133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:12]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta mál er ákaflega skýrt ef menn draga fram þær staðreyndir sem skipta máli í þessu. Á síðustu átta árum hafa framtaldar launatekjur Íslendinga vaxið tvöfalt, tvöfaldast, en fjármagnstekjurnar hafa á sama tíma tífaldast. Fyrir átta árum voru fjármagnstekjur um 4% af heildartekjum framteljenda en eru núna um 17%. (Gripið fram í.) Þetta þýðir að hlutur fjármagnstekna í heildinni er liðlega 100 milljörðum kr. meiri en áður var. (SKK: Af hverju er það?) Þess vegna skiptir máli, virðulegi forseti, hvernig þessi hlutur skiptist. Skiptist hann eins og launatekjurnar eða skiptist hann öðruvísi en launatekjurnar? Hv. stjórnarliðar vilja taka þennan hluta teknanna frá vegna þess að þeir vita, sem satt er, (Gripið fram í.) að skipting fjármagnstekna hér á landi er (Gripið fram í.) allt öðruvísi en skipting launatekna. Þeir vita líka að hlutur fjármagnstekna hér á landi er miklu hærri en í viðmiðunarlöndunum. (Gripið fram í.) Það er vegna þess að hér eru skattareglur svo rúmar að skattlagning á fjármagnstekjur eru lægri en í flestum öðrum löndum Evrópu. (SKK: Viltu þá hækka skattana?)

Hér eru 30 þús. einkahlutafélög, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, og hvað eru menn að gera í þeim einkahlutafélögum? Menn eru að nota þau sem leið fram hjá skattlagningu launatekna. Skipting fjármagnstekna er þannig að af þessum 120 milljörðum rennur langstærstur hluti þeirra til aðeins um 1% framteljenda. Um 82% af söluhagnaði af hlutabréfum rennur til 1% tekjuhæstu framteljenda landsins. Liðlega 2 þús. manns hafa yfir 22 millj. í tekjur, hver og einn. Vegna skattkerfisins og með einkahlutafélögunum komast menn hjá því að borga sinn skerf til samfélagsins og sá skerfur (Forseti hringir.) er lagður á launþega, virðulegur forseti, og þess vegna hlæja hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og Guðjón Ólafur Jónsson vegna þess að (Forseti hringir.) þeir hlæja að launþegum í þessu landi.