133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

merkingar á erfðabreyttum matvælum.

589. mál
[14:50]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spyr hvort komi til greina að mati ráðherra að setja reglugerð sem, auk kröfu um merkingu erfðabreyttra matvæla, krefst merkingar á vörum þar sem erfðabreytt hráefni hefur verið notað við framleiðsluna.

Reglugerðir Evrópusambandsins nr. 1829/2003, um erfðabreytt matvæli og fóður, og nr. 1830/2003, um rekjanleika og merkingu erfðabreyttra lífvera og rekjanleika matvæla og fóðurs sem eru afurðir erfðabreyttra lífvera, tóku gildi í aðildarríkjunum 2004. Þessar gerðir eru ekki komnar inn í EES-samninginn en málið er til umfjöllunar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem stendur. Að þessu leyti, frú forseti, er staðan sú sama gagnvart innleiðingu reglugerðarinnar að hún liggur hjá framkvæmdastjórninni eins og hún var þegar hv. þingmaður spurði þáverandi umhverfisráðherra og umhverfisráðherra svaraði sambærilegri fyrirspurn um merkingar erfðabreyttra matvæla í aprílmánuði á síðasta ári. Þrátt fyrir að þessar reglugerðir séu ekki komnar inn í EES-samninginn er hafin vinna í umhverfisráðuneytinu við reglugerð sem skyldar framleiðendur og seljendur til að merkja vörur sínar ef um er að ræða erfðabreytt matvæli, enda er heimild til þessa í lögum um matvæli nr. 93/1995.

Markmiðið með þeirri reglugerðarsetningu er að neytendur hafi val um það hvort þeir kaupi slík matvæli eða ekki. Staðan í málinu nú er sú að haldinn hefur verið fundur með hagsmunaaðilum þar sem drög að reglugerðinni voru kynnt. Reglugerðardrög hafa verið send út til umsagnar innan stjórnkerfisins og til hagsmunaaðila. Í þeim drögum, og þá kem ég að jákvæða svarinu við fyrirspurn hv. þingmanns, eru erfðabreytt matvæli skilgreind sem matvæli sem innihalda eða samanstanda af erfðabreyttum lífverum eða eru framleidd úr eða innihalda innihaldsefni sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum. Þannig er gert ráð fyrir að matvæli þar sem erfðabreytt hráefni hefur verið notað við framleiðsluna verði merkt. Svarið við spurningu hv. fyrirspyrjanda er því já.

Ég hef lagt áherslu á að hraða þeirri reglugerðarsmíð þar sem ég tel afar mikilvægt að neytendur hafi val um hvort þeir kaupi erfðabreytt matvæli eða ekki. Ég hef orðað það þannig að ég telji að fólk eigi að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að taka ákvörðun um hvað það almennt leggur sér til munns, erfðabreytt matvæli eða annað. Ég vænti þess að reglugerðin verði sett eftir tæknilegt tilkynningarferli innan EES sem er nauðsynlegt og áskilið þar sem þessar reglugerðir hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn. Svarið við fyrirspurn hv. þingmanns er já, ég hef reynt að flýta þessu máli vegna dráttar á innleiðingu reglugerðarinnar með því að nota lagaheimildina sem við eigum til þess að setja reglugerð sem kveður á um þessar merkingar allt í þágu neytendaverndar.