133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[11:27]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra um störf norrænu ráðherranefndarinnar árið 2006.

Árið var viðburðaríkt á norrænum vettvangi en Norðmenn gegndu þá formennsku í ráðherranefndinni. Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir neinum kúvendingum í megináherslum samstarfsins við formannsskipti getur formennskulandið þó lyft undir ýmis mál og sett í forgang. Norðmenn settu norðursvæði Evrópu í öndvegi ásamt norræna velferðarkerfinu og nokkrum lykilhugtökum eins og þekkingu, endurnýjun og verðmætasköpun í hnattvæddum heimi.

Fimm ára rannsóknarverkefni um norræna velferðarkerfið lauk á árinu. Framhald velferðarrannsókna er þó tryggt þar sem ákvörðun var tekin í norræna rannsóknarráðinu NordForsk um að verja allt að 75 milljónum norskra króna til slíkra rannsókna á næstu fimm árum. NordForsk hóf starfsemi sína í upphafi árs 2005 þegar nokkrar norrænar rannsóknarstofnanir voru sameinaðar í eina öfluga og fjársterka stofnun. Fyrir Íslands hönd sitja formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og formaður rannsóknarsjóðs í stjórn NordForsk en Rannís hefur með höndum starfræn tengsl við stofnunina.

Í fyrstu starfsáætlun NordForsk fyrir 2006–2009 er lögð sérstök áhersla á að byggja samstarf landanna á innri styrk Norðurlanda og á þeim þjóðfélagslegu gildum sem einkenna löndin fimm. Áhersla er og lögð á að beita samstarfinu í hnattrænu samhengi. Markmiðið með styrkveitingu NordForsk er fyrst og fremst að tengja áherslusvið landanna sem best og skapa þannig samlegðaráhrif. Auk þess að veita fjármagni til velferðarrannsókna var á árinu ákveðið að verja allt að 90 milljónum norskra króna á næstu fimm árum til rannsóknarverkefnis sem ber heitið: Matur, næring, heilsa.

Segja má að sú stefnumörkun sem kemur fram í fyrstu starfsáætlun NordForsk sé mjög í anda skýrslunnar „Norðurlönd – sigursvæði á heimsvísu“, sem var mikið í norrænni umræðu á árinu. Það er lagt út frá þeirri staðhæfingu að Norðurlönd hafi allar forsendur til að vera fremst í flokki sem aðlaðandi markaðssvæði í stöðugt vaxandi alþjóðlegri samkeppni. Með því að nýta sér það forskot sem felist í grunnþáttum norrænnar þjóðfélagsgerðar í sameiginlegum menningararfi, mannauði og náttúruauðlindum geti Norðurlönd í samvinnu aukið mjög aðdráttarafl sitt.

Skýrslan hefur þegar haft talsverð áhrif á áherslur samstarfsins og má reikna með að norræna ráðherranefndin muni á næstu árum beita sér í auknum mæli fyrir verkefnum þar sem Norðurlönd kynna sig sem eitt svæði á alþjóðavettvangi. Eitt slíkra verkefna ber yfirskriftina Ný norræn matvæli og því verkefni var formlega ýtt úr vör á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Kaupmannahöfn síðla hausts. Verkefnið hefur það hlutverk að varpa ljósi á þá fjölbreyttu möguleika til verðmætasköpunar sem felast í matvælaframleiðslu Norðurlanda.

Þegar Norðurlönd koma fram sem ein heild í heimi rannsókna og nýsköpunar eru þau öflugri en þegar hvert land um sig vill gera sig gildandi. Í alþjóðlegri samkeppni eru Norðurlönd ekki stórt svæði, þar búa einungis rétt tæplega 25 milljónir manna og þá skiptir samtakamátturinn miklu máli og að menn geri sér grein fyrir bæði styrkleikum sínum og veikleikum.

Ein mikilvægasta breytingin sem orðið hefur á norrænu samstarfi á undanförnum árum er að það beinist í æ ríkari mæli út á við. Samstarfið snýst nú ekki einvörðungu um samvinnu þjóðanna innbyrðis heldur ekki síður um samstarf þeirra við aðrar fjölþjóðlegar stofnanir og grannsvæði þar sem hagsmunir aðila fara saman. Það má velta því fyrir sér hvort aðkoma norrænu ráðherranefndarinnar sé nauðsynleg þar sem löndin hvert í sínu lagi eiga í umfangsmiklu samstarfi við aðrar þjóðir um hin margvíslegustu málefni, bæði með milliríkjasamningum, á vettvangi ESB og annarra stofnana. Því er til að svara að ráðherranefndin vinnur beint að málum þar sem löndin sjálf, aðrar alþjóðlegar stofnanir eða aðrir aðilar geta ekki náð eins góðum árangri. Ráðherranefndinni er ætlað að tryggja að norræn samvinna eigi sér stað á þeim sviðum þar sem hún gagnast best en öðrum látið eftir að starfa þar sem líkur benda til að þeir hafi forskot.

Samvinna við nágranna Norðurlanda er mikilvægt verkefni og sama gildir um allt samstarf sem eflir áhrif landanna í Evrópu. En þó svo að við getum verið sammála um að í norrænu samstarfi þurfi að beina sjónum út á við og laga sig að því sem er að gerast í umheiminum má ekki láta hjá líða að rækta það sem norrænt er. Í því er sérstaða Norðurlanda fólgin og þar liggur einmitt einn mikilvægasti styrkleiki svæðisins. Með samstarfinu eigum við að hvetja til dáða, sérstakar norrænar viðurkenningar eins og verðlaun Norðurlandaráðs á sviði bókmennta og tónlistar eru gott dæmi þar um. Og þó svo að enska sé alltumlykjandi í alþjóðlegum samskiptum breytir það ekki því að norræna málsamfélagið er límið í samheldni Norðurlanda.

Samstarf ráðherranefndarinnar við ESB hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Markmið þess er að treysta öryggi og stuðla að sjálfbærri þróun í Norður-Evrópu auk þess að ýta undir lýðræðisþróun á svæðinu. Slíkar sameiginlegar aðgerðir snúa einkum að þeim grannríkjum Norðurlanda og ESB sem standa utan við samstarf Evrópuríkja en þar eru Rússland og Hvíta-Rússland ef til vill mikilvægust.

Meðal samstarfsverkefna ESB og ráðherranefndarinnar er rekstur hvítrússneska útlagaháskólans, European Humanities University, sem hafði áður aðsetur í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Hann hefur verið starfræktur í Vilníus í Litháen frá haustinu 2005 með fjárframlögum m.a. frá ESB, Finnlandi, Svíþjóð og norrænu ráðherranefndinni. Þar leggja 350 hvítrússneskir námsmenn stund á nám í samfélagsgreinum og húmanískum fræðum.

Á árinu var tekin ákvörðun um nýtt samstarfsverkefni ráðherranefndarinnar og ESB til stuðnings hvítrússnesku námsfólki. Í kjölfar þess að hvítrússneskir námsmenn skipulögðu mótmæli í tengslum við forsetakosningar þar í landi í mars á síðasta ári var mörgum þeirra vikið frá námi. Ráðherranefndin og ESB hafa tekið höndum saman um að styrkja þennan hóp með því að gefa honum kost á að sækja um námsstyrk til að ljúka námi annaðhvort við EHU eða háskólum í nágrannaríkinu Úkraínu. Gert er ráð fyrir að unnt verði að styrkja um 100 hvítrússneska námsmenn með þeim hætti.

Í framhaldi af þessu má einnig nefna að mikilvægur vettvangur samstarfs ESB og norrænu ráðherranefndarinnar er áætlun sambandsins um Norðlægu víddina en í lok nóvember sl. færðust Ísland, Noregur og Rússland formlega inn í samstarfið á þessu sviði þegar samkomulag þar að lútandi var undirritað á utanríkisráðherrafundi í Helsingfors. Norræna ráðherranefndin hefur á undaförnum árum tekið virkan þátt í framkvæmd áætlunarinnar, einkum með því að fella áherslur hennar inn í norrænu málefnadagskrána. Þannig hefur Norðlæga víddin verið vettvangur fyrir samstarf ráðherranefndarinnar og ESB um umhverfismál, félags- og heilbrigðismál og upplýsingatækni.

Staða sjálfstjórnarlandanna Færeyja, Grænlands og Álands var til umfjöllunar í hópi samstarfsráðherranna á árinu. Upphafið má rekja til þess þegar Færeyingar tilkynntu árið 2002 að þeir sæktust eftir fullri aðild að norrænu ráðherranefndinni og að Norðurlandaráði. Á miðju ári skilaði norræn nefnd sérfræðinga á sviði lögfræði og þjóðréttarfræði úttekt um málið þar sem farið er yfir raunverulega stöðu sjálfstjórnarlandanna gagnvart móðurlöndunum og þeim norrænu samningum sem starfsemi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar byggir á. Samstarfsráðherrarnir hafa fjallað um úttektina og telja að þörf sé á að kanna frekar þær hindranir sem standa í vegi fyrir fullri aðild sjálfstjórnarlandanna.

Þetta mál er bæði viðkvæmt og flókið viðureignar í þjóðréttarlegum skilningi og á því eru margar mismunandi hliðar sem taka verður tillit til. Má þar nefna spurninguna um hugsanlegar breytingar á Helsingfors-samningnum en Svíar hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki fara inn á þá braut. Þá er bæði mismunur á stjórnarskrárbundinni stöðu sjálfstjórnarlandanna heima fyrir og á óskum þeirra um aukna aðild. Þrátt fyrir þetta er stefnt að því að máli þessu ljúki á þingi Norðurlandaráðs í haust með því að samstarfsráðherrarnir leggi fram tillögur um hvernig megi bæta stöðu sjálfstjórnarlandanna í norrænu samstarfi.

Samstarf ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs var sem endranær ágætt á árinu. Það samráð varðaði einkum fjárlögin, bæði undirbúning þeirra en einnig nýskipan í norrænni fjárlagagerð sem unnið var að á árinu. Ráðherranefndin telur mikilvægt að Norðurlandaráð komi að fjárlagagerðinni á sem flestum stigum þannig að unnt sé að taka tillit til sjónarmiða og óska og tryggja þannig pólitískar áherslur að þær endurspeglist í fjárlögunum.

Samstarfsráðherra leggur nú fram fyrir Alþingi ársskýrslu sína í 20. sinn. Markmiðið er annars vegar að gefa glöggt yfirlit yfir það hvernig fjármunum til samstarfsins var varið á liðnu ári og hins vegar að gefa alþingismönnum færi á að ræða á Alþingi þá stefnu sem fylgt er í samstarfinu og ekki síður að leggja fram sjónarmið sín um hvaða breytingar þeir vilja sjá og ræða hugmyndir um breytingar. Ég legg sérstaka áherslu á síðastnefnda atriðið því allt of oft er tíminn til umræðu um skýrsluna á Alþingi of knappur og menn ekki tilbúnir til að beina sjónum að hinni pólitísku stefnumótun.

Það umhverfi sem norrænir stjórnmálamenn lifa í er orðið svo kröfuhart á tíma og athygli þeirra og baráttan um fjármagnið svo hörð að norrænt samstarf mun gjalda þess ef þessum þáttum er ekki gefinn gaumur. Menn verða því að vera tilbúnir á allra næstu árum til að draga skarpari línur í samstarfinu og færa þær fórnir sem því fylgir. Við verðum að ganga harðar fram í því að forgangsraða og það getur þýtt að á tímabilum muni einhver samstarfsmálefni færast neðar á verkefnalistanum en nú er. En það sem er kannski mikilvægast nú fyrir norrænt samstarf er að það þarf að fá meiri pólitíska skírskotun. Norrænir stjórnmálamenn og leiðtogar verða að senda frá sér skýrari skilaboð um hvað það er sem þeir vilja með samstarfinu á næstu árum.

Eftir að hafa nú setið sem samstarfsráðherra í hálft ár er ég sannfærð um þetta. Jafnframt er ég sannfærð um að ef við náum þessu munum við geta beitt norrænu samstarfi sem tæki til að láta til okkar taka í ört vaxandi samkeppni á alþjóðlegum vettvangi.