við ekki vel.

Það er ekki nóg að beina sjónum að marki sem er langt inni í langri framtíðinni. Enginn veit hvort við náum því markmiði að hægt verði að setja samgönguflotann á vetni. Það veit enginn hvernig það mun nýtast, hvort eða hvenær það verður. Upp mun renna árið 2018 ef þessi ríkisstjórn heldur velli, sem ég held að hún geri reyndar ekki. En ekkert hefur verið að gert í þessum málum. Þetta er umhugsunarefni ekki síst í því ljósi að þessi áætlun er náttúrlega víðtæk og tekur til allra þátta samgangna. Það er eiginlega með ólíkindum að ekki skuli sett inn í hana slíkt umhverfisverndarmarkmið.

Kannski er skýringin þessi: Þegar unnið var að umhverfismati á áætluninni, og þetta kemur hér fram í seinni hluta þingsályktunartillögunnar, þá var það ekki gert í samvinnu við Umhverfisstofnun. Ég fæ ekki alveg séð hvernig ráðuneytið vinnur að umhverfismati samgönguáætlunar án þess að að þeirri vinnu komi þeir sérfræðingar innan Umhverfisstofnunar sem mesta þekkingu hafa á því. Í athugasemdum Umhverfisstofnunar sem birtar eru á bls. 183 og 184 í þessu þingskjali, athugasemdum Umhverfisstofnunar við áætlunina eins og hún er sett fram af ráðuneytinu og þeim sem hana vinna fyrir hana segir, og hér er reyndar bara útdráttur úr umsögn Umhverfisstofnunar, sem segir, með leyfi forseta:

„Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að umhverfisskýrsla samgönguáætlunar sé ekki í samræmi við markmið laga um umhverfismat áætlana. Þau eru m.a. að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að því að við áætlunargerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða.“

Kannski er það þess vegna að ekki er minnst einu orði á hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, vegna þess að menn hafa ekki haft ráðslag við þá sem mesta þekkingu hafa á að ganga frá því í svona áætlunum. Auðvitað koma þá athugasemdirnar frá Umhverfisstofnun.

Ég veit ekki hvað ég á að halda um þau vinnubrögð að Umhverfisstofnun hafi ekki verið með í að vinna þessa áætlun og að gera á henni umhverfismat, í fyrsta sinn sem það er gert með almennilegum hætti. Ég velti því fyrir mér hvers vegna Umhverfisstofnun var haldið utan við þetta. Ég veit reyndar vel að hún heyrir ekki undir samgönguráðuneytið en það skiptir engu máli í þessu samhengi. Hafi menn ætlað að vinna þetta faglega, ná árangri þannig að menn settu umhverfismarkmið sem mark væri á takandi og skiptu einhverju máli hljóta menn í samgönguráðuneytinu að hafa vitað að eðlilegt væri að kalla til sérfræðinga á því sviði. Með fullri virðingu fyrir verkfræðingunum sem unnu umhverfismatið þá er þetta kannski ekki endilega þeirra sérfræðisvið. Ég held að það komi í ljós í þessari áætlun og ég vil endilega (Forseti hringir.) hvetja hv. þingmenn til að (Forseti hringir.) lúslesa síðustu 100 blaðsíðurnar í þessu skjali. Þær eru mjög merkilegar.