133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

merkingar á erfðabreyttum matvælum.

589. mál
[14:57]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilu hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar um nútímann eða ekki nútímann í þessu samhengi. Í svari mínu kom í sjálfu sér ekki fram nein afstaða til líftækninnar sem slíkrar, hvorki gagnvart matvælum né fóðri. Ég vil enn og aftur árétta að innleiðingin hefur dregist, ekki af orsökum sem okkur verður kennt um, heldur vegna þess ferils sem ég gerði grein fyrir í fyrra svari mínu. Afstaða mín hefur verið sú, og það er einungis neytendasjónarmið, að fólk eigi rétt á að vita hvort um sé að ræða erfðabreytt matvæli. Þess vegna þarf varan að vera merkt svo fólk viti hvað það er að kaupa og hvað það leggur sér til munns og eigi þannig val um hvort það kaupir vörur þar sem líftæknin hefur verð nýtt eða ekki. Þetta er sjónarhornið í þessu og afstaða mín er sú, eins og ég gerði grein fyrir, að bíða ekki eftir innleiðingunni, nota lagaheimildina og setja þessa reglugerð og síðan í kjölfarið, eftir að innleiðingarferlinu er lokið, verðum við með sama kerfi, sömu löggjöf og ríkir innan Evrópusambandsins, en drátturinn er ekki með okkar vilja og ekki fyrir ráðstafanir okkar á nokkurn hátt.