133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:35]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna ummæla hv. þm. Jóns Bjarnasonar vil ég endurtaka það sem ég sagði í umræðunni um annað mál í síðustu viku, að Landsvirkjun er ekki á neinum sölulista heldur tengjast þessi lagafrumvörp þvert á móti því að ríkið var að kaupa fyrirtækið til sín að öllu leyti og einkavæðing þess er ekki á dagskrá. Auk þess kom fram margs konar misskilningur í orðum hv. þingmanns um þróun í raforkumálum og raforkuverðlagsmálum að undanförnu. Ég vil upplýsa að það eru fleiri sem eru með lítt breytt eða heldur lækkandi verð. Reyndar er samanburður við árið 2003 sem grunnár mjög erfiður því þá var verðlag almennt fremur lágt. Við erum að athuga þetta í ráðuneytinu einmitt núna og ég vænti þess að frekari upplýsingar komi fram innan tíðar.