133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Norræna ráðherranefndin 2006.

569. mál
[14:16]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um það mál sem ég hef tekið þátt í á vettvangi Norðurlandaráðs. Ég hef átt sæti í tveimur nefndum, annars vegar nefnd sem við köllum borgara- og neytendanefnd og hins vegar nefnd sem kölluð er eftirlitsnefnd á vegum Norðurlandaráðs. Ég vil fara örfáum orðum um það starf þó að ég ætli ekki að endurtaka það sem hér hefur verið flutt í mjög góðum skýrslum í morgun en mér finnst að mörgu leyti að við hv. þingmenn og Alþingi gerum ekki alveg nóg úr því mikla og góða starfi sem unnið er á vettvangi Norðurlandaráðs. Við náum kannski ekki að kynna það nægilega vel á Alþingi og þess vegna langar mig að nefna það að rétt áður en ég tók til máls hélt hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir ágæta ræðu og fór yfir sín mál og hún var að fara eins og við öll yfir síðastliðið starfsár.

Ég vil koma því á framfæri, frú forseti, hvort ekki væri rétt að athuga það að við gerðum þetta með öðrum hætti en nú er gert, þ.e. við eyðum 4–5 klukkutímum í þessa umræðu einu sinni á ári, og við tækjum slíka umræðu í hvert skipti sem fulltrúar Alþingis hafa sótt fundi á vegum Norðurlandaráðs og þá gæfist þeim jafnframt tækifæri til að segja frá því starfi sem þeir hafa unnið að jafnóðum. Þessu vil ég koma að.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir nefndi áðan ráðstefnur sem hún hefði setið á, sem hafa eflaust verið mjög áhugaverðar, en gat því miður ekki gefið sér tíma til að fara yfir efni ráðstefnanna. Með því að við tækjum það upp í hvert sinn sem við og fulltrúar Alþingis hefðum verið á fundum Norðurlandaráðs mundi þetta verða meira lifandi og vakandi umræða og fylgja tímanum hverju sinni varðandi einstaka málaflokka.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hef ég starfað í borgara- og neytendanefnd en sú nefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum. Þetta eru meginatriði sem nefnd þessi fjallar um. Hún er ekki ólík þeirri nefnd sem við höfum á Alþingi sem er allsherjarnefnd en ég á jafnframt sæti í allsherjarnefnd Alþingis. Þessi mál eru okkur því kunn og fara oft saman sem við það sem við erum að ræða í þeirri nefnd Alþingis.

Þau mál sem hafa verið mjög ofarlega á baugi í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs varða mansal, kynlífsþjónustu og kynlífsþrælkun. Þessa málaflokka höfum við verið að taka nokkuð upp hér á þinginu og fara yfir með hvaða hætti við Íslendingar getum komið að þeim og breytt löggjöf okkar hvað þá varðar. Mér finnst við vera að feta okkur í átt að því sem við þurfum að gera og eftir því sem bæði samfélag okkar og samfélagið hnattrænt er að þróast. Það er ýmis starfsemi á vegum Norðurlandaráðs sem vert væri að kynna eins og t.d. norræn rannsóknarstofa sem rekin er frá Ósló og heitir NIKK og hefur einmitt með þennan málaflokk að gera. Væri í rauninni full ástæða til að kynna hann betur, bæði fyrir hv. Alþingi og allsherjarnefnd sem er að vinna mikið að slíkum málum.

Á þeim fundum sem við höfum setið hafa málefni innflytjenda jafnframt verið mjög uppi á borði og ýmis mál sem þeim tengjast. Hvar sem þá ber að landi á Norðurlöndunum leggja þeir yfirleitt og oftast fram mikið vinnuframlag og hjálpa okkur Norðurlandabúum en þar eru vandamál eins við þekkjum í samfélagi okkar, eins og tungumálavandamál, sem vinna þarf að. Á hinu háa Alþingi er einmitt verið að vinna að löggjöf í allsherjarnefnd sem tekur á málefnum innflytjenda og vonandi gerum við vel hvað það varðar.

Þær nefndir sem starfa á vegum Norðurlandaráðs fara gjarnan í kynnis- og fræðsluferðir, hér eru þær nefndar sumarferðir. Síðastliðið sumar fór einmitt þessi borgara- og neytendanefnd til Grænlands til að kynna sér þá málaflokka sem varða þessa nefnd. Þar var farið yfir mál er varða réttarkerfið, ofbeldismál, afbrotamál, fangelsismál. Það er mjög sérstakt að koma í annað samfélag þó að það sé mjög nærri okkur og sjá hvernig málin standa þar og er auðvitað mjög lærdómsríkt fyrir okkur og það er alveg augljóst að við getum líka miðlað af okkar eigin reynslu og þekkingu til annarra nágrannaþjóða okkar.

Mig langar rétt aðeins að nefna hina nefndina sem ég á sæti í sem er eftirlitsnefnd á vegum Norðurlandaráðs en ég er eini fulltrúinn frá Íslandsdeildinni í þeirri nefnd. Henni er ætlað að fylgjast með fyrir hönd Norðurlandaráðsþingsins starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Þessi nefnd hittist gjarnan þegar fundir Norðurlandaráðs standa en samt var það nýmæli tekið upp að nú mun nefndin hittast utan hinna hefðbundnu funda. Á síðastliðnu sumri kom þessi nefnd í heimsókn hingað til Íslands og kynnti sér, skoðaði og fór yfir þau verkefni sem unnin eru hér á landi á vegum Norðurlandaráðs. Það var mjög ánægjulegt að vera þátttakandi þar og fá að fylgjast með og fá jafngreinargóða yfirsýn yfir þau fjölþættu störf sem unnin eru á Íslandi á vegum Norðurlandaráðs og fjármögnuð af því ásamt okkur Íslendingum hvað þennan vettvang varðar. Ég get fullyrt að þeir fulltrúar sem komu frá hinum Norðurlöndunum voru mjög ánægðir og sáttir við þau störf sem við innum af hendi hér hvað þetta varðar.

Í desembermánuði kynnti eftirlitsnefndin sér skrifstofur sem reknar eru á vegum Norðurlandaráðs í Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Í höfuðborgum þessara landa eru reknar þrjár skrifstofur sem kostaðar eru að miklu leyti af Norðurlandaráði. Á þessum þremur starfsstöðvum starfa u.þ.b. 30 starfsmenn. Það sem kemur kannski mjög á óvart er að þau fjárframlög sem koma frá Norðurlandaráði margfaldast með styrkjum sem þessar skrifstofur fá sérstaklega frá Evrópusambandinu til hinna ýmsu sérverkefna sem þær eru að vinna á þessu starfssvæði og svo í Evrópu. Þeir fjármunir sem Norðurlöndin leggja þarna til margfaldast því og nýtast bæði þessum löndum og Norðurlöndunum mjög vel.

Það var jafnframt mjög ánægjulegt og sérkennilegt að sjá og átta sig á hve starfsemi þessara þriggja skrifstofa frá Norðurlöndum er mismunandi í þessum þremur höfuðborgum, gríðarlega mismunandi. Skrifstofan í Vilníus er t.d. á menningarsviðinu og tengist þannig niður til Evrópu en aftur á móti hefur skrifstofan í Litháen verið að þjónusta íslensk fyrirtæki sem hafa starfsemi sína þar og starfar þá meira sem þjónustuaðili gagnvart þeim íslensku fyrirtækjum sem þar eru ásamt fyrirtækjum frá öðrum Norðurlöndum.

Frú forseti. Ég ítreka aftur það sem ég vil leggja áherslu á hér að mér finnst þetta starf vera gagnlegt okkur Íslendingum og ég er sannfærður um að við lærum margt af nágrönnum okkar og við getum deilt ýmsum fróðleik og þekkingu, ekki síst hvað varðar umhverfismálin þar sem við stöndum langfremst af Norðurlöndunum og við eigum að vera stolt af því að vera með yfir 70% af endurnýjanlegri orku hér á landi. Það er mikil umræða í samfélaginu og nú rétt áðan á hinu háa Alþingi um virkjanir en það er styrkur okkar til frambúðar hversu vel við búum hvað orkumálin varðar. Það er því sérkennilegt að taka þátt í umræðu eins og var áðan á Alþingi og fylgjast svo með þeirri umræðu sem er á Norðurlöndunum hvað varðar vandamál þeirra sem snúa fyrst og fremst að brennslu á olíu, gasi og kolum og sáralítilli endurnýjanlegri orku nema helst kannski í Noregi þar sem þeir hafa vatnsaflið.

Eins og ég sagði áðan vildi ég gjarnan sjá að svona skýrsla væri flutt oftar og að farið væri jafnharðan yfir þau mál sem við erum að vinna að á þessum vettvangi. Ég tek undir þakkir þeirra þingmanna sem hafa flutt sitt mál um að samstaða innan íslenska hópsins er mjög góð og við höfum góða þjónustu frá þeim starfsmönnum sem vinna með okkur.