133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

þjónustusamningur við SÁÁ.

[15:21]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Það var eins og við mátti búast, þetta er allt í skoðun og þarna virðist vera þrasað á milli tveggja ráðuneyta. Eða átti ég ekki að skilja það þannig að það þyrfti tvo til til að semja? Eða er það þá kannski SÁÁ sem er vandamálið í þeim samningaviðræðum?

Það virðist vera, frú forseti, að einhver tregða sé komin upp þarna á milli, annars vegar heilbrigðisráðuneytisins og hins vegar SÁÁ. Maður hefur tekið eftir þessu nokkuð oft síðustu missiri og ég er farinn að efast um að fullur vilji sé hreinlega til að gera þennan samning.

Þess vegna spyr ég ítrekað: Hvenær ætla menn að ljúka þeim viðræðum? Það á löngu að vera búið að því og hafa einmitt verið umræður í Alþingi síðustu vikurnar hversu miklu máli það skiptir að gerðir séu þjónustusamningar við slíkar stofnanir. Ég ítreka þá spurningu, hvenær ætlar ráðherra að klára þennan samning sem á að vera fyrir löngu lokið?